Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum fór nýverið fram í Viborg í Danmörku. Samhliða HM var einnig keppt í Special Olympics kraftlyftingum þar sem Jón Ingi Guðfinnsson og María Sigurjónsdóttir bæði frá Suðra voru fulltrúar Íslands.
Jón Ingi keppti í -66kg flokki og María í +84 kg flokki. Jón Ingi lyfti 65 kg í hnébeygju, 60 kg í bekkpressu og 120 kg í réttstöðulyftu. María lyfti 50 kg í hnébeygju , 42,5 í bekkpressu og 90 kg í réttstöðulyftu. Jón Ingi landaði silfurverðlaunum í karlaflokki en María gullverðlaunum í kvennaflokki. Alls sjö keppendur voru á mótshluta Special Olympics samhliða HM.
Lára Bogey Finnsdóttir starfsmaður Kraft sagði mótahaldið hafa gengið vel í Danmörku: „Þessi keppni hefur alla burði til að stækka og það er gaman að hafa svona samliggjandi keppnir sem gaf t.d. íslenska hópnum mjög gott færi á því að kynnast vel. Þetta var reynsla á báða bóga og ljóst að þetta verður gert aftur ef mótshaldarar HM hafa það í hyggju að reka Special Olympics lyftingamót samhliða HM.“
Nánar er fjallað um HM á heimasíðu KRAFT
Myndir/KRAFT