Heim 1. tbl 2020 Óvenjulegir tímar í afreksmálum – 2020 frestað!

Óvenjulegir tímar í afreksmálum – 2020 frestað!

14 min read
Slökkt á athugasemdum við Óvenjulegir tímar í afreksmálum – 2020 frestað!
0
847

Yfirmenn landsliðsmála Íþróttasambands fatlaðra fóru yfir stöðu afreksmála með sínu afreksfólki á dögunum og tóku stöðuna á hverjum og einum. Hópurinn hittist í Laugardalnum ásamt sálfræðingi og læknum hópsins til að skerpa á markmiðum sínum. Í stuttu máli má segja að 2020 hafi verið frestað, eða öllu heldur öllum alþjóðamótum sem að öllu óbreyttu hefðu verið á dagskrá mánuðina mars til september 2020. Þar ber að sjálfsögðu hæst Paralympics í Tokýó 2020 sem frestað hefur verið til 24. ágúst 2021. Sú frestun hefur mikil áhrif á allan undirbúning íþróttafólksins enda eru Paralympics leikarnir langstærsta verkefni sem afreksíþróttamenn með fötlun tak þátt í. Tímalínur greinanna við að komast á leikana raskast einnig að verulegu leyti, mismikið þó. Ástæðan fyrir öllu þessu er að sjálfsögðu heimsfaraldur Covid-19 og afleiðingar hans á ferðalög og fjöldasamkomur. 

Sagt er að í öllum erfiðleikum skapist einnig tækifæri. Við að yfirstíga þær hindranir sem sköpuðust tókst langflestum einstaklingum í afrekshóp ÍF að finna sér leiðir til að halda líkamlegum og andlegum æfingum áfram. Einhverjir hafa jafnvel komið betur út úr þessu tímabili þar sem þörf var á hvíld og endurheimt vegna meiðsla eða sjúkdóma. Samskiptamiðlar samtímans eru orðnir svo öflugir að enginn vandi var að halda samskiptum og fá hugmyndir að æfingum. Helsti vandinn var æfingaaðstaðan en þar sýndu margir mikla útsjónarsemi og seiglu, svo eftir var tekið víða 

IPC og íþróttasambönd innan þess hafa verið á fullu að endurskilgreina og skipuleggja kröfur sínar vegna vals íþróttamanna á Paralympics leikana. Það er þó þannig að aðeins þrjár greinar af fimm sem við stefnum að þátttöku í á leikunum hafa birt nýjar kröfur og tímalínur nú í byrjun júní 2020. 

Bogfimi:  

Þorsteinn Halldórsson var ekki búinn að tryggja sér sæti en hafði á áætlun að reyna bæði á EM sem átti að vera um páskana og svo aftur á móti sem átti að vera í júní, en á þessum mótum eru ennþá 4 sæti í boði þar. Þessi tvö mót hafa verið færð aftur um heilt ár og verða um páskana 2021 og júní 2021 þó svo að staðfestingu vanti á nákvæmri dagsetningu. Svo eru einnig þrjú bipartate sæti í boði.  

Frjálsar: 

IPC-Athletics hefur frestað öllum tímasetningum um eitt ár og mun gefa út kvóta landanna 1. apríl 2021. Árangursviðmiðin verða þau sömu og áður og allur árangur sem náðst hefur yfir lágmörkum er gildur áfram, en tímabilið til að keppast um árangurinn framlengist um eitt ár. Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir úr ÍR hefur náð lengst á afrekslistanum og er í 6. sæti í langstökki í flokki T37. Verður að teljast líklegt að það gefi ÍF eitt sæti fyrir konu í frjálsum íþróttum í Tokyo. Aðrar sem náð hafa lágmörkum eru Stefanía Daney Guðmundsdóttir Eik í langstökki í flokki T20, þar sem hún er í 21. sæti heimslistans. Hulda Sigurjónsdóttir Ármanni hefur náð lágmarki í kúluvarpi í flokki F20 og er þar í 18. sæti listans. Báðar þurfa að bæta sig nokkuð til að það sé möguleiki á að Ísland fái annað sæti fyrir konu á leikunum. Helgi Sveinsson Ármanni er að koma til baka eftir erfið meiðsli í olnboga og aðgerð sem hann fór í vegna þess. Hann náði að skreppa til Danmerkur í mars í þann mund sem öllu var lokað, og keppa þar á einu móti. Helgi er því kominn með lágmarkið og situr í 24. sæti lista kastara í sameinuðum flokkum F42, F43, F44, F63 og F64. Allar líkur eru á að hann bæti árangur sinn í sumar og lyfti sér þar með í sæti á heimslistanum sem gefur keppnisrétt fyrir einn karl á Paralympics fyrir Ísland. Aðrir frjálsíþróttamenn sem knýja á dyrnar eru Patrekur Andrés Axelsson Ármanni og Ingeborg Eide Garðarsdóttir Ármanni. Frestun leikanna um eitt ár kemur sér í raun vel fyrir flest í þessum hópi sem þurfa að ná að keppa á fleiri viðurkenndum mótum til að bæta árangur sinn og hækka þannig á heimslistunum. Þau geta nýtt a.m.k. fimm mót innanlands í sumar til þess og verða ef til vill einu mótin sem verða í boði því Evrópumeistaramótið í Póllandi hefur verið frestað um ár, og öll Grand Prix mót ársins felld niður. 

