Heim 2. tbl 2021 Frumraunin á Paralympics stendur upp úr

Frumraunin á Paralympics stendur upp úr

20 min read
Slökkt á athugasemdum við Frumraunin á Paralympics stendur upp úr
0
846

Viðburðaríkt ár er að baki hjá ísfirsku íþróttakonunni Örnu Sigríði Albertsdóttur en hún keppti á Paralympics í fyrsta skipti í Tókýó síðsumars. Varð hún fyrst Íslendinga til að keppa í handahjólreiðum á leikunum en hún er eins konar brautryðjandi í greininni hérlendis.

„Það er náttúrlega Tókýó. Það er ekkert annað hægt að segja,“ sagði Arna Sigríður þegar Hvati ræddi við hana og spurði hvað stæði upp úr á árinu sem senn er á enda.

Arna segist þó ekki hafa verið neitt sérstaklega ánægð með árangurinn enda hafi verið mikilvægast að öðlast reynslu á stórmóti með þátttöku á leikunum í þetta skiptið.  

„Nei nei ég var ekki ánægð með árangurinn en ég bjóst heldur ekki við miklum afrekum á Paralympics. Leikurinn var til þess gerður í þetta skiptið að upplifa þetta og læra á hvernig svona stórmót gengur fyrir sig. “

Þegar íþróttafólk keppir í fyrsta skipti á Paralympics eða Ólympíuleikum þá hefur það í mörgum tilfellum greint frá því eftir á að ekki sé auðvelt að einbeita sér að keppninni því umhverfið sé svo óvenjulegt. Svo mikið sé um að vera þegar besta íþróttafólk heims kemur saman og keppir í alls kyns greinum. Fann Arna fyrir þessu? 

„Já og nei. Það var eitt að vera í ólympíuþorpinu. En við vorum einnig á öðrum stað í hjólaþorpi í Fuji. Það var ekkert brjálæðislega stórt og var bara eins og vel skipulagt mót. Það voru engir áhorfendur leyfðir [vegna heimsfaraldursins] og þarna var eingöngu hjólreiðafólk. Ég var til dæmis á hóteli þar sem var bara fólk úr handahjólreiðum. Keppendum í hjólreiðum var dreift á þrjú hótel. En það var allt annað dæmi að vera í ólympíuþorpinu og vera á setningarhátíðinni sem dæmi.“

Gæti keppt lengi í íþróttinni

Arna segist með tímanum hafa áttað sig á því hversu fjölbreytt íþróttastarf er í boði í heiminum fyrir fatlaða og það sést best á Paralympics. 

„Það er alveg geggjað að upplifa Paralympics. Maður heldur að maður viti eitthvað um íþróttir fatlaðra en maður áttar sig á að maður veit ekki neitt og hversu margar íþróttagreinar eru til. Þegar maður spjallaði við fólk héðan og þaðan úr heiminum í matsalnum þá rak maður sig á að fólk keppti í greinum sem maður vissi ekki fyrir fram að væru á leikunum,“ sagði Arna en kallið kom frekar seint og hún reiknaði því ekki sérstaklega með því að vera með á leikunum í Tókýó. Arna er ung miðað við margar þeirra bestu í greininni og átti ekki endilega von á því að komast inn á Paralympics í þetta sinn. 

„Það kom mér svolítið á óvart að komast inn á leikana. Ég átti ekki endilega von á því fyrr en ég fékk boð sem var ekki fyrr en í júlí. Ég tel að ég sé nokkuð langt frá því að vera í fremstu röð í heiminum eins og er en ég er ennþá að læra á íþróttina. Þær bestu er í kringum fimmtíu ára aldurinn og ég hef þar af leiðandi tíma og átta mig á því. Auðvitað þarf maður að vera heppin ef líkaminn á að endast svo lengi þegar æft er í allt að tuttugu og fjóra tíma í viku. Ég sé fyrir mér að ég verði alltaf í einhverjum úthaldsíþróttum og mun ekki hætta því. Vonandi eldist maður vel í þessari grein.“

Skíðaganga einnig á dagskrá

Arna Sigríður ætlar að víkka sjóndeildarhringinn frekar í íþróttaiðkun sinni. Hún keppti i alpagreinum áður en hún slasaðist á unglingsaldri sem kunnugt er. Hún hefur ekki sagt skilið við snjóinn og ætlar að reyna fyrir sér á gönguskíðum þar sem keppendur sitja í sérútbúnum stól. 

