Ásmundur Einar Daðason, Félags og barnamálaráðherra hefur undanfarin tvö ár staðið að baki nýju samstarfi Félagsmálaráðuneytisins og Íþróttasambands fatlaðra þar sem ÍF hefur fengið tækifæri til að stýra styrkúthlutun til nýrra verkefna. Íþróttasamband fatlaðra hefur haft umsýslu með styrk frá ráðuneytinu sem hefur að markmiði að efla heilbrigði fatlaðs fólks og auka möguleika á þátttöku allra í íþróttastarfi, auk þess að stuðla að þróun og nýsköpun sem skilar sér til þessa hóps
ÍF hefur stýrt ferlinu, kynnt styrkinn og óskað eftir umsóknum auk þess að afgreiða umsóknir til styrkhæfra verkefna. Verkefnið hefur verið styrkt af Félagsmálaráðuneytinu í tengslum við framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017-2021. Styrkir hafa farið í mjög fjölbreyttan farveg og margir njóta ávinnings af þessu samstarfi
Styrkir hafa verið veittir til eftirtaldra verkefna;
- Rannsóknarverkefna í HÍ og HR,
- Þróun íþróttabúnaðar fyrir hreyfihamlaða,
- Íþróttaskóli barna hjá aðildarfélagi ÍF
- Þróun nýrra greina innan aðildarfélaga ÍF
- Þróun sérhæfðs æfingaprógramms fyrir iðkendur með frávik
- Innleiðing YAP og þróun markvissrar hreyfiþjálfunar leikskólabarna með frávik
- Heilsuefling nemenda starfsbrautar framhaldsskóla gegnum hjólreiðar
- Innleiðing nýrra tilboða fyrir börn með frávik, innan almennra íþróttafélaga
- Þróun heilsueflandi úrræða hjá sérdeild grunnskóla
- Þróun heilsueflandi úrræðis fyrir ungt fólk með mænuskaða
- Sumarfrístund fyrir börn með frávik
- Ýmis sérverkefni sem skapa ný tækifæri
Þetta nýja samstarf ÍF og Félagsmálaráðuneytisins hefur skapað farveg til að styðja við mikilvæg verkefni og nýjar hugmyndir og stuðlað þannig að framþróun og nýjum tækifærum til framtíðar.