Heim 1. tbl 2023 Global Games 2023: Frábær árangur Íslendinga í Vichy

Global Games 2023: Frábær árangur Íslendinga í Vichy

5 min read
Slökkt á athugasemdum við Global Games 2023: Frábær árangur Íslendinga í Vichy
0
1,294

Global games fóru fram í Vichy í Frakklandi dagana 4.-10.júní. Ísland átti sjö keppendur á mótinu, fimm sem kepptu í sundi og tvo sem kepptu í frjálsum. Global Games eru heimsleikar VIRTUS sem eru samtök íþróttafólks með þroskahamlanir. 

Keppendur í frjálsum voru þær Stefanía Daney Guðmundsdóttir og Hulda Sigurjónsdóttir. Frjálsarnar fóru rólega af stað á mótinu en keppni hjá þeim hófst ekki fyrr en á þriðjudag. Stefanía og Hulda höfðu þar með tvo daga til að taka því rólega, skoða keppnisaðstæður og ná inn æfingu. Stelpunum gekk vel á mótinu, komust í úrslit í öllum sínum greinum og voru nokkur SB, PB og Íslandsmet sett. 

Stefanía keppti í bæði 200 m og 400 m hlaupi sem og langstökki. Hún gerði sér lítið fyrir og sló Íslandsmet í öllum sínum greinum. Stefanía hljóp 400m á tímanum 64,50 sek. og endaði í 8.sæti. Hún var í 7.sæti í 200m á tímanum 27,84 sek. og var einnig í 7.sæti í langstökki en þar stökk hún lengst 5,18m sem er 8 cm bæting og nýtt Íslandsmet!

Hulda keppti í flest öllum kastgreinum mótsins, þ.e. kúluvarpi, kringlukasti og sleggjukasti. Hulda stóð sig með prýði og átti gott mót. Hún var í 11.sæti í kúluvarpi þar sem hún kastaði lengst 9,44m. Í kringlunni varð hún í 8.sæti með kast upp á 28,70m og í sleggjunni kastaði hún lengst 30,57m og endaði í 6.sæti.

Keppendur í sundi voru þau Anna Rósa Þrastardóttir, Emelía Ýr Gunnarsdóttir, Róbert Ísak Jónsson, Snævar Örn Kristmannsson og Þórey Ísafold Magnúsdóttir Proppé.

Anna Rósa keppti í flokki II1 og keppti í 50, 100, 200, 400 og 1500 metra skriðsundi. Hennar besta sund var 1500 metra skriðsund þar sem hún bætti sig um tæpar tvær mínútur og endaði í 7. sæti á tímanum 22:31,55 mín.
Emelía keppti í flokki II1 og keppti í 50, 100 og 200 metra flugsundi auk 100 metra baksunds og 200 metra fjórsunds. Emelía komst í úrslit í 200 metra flugsundi og synti þar á tímanum 3:58,04 sem var þó ekki bæting á hennar besta tíma. 

Róbert keppti í flokki II1 og keppti í 50 og 100 metra flugsundi, 50 metra baksundi auk 200 metra fjórsundi. Róbert komst inn í úrslit í 50 og 100 metra flugsundi auk 200 metra fjórsundi, en þar nældi hann sér í brons á tímanum 2:19,65.

Snævar keppti í flokki II3 og stóð sig með stakri prýði. Hann keppti í 50, 100 og 200 metra flugsundi, 50, 100, 200 og 400 metra skriðsundi auk 200 metra fjórsundi. Snævar var allt í öllu á Global Games og komst inn í úrslit í öllum sínum sundum nema 50 metra skrið og 200 metra fjór. Hann nældi sér í gull í 200m flug á tímanum 2:22,11, silfur í 100m flug á tímanum 1:03,30 og brons í 50m flug á tímanum 28,80.  

Þórey keppti í flokki II3 og keppti í 50 og 100 metra bringusundi auk 50 og 100 metra flugsundi. Þórey komst inn í úrslit í 50 metra bringusundi og synti þar á tímanum 41,33.

Mynd/ Snævar Örn Kristmannsson sundmaður frá ÍFR náði glæsilegum árangri í flokki I3.

Sækja skyldar greinar
Load More By Jón Björn Ólafsson
Load More In 1. tbl 2023
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Afturelding af stað með verkefnið „Fótbolti fyrir alla“

Ungmennafélagið Afturelding hefur farið af stað með verkefnið „Fótbolti fyrir alla“ sem er…