Í dag eru í boði áhaldafimleikar og nútímafimleikar fyrir fatlaða. Tvö félög á höfuðborgarsvæðinu bjóða upp á fimleika en það eru Íþróttafélagið Gerpla í Kópavogi sem býður upp á áhaldafimleika og Íþróttafélagið Ösp sem býður upp á nútímafimleika. Gerpla er með framhaldshóp í gangi sem æfir fyrir keppni og svo grunnhópa sem ganga út á styrk- og liðleikaæfingar. Á dagskrá er að bjóða upp á stökkfimimót hjá Fimleikasambandinu en slík tegund af fimleikum hefur ekki verið í boði fyrir fatlaða. Ástæðan fyrir því að bjóða upp á þessa tegund fimleika er svo að fimleikafélög á landsbyggðinni, sem ekki hafa áhöld fyrir áhaldafimleika en eiga hópfimleikaáhöld, geti boðið upp á fimleika fyrir fatlaða.
Áhaldafimleikar
Áhaldafimleikar skiptast í áhaldafimleika kvenna og áhaldafimleika karla. Í áhalafimleikum kvenna er keppt á fjórum áhöldum: stökki, tvíslá, slá og gólfi. Í áhaldafimleikum karla er kept á sex áhöldum: gólfi, bogahest, hringjum, stökki, tvíslá og svifrá. Æfingarnar ganga út á gott þrek og teygjur og svo æfingar á framangreindum áhöldum. Miðað er við fimleikastiga Special Olympics á æfingum en þó einnig horft á íslenska fimleikastigann. Æfingar fara fram í Versölum.
Nútímafimleikar
Nútímafimleikar henta vel fyrir þá sem hafa gaman af því að dansa. Í nútímafimleikum er æft eftir fimleikastiga Special Olympics og keppt er með borða, hringi, keilur og bolta. Æfingarnar ganga út á styrktaræfingar, liðleikaæfingar og svo æfingar með áhöld. Æfingar fara eins og stendur fram í Klettaskóla.
Stökkfimi
Stökkfimi er undirgrein hópfimleika og er þar keppt á dýnustökki, stökki (trampólíni) og á gólfi (dans). Stökkfimi er mjög skemmtileg grein og mun vera fyrir einstaklinga ólíkt hópfimleikum sem er hópíþrótt/liðakeppni. Stökkfimin mun eins og áður sagði búa til þann möguleika að fleiri félög geti boðið upp á fimleika fyrir fatlaða.
Hægt er að hafa samband við eftirfarandi félög ef áhugi er fyrir því að hefja æfingar í fimleikum:
Íþróttafélagið Gerpla – gerpla@gerpla.is
Íþróttafélagið Ösp – ospin@ospin.is
Áhugasamir sem vilja kynna sér fimleikastarf fatlaðra nánar geta einnig haft samband við Evu Hrund Gunnarsdóttur meðlim stjórnar ÍF á evahrund83@gmail.com