Heim 1. tbl 2020 Það er þörf á nýrri hugsun 

Það er þörf á nýrri hugsun 

13 min read
Slökkt á athugasemdum við Það er þörf á nýrri hugsun 
1
1,733

Hjálpartæki til að fylgja eftir mikilvægri endurhæfingu, ekki talið nauðsynlegt og styrkbeiðni hafnað. 

Íþróttasamband fatlaðra fagnar þeirri áherslu sem landslæknisembættið, ríki, sveitarfélög og stofnanir hafa sett á heilsueflandi samfélag og gildi hreyfingar. Fyrir fólk með hreyfihömlun er öll þjálfun gífurlega mikilvæg og því mætti ætla að „kerfið“ hvetji til sjálfsbjargarviðleitnis og styðji þá einstaklinga sem vilja komast um án aðstoðar og styrkja sitt líkamsástand. Með því hlýtur að verða til mikill sparnaður þar sem endurhæfing fer fram utan kerfisins. En því miður sýna dæmi að raunveruleikinn er allt annar og það þarf mikla þrautsegju til að gefast ekki upp. 

Anna Guðrún Sigurðardóttir fyrrum starfsmaður ÍF ákvað árið 2017 í kjölfar mikilvægrar endurhæfingar á Reykjalundi, að taka ábyrgð á eigin heilsu og sækja um  styrk til kaupa á hjálpartæki sem gerði henni kleift að halda endurhæfingu áfram. Nú árið 2020 er mál hennar enn í ferli, bréf fara á milli staða fram og aftur og lokaniðurstaða óljós.  

Á Covid tímum þegar fólk hefur þurft að huga sérstaklega að andlegri og líkamlegri heilsu, hefur landlæknir ítrekað bent á mikilvægi hreyfingar, næringar og svefns. Fólk hefur upplifað nýja tíma, jafnvel innilokað á heimilum sínum og fundið hve erfitt það er að komast ekki í sund, líkamsrækt, útivist eða aðra reglulega hreyfingu. Andleg og líkamleg líðan er í húfi og allir fá hvatningu til að gera heimaæfingar eða ef hægt er, fara út í göngu eða hjólatúr. 

Hreyfing er lykilatriði, heilsueflandi skólar, stofnanir og samfélög hvetja landsmenn til þess að halda áfram að hreyfa sig og vísað er í niðurstöður rannsókna um áhrif hreyfingar á andlega líðan 

Landsmenn tóku áskorun og flykktust út í hjólatúra og gönguferðir, reyndu að komast út í náttúruna til að safna orku og margar fjölskyldur áttu góða útivistartíma saman. Allir vissu að þetta skipti máli upp á andlega og líkamlega liðan, upplifun sem skapaði gleði í sálinni.   

Á sama tíma og landsmenn fá ítrekaða hvatningu um að hreyfa sig og halda sér í formi, þá er kerfið að senda allt önnur skilaboð til hreyfihamlaðra einstaklinga sem vilja halda sér í formi. 

Ein í þeim hópi er  fyrrverandi starfsmaður ÍF sem vildi halda áunnum styrk eftir endurhæfingu. 

Í kjölfar endurhæfingar á Reykjalundi og staðfestingu fagfólks þar á mikilvægi áframhaldandi hreyfiþjálfunar sótti hún árið 2017 um styrk til SÍ til kaupa á Batic handhjóli sem sett er framan á hjólastól og knúið með handafli auk rafmagns.  Bréf til SÍ innihélt tilmæli fagfólks á  Reykjalundi um gildi hjálpartækisins til þjálfunar og til að vinna gegn lífstílstengdum sjúkdómum.´ 

Í kjölfar þess að umsókn var hafnað, hefur málið verið í ferli þar sem umsækjandi óskar nánari skýringa. Bréf hafa farið á milli þar sem umboðsmenn umsækjenda vísa í atriði sem talið er að hafi átt að taka tillit til og geti haft áhrif á niðurstöðu. Bréf hafa frá  2017 farið milli umsækjanda, Sjúkratrygginga Íslands, hjálpartækjamiðstöðvar SÍ  úrskurðarnefndar velferðarmála og umboðsmanns alþingis. Þar er vísað í lög og reglugerðir s.s. lög um Sjúkratryggingar Íslands, 26 gr , reglugerð um styrki vegna hjálpartækja 3. gr, Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra o.s.frv.   

