Heim 1. tbl 2021 Spjótkastið gefur engan afslátt

Spjótkastið gefur engan afslátt

32 min read
Slökkt á athugasemdum við Spjótkastið gefur engan afslátt
7
1,745

Helgi Sveinsson heimsmethafi í spjótkasti hefur ákveðið að láta staðar numið sem afreksíþróttamaður. Blaðamaður settist niður með Helga um það bil þegar sumarið var að ganga í garð samkvæmt almannakinu. Helgi tók á móti mér í höfuðstöðvum Össurar þar sem Helgi hefur starfað í áraraðir auk þess að hafa notað vörur fyrirtækisins sjálfur eftir að aflima þurfti hann vegna veikinda fyrir rúmum tuttugu árum.

Við fáum okkur sæti í fundarherbergi en þegar íþróttamaður með slíka afrekaskrá kveður sviðið þá eðlilegt að spyrja hvers vegna þessi tímasetning hafi orðið fyrir valinu. Þótt Helgi sé orðinn fertugur þá áttu líklega margir von á að hann myndi reyna að keppa á Paralympics í Tókýó í sumar.

 Ég fann að minn tími var kominn. Ég var aumur alls staðar í líkamanum og þegar maður er fastur í því ástandi þá er erfitt að finna hvatninguna til að koma sér af stað á ný. Spjótkastið er þannig íþrótt að það er enginn afsláttur í boði. Þú þarft að vera 100% til að geta staðist þessi átök. Ég hefði getað haldið áfram en þá hefði ég þurft að einbeita mér algerlega að íþróttinni. Ég þarf að sinna mörgu og þá hef ég sett íþróttina meira til hliðar. Ef ég ætlaði mér að ná árangri þá myndi ég vilja hafa íþróttina númer eitt. Minn tími var kominn. 

Ég yngist ekki með árunum. Eitt íþróttaár í eymslum og meiðslum er örugglega eins og að taka fimm ár af ævinni. Refsingin er það mikil hvort sem það er bakið, öxlin eða mjöðmin. Spjótkastið er svo erfið grein að geri maður einhverja vitleysu þá er maður ófær um að æfa í einhverja daga. Auk þess hefur það einnig áhrif á vinnuna og heimilið. Maður verður pirraður því maður kemst ekki á æfingu til að verða betri. Í fyrra reyndi ég eftir fremsta megni að búa til einhverjar áætlanir þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Þegar maður veit ekkert þá getur maður hins vegar ekki skipulagt sig. Hjá mér hefur það alltaf verið þannig að ég hef sett mér einhvers konar keppnismarkmið, til dæmis út frá stórmótum. En hef einnig verið með lítil markmið en í fyrra gat ég ekki sett mér nein markmið út af ástandinu. Það var enginn stöðugleiki í hlutunum. 

Þá kom eiginlega smá drungi yfir mann og maður velti því fyrir sér hvers vegna maður væri að þessu ef maður hefur ekkert til að stefna að. Ef ég á að segja alveg eins og er þá hjálpaði Covid19 mér að taka þessa ákvörðun. Ég fékk tíma til að velta þessu fyrir mér og skoða frá öllum sjónarhornum. Ég hefði viljað ljúka ferlinum á stórmóti og hætta eftir keppni en ekki í heimsfaraldrinum. En ég er alveg tilbúinn til að vera ánægður með þessa ákvörðun. Mér finnst ég hafa tekið rétta ákvörðun segir Helgi ákveðið en hann hefur ekki fengið nóg af íþróttum og segist ætla að miðla sinni reynslu til annarra ef eftirspurn sé eftir því.

Ég hef gefið það út og látið vita af því á skrifstofu Íþróttasambands fatlaðra að ég er tilbúinn til að miðla þeirri reynslu og vitneskju sem ég hef öðlast á mínum ferli. Ég tel mig hafa fullt fram að færa. Sjálfur hef ég rekið mig á marga veggi sem maður þarf ekki endilega að reka sig á. Ef áhugi er fyrir því að nýta sér það þá er ég opinn fyrir því. Ég fylgist með öllu íþróttafólkinu þótt ég sé ekki alltaf á svæðinu. Ég skoða árangur hjá hinum og þessum. Ég fylgist því með úr fjarlægð og er ekki dottinn út.

