Setningarhátíð Paralympics fer fram í Tokyo í Japan þann 24. ágúst næstkomandi. Hátíðin hefst kl. 20.00 að staðartíma eða kl. 11.00 að íslenskum tíma. Rétt eins og við Ólympíuleikana verða fánaberar Íslands tveir en það eru þau Thelma Björg Björnsdóttir og Patrekur Andrés Axelsson sem munu leiða íslenska hópinn inn á opnunarhátíðinni.
Thelma Björg keppir nú á sínum öðrum leikum en hún var einnig á Paralympics í Ríó de Janeiro árið 2016. Thelma keppir í sundi í flokki S6/SB5 sem er flokkur hreyfihamlaðra. Patrekur Andrés Axelsson er að taka þátt í sínum fyrstu leikum en hann keppir í flokki T11 sem er flokkur blindra.
Þetta er því í fyrsta sinn sem Ísland verður með tvo fánabera við leikana en eins og flestum er kunnugt verða ekki áhorfendur í stúkunni vegna heimsfaraldursins sem nú geysar. Fulltrúar Íslands treyst því að þess í stað fylgist enn fleiri með við sjónvarpið heima.
Mynd/ JBÓ: Keppendur Íslands í Paralympic-þorpinu í dag.