Upp úr stendur að málið er alls ekki í samræmi við brýn skilaboð landlæknisembættisins um mikilvægi hreyfingar og heilsueflandi samfélaga um gildi þess að bera ábyrgð á eigin heilsu. 

Ef horft er á kostnað við kaup á hjálpartæki, þá þarf lika að horfa á ávinning. Það þarf nýja hugsun í kerfi sem vinnur gegn fólki  sem sýnir frumkvæði og vill bera ábyrgð á eigin heilsu en þarf vegna hreyfihömlunar að nýta sérbúnað til að geta haldið sér í formi. Þetta snýst um daglegt líf og daglegar athafnir heima og að heiman, að eiga kost á að fara milli staða utanhúss, fara út í náttúruna á eigin forsendum, skoða umhverfið, EIGA LÍF, VERA TIL! 

Þau gögn sem liggja fyrir í þessu máli eru mjög athyglisverð og segja þriggja ára sögu. Það er ótrúlega mótsagnakennt að í lögum SÍ 3.gr. Réttur til styrkja – er skýrt tekið fram að ekki megi styrkja búnað sem nýttur er eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar ( þ.á.m. útivist og íþróttir)  Í þessu tilviki var umsókn ekki hafnað út frá þeirri forsendu enda talin geta fallið undir önnur atriði sem varða aukna færni og sjálfsbjargargetu. Lokaniðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála byggðist á því að þetta hjálpartæki væri ekki talið nauðsynlegt, það væri hægt að komast ferða sinna án hjálpartækisins. Því var það niðurstaða að ekki sé uppfyllt skilyrði um styrk til kaupa á aukahlut fyrir hjólastól og í framhaldi þessa staðfesti SÍ að umsókn um styrk væri synjað.  Þessi niðurstaða varð tilefni til mótmæla sem hafa nú staðið yfir í langan tíma án árangurs.  

Spyr sá sem ekki veit. Hvað táknar að komast ferða sinna?  Er nóg að komast milli herbergja eins og við hin þurftum að gera í nokkrar vikur á Covid tímum. Er nóg að komast inn í bíl eða út á gangstétt þar sem horft er á alla hina komast ferða sinna.  Í alvöru, hvernig er hægt að senda svona svar til manneskju sem vildi fá tækifæri til að halda mikilfvægri endurhæfingu áfram sjálf. 

Það er ljóst að það þarf verulega hugarfarsbreytingu í þessum málum.  Ef fólk sem vill stuðla að bættri heilsu með hreyfingu, þarf sértækan stuðning þá þarf að reikna út hvað það kostar að styðja fólk ekki. Hreyfingarleysi og áunnin lífstílsvandamál geta verið dýrkeypt og kannski er mesti sparnaðurinn fólginn í því að fá sem flesta til að móttaka styrki sem stuðla að auknum líkamsstyrk og færni í daglegu lífi.     

BREYTUM ÞESSU 

Texti; Anna K Vilhjálmsdóttir 

Sækja skyldar greinar
  • Evrópumót Virtus

    Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…
  • Evrópuleikar ungmenna

    Evrópuleikar ungmenna – European Para Youth Games (EPYG) hafa verið haldnir frá árin…
  • Ein af betri æfingaaðstöðum á landinu

    Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fékk nýveri ðafnot hluta af gömlu slökkvistöðinni í Reykjan…
Load More By merla
Load More In 1. tbl 2020
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Evrópumót Virtus

Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…