„Ég mun keppa í skíðastól. Kristinn Vagnsson hefur verið með slíkan stól í nokkur ár en um eitt og hálft ár er síðan ég prófaði. Við erum tvö í þessu á Íslandi og ég hef átt svona stól í einn og hálfan vetur.  Ég hef aðeins sinnt þessu með og mig langar til að keppa á gönguskíðum. Fyrsta skrefið er að fá flokkun til að geta keppt eitthvað. Ég mun byrja á því núna í Finnlandi og reyni að læra aðeins á þetta. Maður getur reynt að fá upplýsingar og fróðleik frá fólki frá öðrum þjóðum. Ég þarf að kynna mér hvert væri hægt að fara í æfingabúðir og þess háttar. Ég hef einhverja hugmynd um hvernig er að skíða í svona stól en að keppa í greininni er væntanlega svolítið annað. Ég býst við því að ég mig vanti þekkingu í alls kyns tæknilegum þáttum.“ 

Fannar Karvel Steindórsson er styrktarþjálfari Örnu og um leið eins konar yfirþjálfari að sögn Örnu. Þjálfari hennar á hjólinu er Tómas Skov Jensen en hún á eftir að skoða hver muni þjálfa hana í skíðagöngunni. 

„Sigrún Anna Auðardóttir fer með mér til Finnlands en hún þjálfar gönguskíði. Hún mun alla vega skoða þetta aðeins með mér en það er ekki komið í neinn farveg. Það gæti vel farið svo að maður þurfi að finna einhvern þjálfara erlendis sem er sérhæfður í þessu.“

Mögulegt að vera í báðum greinum

Eins og heyra má á lýsingum Örnu þá er hún brautryðjandi í handahjólreiðum hérlendis og er önnur til að fara í skíðagöngu í sérútbúnum stól. Þekkingin þegar kemur að þessum greinum er takmörkuð hérlendis og Arna þarf því einfaldlega að þreifa sig áfram. Mikið íþróttastarf er unnið hjá félögum undir Íþróttasambandi fatlaðra en langstærstu greinarnar hafa verið frjálsar íþróttir og sund ásamt Bocchia. Fjölbreytnin er smám saman að verða meiri. Á Paralympics í Ríó átti Ísland keppanda í bogfimi, Arna keppti í handahjólreiðum í Tókýó og Íslendingar eru að færa sig upp á skaftið í vetrargreinum. 

„Maður er stundum aðeins týndur varðandi þessar greinar af því þær hafa ekki verið stundaðar lengi hérlendis. Varðandi skíðagöngu þá er ekki erfitt fyrir mig að sækja fróðleik þar sem ég frá Ísafirði. Maður þekkir fólk sem hefur mikla þekkingu á íþróttinni. Varðandi þessar greinar sem ég stunda þá eiga þær það sameiginlegt að vera stundaðar utanhúss. Mér finnst notalegt að fara út að hjóla og geta verið utandyra. Sundið væri til dæmis ekki fyrir mig svo ég taki dæmi. Ég nota hjólastól og fjóra mánuði á ári fer maður takmarkað út úr húsi vegna aðstæða. Það getur verið vegna hálku eða það sé slapp og þess háttar vesen eins og getur verið á veturna. Þá er ég mest inni að æfa fyrir handahjólreiðarnar. Með því að stunda skíðagöngu þá fæ ég frekari útrás utandyra. Með því get ég farið út úr húsi og fengið úthaldsþjálfun. Sá þáttur er hluti af pælingunni.“

Spurð um hvort hún muni geta sinnt báðum þessum greinum í náinni framtíð segir Arna það vera möguleika. 