Svipaður taktur

Helgi hefur verið í sviðsljósinu í tæpan áratug og margir þekkja hans sögu. Helgi er fæddur 11. júní árið 1979 og var orðinn þrítugur þegar hann hellti sér út í frjálsar íþróttir. Einu sinni á ári hefur Íþróttasamband fatlaðra staðið fyrir viðamikilli kynningu á sínu starfi með stuðningi Össurar. Þangað mætti Helgi til að kynna sér hvað var í boði og Kári Jónsson, landsliðsþjálfari ÍF í frjálsum og þjálfari hjá Ármanni, náði að kveikja í honum. 

Ég byrjaði að æfa spretthlaup árið 2011 minnir mig. Ég hafði reyndar byrjað aðeins fyrr en komst ekki í takt við íþróttina. Ég hafði mikinn áhuga að komast aftur í íþróttir en fann mig ekki alveg og bakkaði. Ég ákvað að kýla á það árið 2011. Þá hitti ég á Kára Jóns á degi Össurar sem er opinn dagur þar sem íþróttirnar sem eru í boði hjá ÍF eru kynntar. Hann skoraði á mig og þannig virka ég best. Kári var alveg hreinn og beinn. Hann á stóran þátt í þessu hjá mér. Upp frá því byrjar þetta fyrir alvöru. Ég gældi við 200 metra hlaup og í framhaldinu kom langstökkið inn og þá hafði ég ekki leitt hugann að spjótkasti, rifjar Helgi upp en hann keppti til að mynda á Paralympics í London árið 2012 í þremur greinum. 

Þá var ég alveg blautur á bak við eyrum. Það var fyrsta risastóra mótið sem ég fór á en ég hafði reyndar tekið þátt í Evrópumeistaramóti í Hollandi fyrr um sumarið. Þar kastaði ég spjótinu í fyrsta skipti í keppni erlendis. Þá var ég farinn að finna lyktina af því að spjótkastið væri eitthvað sem ég vildi gera. Ég fann mig ekki í spretthlaupi en hafði reyndar gaman af langstökkinu. En ég fann strax að spjótkastið væri mín grein. Minn grunnur í íþróttunum er handbolti. Mér finnst þetta vera sami taktur og sama tilfinning að kasta handboltanum og að kasta spjótinu. Maður getur tekið þrjú skref og kastað í handboltanum. Ég taldi mína atrennu í spjótinu þannig: Einn, tveir, þrír og einn, tveir, þrír og kastað. Þannig var atrennan eða sex fjaðrir. Það hjálpaði mér helling við að ná tilfinningunni að kasta spjótinu, sagði Helgi sem keppti í handbolta með Fram fram að 19 ára aldri en Helgi missti fótinn á tuttugasta aldursári eða í mars árið 1999. Helgi lék stöðu leikstjórnanda.

Fyrir áhugafólk um handboltaíþróttina þá lék Helgi til dæmis með Róberti Gunnarssyni í Fram sem síðar var í liði Íslands sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Núverandi landsliðsþjálfari Guðmundur Þ. Guðmundsson var þá þjálfari Fram og náði Helgi að æfa í skamman tíma undir hans handleiðslu í meistaraflokki áður en veikindin bundu endi á handboltaferilinn.  Þegar ég fann fyrst fyrir verkjum í fætinum var ég einmitt í æfingaferð með meistaraflokki Fram í Þýskalandi en var enn leikmaður í 2. flokki.

Leyfir sér nú að njóta afrekanna

Þegar afreksfólk lætur gott heita fá þau gjarnan þá spurningu hvað standi upp úr á ferlinum. Hvað þykir Helga sjálfum vænst um hvað afrekin varðar? 

