Már Gunnarsson sundmaður frá ÍRB í Reykjanesbæ varð áðan fimmti í úrslitum í 100m baksundi S11. Már synti á nýju og glæsilegu Íslandsmeti þegar hann kom í bakkann á 1:10,36 mín. en fyrra met hans var 1:10,43 mín.
Úrslitasundið var hnífjafnt en sigurvegari kvöldsins var Úkraínumaðurinn Serbin Mykhailo á tímanum 1:08,63 mín. Landi hans Viktor Smyrnov varð annar á 1:09,36 mín og bronsið tók Bozun Yang frá Kína á tímanum 1:09,62 mín.
Már er nú hálfnaður með þátttöku sína í Paralympics og hefur lokið tveimur greinum og á þá tvær eftir en það eru 200m fjórsund 30. ágúst og 100m flugsund 3. september.