Heim 2. tbl 2020 Minning – Anna Guðrún

Minning – Anna Guðrún

8 min read
Slökkt á athugasemdum við Minning – Anna Guðrún
1
1,885

Í dag fór fram útför Önnu Guðrúnar Sigurðardóttur fyrrverandi starfsmanns ÍF en hún var aðeins 45 ára gömul.  Eftirfarandi minningargrein var birt í styttri útgáfu í MBL í dag. 

Það er þyngra en tárum taki að manneskja í blóma lífsins, með ný tækifæri í sjónmáli og full af eldmóði fyrir brýnum baráttumálum, sé hrifin burt eftir baráttu við skæðan sjúkdóm. Anna Guðrún okkar var baráttujaxl og alltaf stutt í brosið, engin uppgjöf þó vitað væri síðustu daga hvert stefndi. Hún var vön baráttu, lífið var barátta eins og þeir þekkja sem búa við hreyfihömlun í daglegu lífi.  ÍF hafði þá reglu að velja á  norrænt barna og unglingamót nokkra einstaklinga sem ekki voru virkir í íþróttastarfinu. Anna Guðrún var í þeim hópi þegar hún var valin á mótið árið 1991.   Síðar sagði hún sögu sína á kynningarfundum ÍF og þar sagði hún alltaf; „Að lífið hafi byrjað 1991“. Þetta mót varð hennar stóri stökkpallur út í lífið, sjálfstraustið elfdist og hún blómstraði í ferðinni.  Við sem fylgdumst með áttum ekki orð, þessi feimna stelpa sem varla sagði orð við fyrstu kynni, kom til baka úr ferðinni full af eldmóði. Nokkrum mánuðum síðar hafði hún ásamt góðu fólki,  stofnað íþróttafélagið Nes á Suðurnesjum og varð fyrsti formaður félagsins.

Árið 1996 var Anna Guðrún ráðin til  almennra skrifstofustarfa hjá ÍF þar sem hún tókst á við  margbreytileg verkefni í krefjandi umhverfi. Sú reynsla sem hún  bjó að skilaði sér vel.  Oft tók hún að sér að ræða við áhyggjufulla aðstandendur sem treystu ekki börnum sínum í keppnisferðir án foreldra.  Eftir um 10 ára störf hjá ÍF hélt hún áfram að starfa að hagsmunamálum fatlaðra hjá ÖBI og Sjálfsbjörg en hún þekkti vel þann heim sem takmarkar aðgengi að jöfnum tækifærum og vildi berjast fyrir úrbótum, ekki síst fyrir hreyfihamlað fólk.  Hún rak sig á marga veggi og vildi brjóta þá niður, ekki bara sín vegna heldur allra hinna. Hugur stóð til framhaldsnáms en slæmt aðgengi hafði áhrif á að það varð styttra en til stóð.  Að bjarga sér sjálf, vera sjálfstæð og eiga skemmtilegar    samverustundir með fjölskyldu og vinum, það var það sem skipti máli. Nýlega höfðu í lífi hennar opnast dyr að nýjum tækifærum og NPA aðstoðin hennar þessa síðustu mánuði var sannarlega rétt manneskja á réttum stað. Það var yndislegt að upplifa einstakt samband hennar við ömmu sína sem nú er fallin frá, hún elskaði fjölskyldu sína og litlu frændsystkinin en stærsti kletturinn var pabbi hennar. Hann græjaði allt, ekkert var of flókið og nú síðast var það sérhannaður húsbíll.

Ferðalögin voru ævintýraheimur, veiðiskapur og útivist voru áhugamál en útivist getur verið takmörkuð þegar hjólastóll er farartækið.  Eftir dvöl á Reykjalundi árið 2017 var talið mjög mikilvægt heilsunnar vegna að endurhæfing héldi áfram og í samráði við fagfólk sótti Anna Guðrún um styrk til kaupa á handhjóli sem gerði henni kleift að stunda útivist og þjálfun í eigin hjólastól.  Hún var tilbúin að taka ábyrgð á eigin heilsu. Beiðni um styrk var  hafnað, niðurstaða var kærð og málið var enn í ferli þegar kveðjustund rann upp. Það var henni mjög mikilvægt að þetta mál gæti haft jákvæð áhrif til framtíðar fyrir aðra í sömu sporum og þeirri ósk hennar verður fylgt eftir, það vissi hún.     Elsku Anna Guðrún, þitt hlutverk var mikilvægt fyrir svo marga.  Við söknum þín sárt hjá ÍF og þökkum fyrir allar góðu samverustundirnar.  Guð geymi þig.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar allrar 

f.h. Iþróttasambands fatlaðra
Anna Karólína Vilhjálmsdóttir

Sækja skyldar greinar
  • Evrópumót Virtus

    Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…
  • Evrópuleikar ungmenna

    Evrópuleikar ungmenna – European Para Youth Games (EPYG) hafa verið haldnir frá árin…
  • Ein af betri æfingaaðstöðum á landinu

    Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fékk nýveri ðafnot hluta af gömlu slökkvistöðinni í Reykjan…
Load More By merla
Load More In 2. tbl 2020
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Evrópumót Virtus

Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…