Mér þykir mest vænt um heimsmeistaratitilinn árið 2013 vegna þess að ég tryggði mér sigurinn í síðasta kastinu og vann með níu sentimetra mun. Fyrir mig var þetta stórt augnablik og eftir þetta vissi ég að ég gæti látið ljós mitt skína. Ég fann einfaldlega að þarna steig ég yfir stóra hrindrun en sá jafnframt fyrir mér að ég yrði bara betri og betri því ég ætti enn helling inni. Síðar á ferlinum setti ég heimsmet í fyrsta skipti og bætti þá met sem hafði staðið mjög lengi. Líklega hátt í fimmtán ár. Fyrir mér stendur þetta tvennt upp úr. Þegar maður er kominn á þann stað að vera heimsmethafi þá tekur við keppni við sjálfan sig í þeim skilningi að maður reynir að bæta eigið heimsmet, segir Helgi og bætir því við að virk samkeppni hafi jafnan gert honum gott í íþróttunum. 

Ég virka yfirleitt best ef ég veit af einhverjum sem er betri en ég og þá hætti ég ekki fyrr en ég næ honum. Þá verð ég hálf manískur í áttina að því að reyna að vinna þann einstakling. Þarna þurfti ég að snúa þessu inn á við og vera manískur á sjálfan mig til að halda áfram að bæta mig. Ég veit ekki hvernig þetta er hjá öðru íþróttafólki en þetta virkaði fyrir mig.

Ekki er hægt að ræða við marga Íslendinga um það hvernig tilfinning fylgir því að setja heimsmet í íþróttum. Helgi brosir þegar hann er spurður út í það. 

Því fylgir góð tilfinning að vita þess að maður sé sá eini sem hefur náð þeim árangri sem um ræðir. Ég dvaldi ekki lengi við það en var vissulega ánægður á því augnabliki. Mjög fljótt tekur svo við hugsunin um að maður geti gert betur. Þú nærð metinu sem er frábært út daginn en eftir það vill ég bæta metið. Út af þessu hugarfari er fyrst núna sem ég get notið þess eftir að hafa tekið þá ákvörðun að hætta. Ég hef að sjálfsögðu verið ánægður með árangurinn í gegnum tíðina en hef líklega ekki notið þess til fulls vegna þess að nú finnst mér ég njóta þess til fulls. Ég fæ gæsahúðartilfinningu að rifja upp keppnirnar og stundirnar. Nú er ég ekki með annað takmark og kem til með að njóta minninganna næstu árin enda er búið að leggja mikið í þetta.

Ólafur og Jordan

Kann Helgi einhverja skýringu á því hvers vegna hann náði svo hröðum og góðum tökum á spjótkastinu? Hvernig stóð á því að hann náði jafn miklum árangi og raun bar vitni á svo skömmum tíma. 

Ég veit það ekki, segir Helgi og hlær. Ég get nefnt aftur að í þessari grein var minn taktur. Ég hef séð marga einstaklinga æfa frjálsar íþróttir. Með tímanum og góðri þjálfun er hægt að finna sig í einhverri grein en maður sér fljótlega hvar menn passa ekki inn. Þegar maður horfir á yngri krakka þá sér maður hvernig þau hafa einhverja grein í sér en aðrar ekki. Þessi íþróttagrein hentaði mér og það hjálpar helling en ofan á það bætast svo endalausar æfingar.

Helgi hefur verið afreksmaður af lífi og sál. Hann lagði ekki bara hart að sér heldur virðist hann vera einn af þeim sem er stöðugt að velta fyrir sér hvernig best sé að nálgast íþróttirnar. Hvaða leiðir sé farsælt að fara í þeirri viðleitni að hámarka árangurinn. Hvaða íþróttafólk hefur haft áhrif á Helga? Hverra hefur hann horft til? 

Verandi handboltaáhugamaður þá var Ólafur Stefánsson maður sem maður leit upp til. Maður vildi komast í áttina að slíkum afreksíþróttamanni. Erlendis var það Michael Jordan. Sennilega eru þetta klassískustu nöfnin sem einhver af minni kynslóð getur nefnt ef við nefnum einn íslenskan og einn erlendan íþróttamann. Auðvitað eru margir aðrir sem hafa haft áhrif en þeirra nöfn eru ekki grafin í stein hjá mér eins og þessi tvö. Maður dáist að fólki sem nær árangri og ef maður fær upplýsingar um hvaða leiðir þau fóru að sínum markmiðum þá finnst mér áhugavert að kynna mér það. Þá getur maður prófað eitt og annað. Maður sankar að sér upplýsingum og reynir að búa til eitthvað eigið, útskýrir Helgi. 