Hjólreiðar: 

Arna Sigríður Albertsdóttir hjólreiðakona hefur nýtt tímann vel til að æfa og vera með fjölskyldunni á Ísafirði. Í hjólreiðunum eru engin lágmörk til staðar og nýtt plan vegna leikanna í Tokýó ekki komið út, ekki heldur nein staðfest mót erlendis. Hún mun því keppa á mótum innanlands og nota tímann til að bæta sitt líkamlega þrek. 

Skíðaíþróttir: 

Hilmar Snær Örvarsson hefur svo sannarlega verið á skriði og var efstur á Evrópumótaröðinni þegar henni var aflýst í vor. Hilmar hefur meiri tíma en keppendurnir á sumarleikunum, því næstu vetrarleikar fara ekki fram fyrr en árið 2022 í Kína. Reglur um val á keppendum á vetrarleikunum er að vænta haustið 2020. 

Borðtennis: 

Hákon Atli Bjarkarson er kominn með alþjóðlega flokkun. Það eru engin eiginleg lágmörk í borðtennis og IPC er ekki búið að gefa út hvernig vali þátttakenda á Paralympics verður háttað í þeirri grein. En líkur eru á að tímabilið verði lengt, við það fengi Hákon fleiri tækifæri til að keppa og safna stigum fyrir leikana.  

Sund: 

Þrír sundmenn eru nú þegar með lágmörk á leikana og er það þau, Már Gunnarsson, Róbert Ísak Jónsson og Thelma Björnsdóttir. Þessi árangur dugði til að IPC-Swimming úthlutaði Íslandi einu sæti fyrir karl og einu sæti fyrir konu á Paralympics leikunum. Það er ekki miklar líkur til að þessa að þessum sætum fjölgi, því þegar öllum mótum vorsins var frestað eða aflýst var tímabilið til að ná sér sæti á heimslistanum lokið. IPC Swimming ákvað því að opna ekki aftur á möguleikann að hækka sig meira á listunum. Möguleikarnir í stöðunni eru þeir að ekki er víst að allir erlendir sundmenn sem náð hafa lágmarki á leikana ákveði að halda áfram í heilt ár í viðbót og svo er IPC Swimming mjög opið fyrir að hafa Bipartate sætin fleiri en færri. Þannig að ef einhver sundmaður hækkar sig mikið á listanum, munum við sækja um þessi sæti til IPC því það er þeirra vilji að allir bestu sundmenn heimsins verði með á leikunum 2021. Sundmenn eins og Guðfinnur Karlsson, Þórey Magnúsdóttir, Sonja Sigurðardóttir og Hjörtur Már Ingvarsson hafa öll möguleika á að hækka sig verulega á listunum. Sonja og Hjörtur þurfa líka að fara í flokkun sem einnig gæti breytt stöðu þeirra á heimslistunum. Ekki er komið staðfest dagsetning á neitt mót erlendis, en tvö mót eru með leyfi frá IPC á Íslandi í sumar. 

Ingi og Kári 

Sækja skyldar greinar
  • Evrópumót Virtus

    Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…
  • Evrópuleikar ungmenna

    Evrópuleikar ungmenna – European Para Youth Games (EPYG) hafa verið haldnir frá árin…
  • Ein af betri æfingaaðstöðum á landinu

    Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fékk nýveri ðafnot hluta af gömlu slökkvistöðinni í Reykjan…
Load More By merla
Load More In 1. tbl 2020
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Evrópumót Virtus

Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…