„Ég veit um fólk erlendis sem er í báðum þessum greinum. Einhvers staðar þarf fólk samt að forgangsraða. Það er ekki hægt að ná öllum æfingabúðum í báðum greinum. Upp að ákveðnu marki eru greinarnar líffræðilega svipaðar enda báðar úthaldsgreinar. Það ætti því að vera hægt að vera í báðum greinum. Þegar maður er í góðu hjólaformi þá hjálpar það á skíðunum og öfugt. En maður þarf að passa að álagið verði ekki of mikið.“ 

Útnefningin kom á óvart

Örnu Sigríði var heiður sýndur nú seint á árinu þegar hún var útnefnd hjólreiðakona ársins hjá Hjólreiðasambandinu. Markar útnefningin viss tímamót því aldrei fyrr hefur íþróttamaður úr starfi ÍF verði útnefndur hjá öðrum sérsamböndum ÍSÍ.

„Já það kom mér mjög mikið á óvart. Ég keppi alla jafna á hefðbundnum mótum undir Alþjóða hjólreiðasambandinu en ég keppi undir ÍF á Paralympics. Nú fer ég í gegnum ÍF í skíðagönguna en vanalega þegar ég keppi í handahjólreiðum þá fer það í gegnum Hjólreiðasambandið. Það er mjög hvetjandi að fá þessa viðurkenningu.“ 

Spurð um fólk fylgist vel með viðburðum eins og Paralympics segist Arna finna nokkuð fyrir því. 

„Á heildina litið fannst mér vera nokkuð mikil athygli á Paralympics heima á Íslandi. RÚV var með umfjöllun og Mogginn sendi Víði [Sigurðsson] á staðinn. Þegar ég var lítil þekkti ég líklega engan annan fatlaðan íþróttamann en Kristínu Rós [Hákonardóttur]. Ég vissi eiginlega ekki neitt um neitt í sambandi við íþróttir hjá ÍF. Nú held ég að fólk viti meira um hvað þetta snýst og íþróttir fatlaðra eru meira í umræðunni. Sjálf vissi ég ekki að það væri svona mikið keppnisumhverfi í boði og hvað þá að íþróttafólkið væri atvinnumenn. Mér heyrist að fólk hafi gaman að því að fylgjast með hjólastólakörfubolta eins og einhverjum öðrum íþróttum svo ég taki eitthvert dæmi.“ 

HM framundan á nýju ári

Kórónuveiran hefur haft mikil áhrif á íþróttafólk eins og aðra. Íþróttafólk eins og Arna sem reynir að vinna sér inn keppnisrétt á stórmótum átti erfitt með að gera áætlanir þegar óvissan var sem mest. Hvernig hefur gengið að vera íþróttamaður á tímum heimsfaraldursins? 

„Hjá mér var aldrei neitt vesen að æfa. Ég er bara að hjóla og það er ekki hægt að banna það. En allir íþróttamenn búa til áætlanir og þar er stefnt að því að ná toppárangri á einhverjum tímapunkti á hverju ári. Æfingar næsta dag endurspegla það alltaf. Núna er ég til dæmis að horfa til þess að vera í toppformi á HM í ágúst. En í tvö ár eða svo þá vissi maður lítið hvað væri framundan því það var alltaf verið að aflýsa mótum. Maður vissi eiginlega hvað maður átti að æfa fyrir. Það var alltaf svolítið erfitt. En ég gat alltaf æft, til dæmis utandyra. Það þarf ekki að vera opið íþróttahús til að ég geti æft,“ sagði Arna Sigríður Albertsdóttir í samtali við Hvata á aðventunni. 

Viðtal: Kristján Jónsson
Myndir: Jón Björn og úr einkasafni

Sækja skyldar greinar
Load More By Jón Björn Ólafsson
Load More In 2. tbl 2021
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Afturelding af stað með verkefnið „Fótbolti fyrir alla“

Ungmennafélagið Afturelding hefur farið af stað með verkefnið „Fótbolti fyrir alla“ sem er…