Alþjóða Ólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) kynnti nýverið að heimsmeistaramót fatlaðra í frjálsum færi fram í Kobe í Japan dagana 17.-25. maí 2024. Mótið fer fram á Universiade Memorial Stadium í Kobe Sports Park í Japan.
HM verður síðasta stórmótið áður en Paralympics fara fram í París sumarið 2024 og gera heimamenn ráð fyrir allt að 1300 íþróttamönnum frá liðlega 100 þjóðlöndum við mótið. Síðasta HM í frjálsum fór fram í Dubai árið 2019 en sumarið 2023 verður HM í Frakklandi.
Vegna heimsfaraldurs COVID-19 varð að fara í talsverðar tilfæringar og eins og staðan er í dag þá verður hvorki EM né HM þetta sumarið í frjálsum en HM sumarið 2023 og 2024. IPC hefur enn ekki gefið út hvort EM muni fara fram áður en Paralympics verða haldnir í París 2024.