Heim 2. tbl 2020 Næring íþróttafólks með fatlanir – Birna Varðardóttir

Næring íþróttafólks með fatlanir – Birna Varðardóttir

6 min read
Slökkt á athugasemdum við Næring íþróttafólks með fatlanir – Birna Varðardóttir
1
1,061

Markmið okkar sem störfum á sviði íþróttanæringar er alltaf að styðja sem best við heilsu og árangur einstaklingsins. Eitt af því sem hjálpar okkur að ná því markmiði eru niðurstöður rannsókna á íþróttafólki. Þær rannsóknir ganga ýmist út á að meta næringarástand og þarfir íþróttafólks eða svörun þeirra við ákveðnum íhlutunum eða tilraunum. Þar að auki höfum við almennar ráðleggingar um mataræði fyrir almenning og hópa íþróttafólks. Slíkar ráðleggingar byggja einnig á bestu rannsóknaþekkingu hvers tíma. 

Næring íþróttafólks með fatlanir hefur í gegnum tíðina fengið litla athygli í rannsóknum og þar af leiðandi eru ekki eru til gagnreyndar ráðleggingar um næringu þessa hóps. Þetta er vonandi eitthvað sem mun breytast á komandi árum. Það er raunar mjög mikilvægt að setja aukið púður í rannsóknir á þessu sviði svo við getum stutt enn frekar við heilsu, líðan og árangur íþróttafólks með fatlanir. 

Nýlega birti ég ásamt samstarfskonum og leiðbeinendum mínum við Háskóla Íslands grein um hlutfallslegan orkuskort í íþróttum (e. Relative Energy Deficiency in Sport, RED-s) í Læknablaðinu. Í undirkafla sem tekur til íþróttafólks með fatlanir kemur fram að til viðbótar við þá þætti sem geta haft áhrif á næringarástand alls almennings geti tegund og alvarleiki fötlunar haft veruleg áhrif á orkunotkun og orkuþörf íþróttafólks með fatlanir. Til dæmis er orkuþörf þeirra sem nota hjólastól við daglegar athafnir oft minni en meðalþörf á meðan orkuþörf einstaklinga með skaða á miðtaugakerfi, svosem CP-hreyfihömlun getur verið umfram meðalþörf. Rannsóknir á íþróttafólki með mænuskaða gefa til kynna að orkuþörf þess hóps sé undir meðalþörf en bent hefur verið á að skerði þeir einstaklingar og aðrir orkuinntöku um of til að viðhalda eða ná ákveðinni líkamsþyngd geti það leitt til skorts á mikilvægum næringarefnum. Þá vitum við einnig að íþróttafólk með fatlanir býr margt við ýmsar heilsutengdar áskoranir, svosem minnkaða beinþéttni, og þar getur góð næring skipt sköpum til að draga úr þeim áhrifum. Þess vegna er mjög mikilvægt að næring íþróttafólks með fatlanir fái sérstaka athygli.

Samhliða því að undirbúa rannsókn okkar á RED-s meðal íslensks íþróttafólks, fékk ég að taka þátt í undirbúningi og framkvæmd rannsóknarverkefnis á næringarástandi íþróttafólks með hreyfihamlanir við norska íþróttaháskólann (NIH) nú í lok árs. Í rannsókninni fara þátttakendur meðal annars í mælingar á grunnefnaskiptum, orkunotkun, líkamssamsetningu- og beinþéttni. Auk þess er næringin skoðuð betur með blóðmælingum, mati á næringarinntöku og völdum spurningalistum. Niðurstöður slíkra rannsókna gefa okkur mikilvægar upplýsingar sem geta lagt grunninn að sérhæfðum ráðleggingum, og eflt forvarnir og ráðgjöf fyrir þennan hóp. Fyrir mér er þessi heimsókn og samstarf við NIH mjög dýrmætt. Þetta er einnig eitthvað sem við á Íslandi getum lært af og vonandi nýtt áfram í öflugri samvinnu Háskóla Íslands við Íþróttasamband Fatlaðra.

Birna Varðardóttir

Doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands

BSc næringarfræði, MSc þjálffræðivísindi/íþróttanæringarfræði

Logo norska ParaNut verkefnisins
Sækja skyldar greinar
  • Evrópumót Virtus

    Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…
  • Evrópuleikar ungmenna

    Evrópuleikar ungmenna – European Para Youth Games (EPYG) hafa verið haldnir frá árin…
  • Ein af betri æfingaaðstöðum á landinu

    Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fékk nýveri ðafnot hluta af gömlu slökkvistöðinni í Reykjan…
Load More By merla
Load More In 2. tbl 2020
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Evrópumót Virtus

Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…