Frjálsíþróttakonurnar Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir frá ÍR og Ingeborg Eide Garðarsdóttir frá Ármanni voru nýverið staddar í Nottwil í Sviss á Grand Prix mótaröð IPC (Alþjóða Ólympíuhreyfing fatlaðra). Báðar kepptu í tveimur greinum og gerðu vel að mæta með málma heim til Íslands.
Margrét Regína Grétarsdóttir og Sveinn Sampsted voru þjálfarar í ferðinni en hér að neðan gefur að líta snarpa samantekt frá Margréti eftir ferðina:
Bergrún og Ingeborg hófu saman keppni í kúluvarpi á fimmudeginum 26.maí í sínum flokki T37. Bergrún hlaut 1. sætið og kastaði kúlunni 9.06m. og Ingeborg kastaði 8.22 m. Bergrún hitti vel á í öðru kasti sem var hennar lengsta kast í keppninni. Ingeborg náði sér ekki eins mikið á flug í kúlu eins og hana langaði en var þó einbeittari að kringlunni.
Ingeborg keppti síðan í kringlukasti á föstudeginum en það er hennar sterkari grein. Ingeborg átti fína kastseríu ( 17,61 – 20,05 – 19,55 – 18,32 -X – 18,28) og var hennar besta kast uppá 20,05 metra.
Laugardags seinnipart var keppt í síðustu grein mótsins, sem var langstökk hjá Bergrúnu þar sem hún hafnaði í 4. sæti með lengasta stökk upp á 3,67m.
Þátttöku Íslendinga í Grand Prix mótaröðinni í frjálsum er þó ekki lokið því þann 7. júní næstkomandi heldur Patrekur Andrés Axelsson áleiðis til Parísar og verður það síðasta Grand Prix mótið á þessu tímabili fyrir íslenskt frjálsíþróttafólk úr röðum fatlaðra. Vegna COVID-19 verður ekki EM né HM þetta sumarið en þess í stað verður HM haldið 2023 og 2024 eða sama ár og Paralympics 2024 fara fram í Frakklandi.
Myndir frá þátttöku Íslands í Nottwil