Heim #WeThe15

#WeThe15 – Samfélagslegt átak 

Í kjölfar Paralympics leikanna í London 2012 varð mikil vitundarvakning meðal bresku þjóðarinnar um getu fatlaðra til þess að stunda íþróttir á afreksstigi. Þessi vitneskja leiddi til þess að almenningur setti samansem merki milli getu til íþrótta og þess að stunda vinnu sem og getu til að þess að lifa sem virkur þegn í samfélaginu. Horft var til styrkleika fremur en veikleika og horft á ávinning samfélaga að nýta kraft fólks með fötlun.  Hlutfall fatlaðra í atvinnulífinu jókst markvert í kjölfar leikanna og atvinnurekendur leituðu markvisst eftir því að ráða fatlaða til vinnu. Í dag er talið jafn eðlilegt að fatlaðir séu starfandi í almennum fyrirtækjum og hver annar þegn í samfélaginu. Bretar tala um samfélagsbyltinguna og hvernig augu almennings voru opnuð og fordómar í garð fatlaðra snar minnkuðu.

Þórður Árni Hjaltested, formaður ÍF

Nú í aðdraganda Paralympics, Tokyo2021, á þessu herrans ári 2021, leggur IPC, Alþjóða Ólympíuhreyfing fatlaðra, ásamt fjölda alþjóðasamtaka og stofnana Sameinuðu þjóðanna í markaðsáttak undir heitinu #WeThe15, eða „Við 15% íbúa heimsins“ viljum að þið hin, 85%, takið eftir getu okkar til þess lifa og starfa sem virkir þegnar í samfélagi við aðra menn. Samstarfsaðilar um verkefnið skora á alla til þess að fylgjast með Paralympics leikunum sem hefjast í Tokyo 24. ágúst og standa til 5. september 2021 þar sem fatlað íþróttafólk tekur þátt í  afreksíþróttum á jafnréttisgrundvelli. Yfirfærum þessa vitneskju á almennt viðhorf okkar til fatlaðra og getu þeirra til að stunda atvinnu og að lifa við jafnrétti og njóta virðingar í samfélagi þegna hvers lands. 

Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) er stolt af því að vera í fararbroddi þessa átaks ásamt Öryrkjabandalagi Ísland (ÖBÍ) hér á landi. Það er von okkar að þátttakendur okkar á Paralympics (Ólympíumóti fatlaðra) fangi athygli landsmanna á komandi vikum með þátttöku sinni í mótinu. Ég er viss um að þessir 6 frábæru afreksmenn munu gera sitt allra besta í að ná sem bestum árangri. En eins og slagorð ÍF segir: Stærsti sigurinn er að vera með! Að hafa sigrast á þeim hindrunum sem í vegi hvers afreksmanns sem náð hefur að vinna sér rétt til þátttöku á Ólympíumóti eða Ólympíuleikum er sigur í sjálfu sér. 

Litur átaksins er fjólublár, klæðumst fjólubláu til að sína samstöðu með átakinu „#WeThe15“ og látum skilaboðin berast á samfélagsmiðlum.

Þórður Árni Hjaltested, formaður ÍF

Hér má fylgjast með verkefninu um allan heim
Á Facebook-síðu ÍF er hægt að fylgjast með #WeThe15 ásamt öðrum fréttum af okkar fólki
Hér getur þú haldið áfram á Hvata síðuna