
Borðtennismennirnir Hákon Atli Bjarkason og Björgvin Ingi Ólafsson eru ósigraðir í 2. deild suður hjá Borðtennissambandi Íslands. Tvær umferðir voru leiknar í íþróttahúsi Hagaskóla um síðustu helgi þar sem þeir Hákon og Björgvin unnu alla sína leiki sem HK-C gegn KR og BH.
Í leikjum síðustu helgar gegn KR mætti Björgvin hinum reynda Hannesi Guðrúnarsyni sem er 220 stigum fyrir ofan hann á styrkleikalista BTÍ og vann hann örugglega 3-1 sem verður að teljast stórt afrek hjá Björgvini. Í leiknum gegn BH vann Hákon baráttusigur eftir að hafa lent 2-0 undir jafnaði hann leikinn 2-2 og í oddalotu 10-5 undir náði hann að vinna sig til baka og vinna 13-11 á endanum og þar með leikinn.
HK-C vann KR C 3-2 og BH D 3-1. Þeir Hákon og Björgvin verða aftur á ferðinni um helgina í TBR-húsinu þegar verða leiknir leikir í 5. og 6. umferð 2. deildar. Hákon og Björgvin eru báðir liðsmenn hjá HK og æfa undir stjórn Bjarna Þorgeirs Bjarnasonar.
