Í erfiðleikum þurfum við hvað mest á beittum verkfærum hugans að halda. Sér í lagi þegar aðstæðurnar eru óræðar og við vitum ekki hvað tekur við. Það er eitt að feta sig varlega upp brekkuna í þykkri þokunni en að hlaupa af fullum krafti inn í myrkrið er annað. Í brekkunni reynast þó oft stærstu tækifærin okkar. Þegar við lítum til baka og skoðum hvenær við tókum hvað mestum framförum og stærstum breytingum til hins betra, var það oft í kjölfar erfiðleika eða mótlætis. Sársaukinn er nefnilega frábær kennari. Ekkert mjög blíður en frábær kennari. Ef við bara hlustum. Í aðstæðum undanfarinna mánuða hafa leynst tækifæri til að læra, breyta, stækka, minnka, mýkjast eða styrkjast. Sársaukinn hefur eflaust verið mikill hjá mörgum. Vonleysi, ótti um hvað verði, hvort ég muni komast á ólympíuleika, hvort þeir verði yfirhöfuð, hvenær ég geti byrjað að æfa almennilega aftur og hvað keppinautar mínir séu að gera núna. Sögurnar sem við höfum sagt okkur hafa alveg örugglega verið ansi dökkar á köflum. Sögur margra sem ég hef unnið með á þessu tímabili hafa verið það. En í mesta sársaukanum erum við oft styst frá stærstu breytingunum.
Mikilvægi mótlætaþols og einbeitingarfærni vex á svona tímum. Einbeiting er í grunninn einföldunarvinna. Það er færnin til að vinna með þær upplýsingar sem færa okkur nær markmiðum okkar, samtímis því sem við útilokum allt það sem hjálpar okkur ekki. Það er svo sannarlega ekki alltaf auðvelt að útiloka áreitin sem hjálpa okkur ekki. Púkann á öxlinni sem í sífellu leggur til súkkulaðiát þegar við einblínum á gott mataræði, hugsunina um að þetta „megi bara ekki klikka núna“ þegar mest liggur við eða pirringinn yfir því að geta ekki bara „æft eins og venjulega“. Ef við hins vegar dveljum aðeins við óþægindin sem fylgja þessum truflunum gætum við lært ansi mikið á „holurnar“ í færni okkar. Við erum nefnilega líkleg til að tapa einbeitingu þar sem við erum viðkvæmust. Þar sem okkur skortir mest færni. En þar eru við sömuleiðis kannski hvað styst frá þeirri færniaukningu sem við mest þurfum á að halda. Í óræðum og óvenjulegum aðstæðum, þar sem við getum ekki gert eins og venjulega, liggja tækifæri til breytinga. Í hverju erum við best? Jú, því sem við nærum og gerum mest af. Núna höfum við tækifæri til að gera meira af því sem við gerum vanalega lítið af. Við gætum til dæmis unnið í þeim hugarþáttum sem hafa áhrif á frammistöðu okkar hvað mest.
Mótlætaþol, sem er færnin til að svara erfiðleikum með raunsærri túlkun á aðstæðum, passlegum tilfinningastyrk og áhrifaríkri hegðun, verður sérstaklega mikilvægt í langvarandi óræðum og óvenjulegum aðstæðum. Þegar við verðum þreytt, hrædd, reið, ringluð eða vonlaus þá getur verið reglulega erfitt að gera eitthvað áhrifaríkt af passlegum krafti. En prófum að dvelja í erfiðleikunum og reynum að sprengja ekki upp aðstæðurnar. Þar lærum við svo mikið. Þar reynir svo mikið á okkur. Og þar vex mótlætaþol okkar hratt. Förum inn í óþægindin og dveljum þar svolitla stund. Í þeirri dvöl þurfum við á einbeitingu að halda. Við þurfum að einfalda aðstæðurnar og einfalda þær svo ögn meira. Hvað er mikilvægast að gera og hvernig þurfum við að hugsa og finna? Hver eru gildin okkar og hvers vegna erum við að þessu? Ef þau eru óljós eða skökk erum við komin með skýr markmið og aftur er sársaukinn svo góður kennari. Einbeiting er jú einföldunarvinna og verkefni okkar næstu mánuði er að einfalda alla nálgun okkar. Gera allt en eingöngu það sem færir okkur nær. Nýtum þetta tímabil til að nálgast „holurnar“ í færni okkar með nýjum hætti. Munum að þar sem við erum slökust er styst í mestu framfarirnar. Við þurfum engu að síður að dvelja í sársaukanum sem fylgir því að gera það sem við erum ekki vön. Að gera það sem við erum verst í eða okkur finnst óþægilegast. Leyfum óþægindunum að kenna okkur og aukum þannig mótlætaþol okkar. Keppumst við að einfalda nálgun okkar og ríghöldum einbeitingu á það sem færir okkur nær því sem okkur dreymir um, hversu stórt eða smátt sem það kann að vera. Leyfum aðstæðunum núna að verða undanfari þess sem okkur langaði mest.
Erlendur Egilsson
sálfræðingur