Heim 1. tbl 2020 Hugleiðingar um golf

Hugleiðingar um golf

8 min read
Slökkt á athugasemdum við Hugleiðingar um golf
0
1,102

Hvað er golf? Golf er einstaklingsíþrótt sem að mörgu leyti hentar fötluðum einstaklingum mjög vel þar sem forgjöf jafnar stöðu einstaklinga og geta þeir spilað og keppt á jafnréttisgrundvelli þrátt fyrir getumun. Einnig geta ungir sem aldnir hæglega spilað saman golf sem er ekki raunin í mörgum öðrum íþróttagreinum.

Á tímum COVID-19 veirunnar er golf kannski ekki það fyrsta sem fólki dettur í hug en nú, þegar sólin hefur hækkað á lofti og veiran virðist á undanhaldi, leiðir maður hugann að því hvað sé nú hægt að gera til að ná meiri færni í golfíþróttinni og eins hvar og hvort það verði hægt að stunda golfið í sumar.

Golfsamband Íslands og golfklúbbarnir í landinu hafa sett upp metnaðarfullar reglur sem taka á umgengni á völlum og í golfskálum til að gera kylfingum kleift að iðka íþróttina þrátt fyrir COVID-19. Fólki er bent á að kynna sér þær reglur áður en leikur hefst og ætti hætta á smiti á golfvöllum landsins að vera hverfandi ef þeim reglum er fylgt. Þegar þetta er ritað hafa margir golfklúbbar opnað fyrir leik á sínum völlum og aðrir klúbbar opna á næstu dögum. 

Margir klúbbar hafa beðið með opnun sökum þess hvað vorið hefur verið kalt og gróður seint á ferðinni. Kylfingar mega þó vel við una þrátt fyrir kalt vor og breyttar reglur því þeir geta stundað golfíþróttina um leið og vellirnir opna sem er meira en margar aðrar íþróttagreinar mega gera á þessum viðsjárverðu tímum.

En það er ekki nóg að fara bara út á golfvöll um leið og opnar, maður verður að æfa sveifluna og púttin til að ná einhverjum árangri og til að skorið verði ásættanlegt. Undanfarnar vikur hafa ekki verið hliðhollar kylfingum, öll æfingasvæði meira og minna lokuð vegna COVID-19. En þá er bara að nota hugmyndaflugið og bjarga sér með því að æfa púttin heima í stofu á þar til gerðum púttmottum. Þeir sem ekki eiga slíkar mottur geta púttað á stofuteppinu og púttað að stólfæti eða í liggjandi vatnsglas. Einnig er hægt að æfa golfsveifluna með því að sveifla kylfunni úti í garði eða í bílskúrnum. Það þarf líka að huga að þrekinu og er gott að fara í göngu- eða hjólatúra til að auka þrek áður en að golfleiknum kemur.

Golfsamtök fatlaðra á Íslandi, GSFÍ, hafa lengi staðið fyrir golfæfingum fyrir fatlaða og hafa margir mjög góðir kylfingar stigið sín fyrstu skref í golfíþróttinni undir handleiðslu kennara GSFÍ. Hafa samtökin oft staðið fyrir ferðum til útlanda þar sem margir þessara kylfinga hafa keppt á golfmótum, staðið sig með stakri prýði og unnið til verðlauna. Samtökin hafa alla tíð lagt áherslu á að vera með vel menntaða PGA-kennara og að kennslan sé einstaklingsmiðuð og hagað þannig að hún henti hverjum einstaklingi fyrir sig. Auk þess að kenna golftækni er lögð áhersla á helstu golfreglur og undirstöðuatriði er varða umgengni og háttvísi úti á vellinum. 

Eftir hlé á æfingum undanfarna mánuði hafa æfingar hafist að nýju hjá GSFÍ og eru haldnar í Hraunkoti, æfingaaðstöðu Golfklúbbsins Keilis í Hafnarfirði.  Kennari er Karl Ómar Karlsson og nánari upplýsingar er hægt að nálgast á Facebook-síðu samtakanna undir „Golfsamtök fatlaðra á Íslandi“.

Einnig er haldið úti æfingum fyrir fatlaða hjá Golfklúbbi Akureyrar og Golfklúbbi Vestmannaeyja í samstarfi við GSFÍ. Á Akureyri eru æfingar undir stjórn og kennslu Heiðars Davíðs Bragasonar og er hægt að nálgast upplýsingar á Facebook-síðu undir „Golfhópur fatlaðra á Akureyri“. Í Vestmannaeyjum er það Karl Haraldsson sem er kennari. Fyrir áhugasama má finna netföng þessara kennara á heimasíðum klúbbanna. 

Suðri, íþróttafélag fatlaðra á Selfossi, í samstarfi við Golfklúbb Selfoss hafa einnig staðið fyrir golfnámskeiðum fyrir fatlaða undanfarin sumur.

Svo er bara að drífa sig út í golf og njóta um leið einstakrar íslenskrar náttúru og birtu á frábærum golfvöllum vítt og breitt um landið. 

Gleðilegt golfsumar.

F.h. Golfsamtaka fatlaðra á Íslandi,
Ólafur Ragnarsson

GSFÍ á Facebook

Sækja skyldar greinar
  • Evrópumót Virtus

    Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…
  • Evrópuleikar ungmenna

    Evrópuleikar ungmenna – European Para Youth Games (EPYG) hafa verið haldnir frá árin…
  • Ein af betri æfingaaðstöðum á landinu

    Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fékk nýveri ðafnot hluta af gömlu slökkvistöðinni í Reykjan…
Load More By merla
Load More In 1. tbl 2020
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Evrópumót Virtus

Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…