Hægt að finna eitthvað fyrir alla

Kári Jónsson er landsliðsþjálfari í frjálsum hjá ÍF eins og áður var nefnt. Helgi hefur einnig unnið með þjálfurum sem sérhæfa sig í kastgreinum. 

Ég vann lengi með Guðmundi Hólmari. Þegar hann flutti út á land þá hætti ég hjá honum og fór til Einars Vilhjálmssonar. Ef Stefán Jóhannsson [frjálsíþróttaþjálfari sem þjálfað hefur marga kastara) er á svæðinu þá leita ég til hans. Ég hef æft með spjótkösturum eins og Dagbjarti, Sindra og Guðmundi Sverris og hef getað nýtt mér ýmislegt sem þeir gera. Fyrir mér eru gefins upplýsingar í boði úti um allt og ég hef aldrei verið feiminn að sækja þær. Ef ég var á æfingu og vissi af mönnum að horfa á mig sem búa yfir þekkingu þá gekk ég bara til þeirra og spurði hvað þeim fannst. Ef þeir eru á staðnum af hverju ekki að ná í upplýsingar? Þótt ég væri með þjálfara þá var þetta ekkert feimnismál fyrir mér. Ég hef fyllt mína poka af vitneskju bæði frá öðrum og vegna minnar reynslu. Þeirri vitneskju er ég svo tilbúinn til að deila með öðrum.

Í framhaldinu er Helgi spurður að því hvort hann mæli frjálsum íþróttum fyrir fatlaða einstaklinga sem eru annað hvort að leita að hreyfingu eða íþróttaiðkun af meiri alvöru. 

Ég myndi mæla með hvaða íþrótt sem er. Ef frjálsar er það sem fólk hefur áhuga á að prófa þá er um að gera að hafa samband við Íþróttasamband fatlaðra eða sjálfan mig á Facebook. Það eru til íþróttir sem henta hverjum og einum og því er hægt að finna eitthvað fyrir alla. ÍF er með yfirlit yfir hvað hægt er að gera í þeim málum. Ekki velta því fyrir sér heldur bara kýla á það.

Netflix á hótelherbergjum

Helgi hefur sem afreksmaður fengið tækifæri til að ferðast í tengslum við keppnir en segist ekki hafa fengið upplifun ferðamannsins í gegnum það. Algengast var að hann sæi lítið annað en hótelherbergi og leikvanginn. 

Til að byrja með prófaði ég að upplifa túristatilfinninguna. Þá var maður nýr í þessu og fullur af krafti til að gera allt að mér fannst. Fljótlega áttaði ég mig á að það er ekki málið í keppnisferðum. Ég fór ekki að ganga mig upp í herðablöðum til að skoða borgir eða fara þvers og kruss til að skoða minnismerki. Undir lok ferilsins mætti ég bara á hótelið, fór í vettvangsferðir til að vita hvar völlurinn var, mætti á æfingu, borðaði og horfði á Netflix uppi í rúmi. Þannig var þetta orðið. 

Það er eiginlega synd að geta ekki notið þess betur að koma til allra þessara landa. Maður hefði reyndar getað gert það með því að lengja ferðirnar og fara í skoðunarferðir eftir keppnina. En ég var með fjölskyldu heima og vildi því ekki lengja þann tíma sem ég eyddi í íþróttaiðkunina. Hann var víst nægur fyrir. Ég fór því alltaf strax heim eftir keppni.

Maður fyllist aðdáun á Paralympics

Meiningin var að Helgi myndi keppa á Paralympics í Tókýó en eins og íþróttaunnendur þekkja átti mótið að fara fram síðsumars í fyrra eða árið 2020. Helgi fékk engu að síður að upplifa Paralympics í tvígang. Annars vegar í London árið 2012 og hins vegar í Ríó árið 2016. 

Stefnan var alltaf að vera með í Tókýó og hætta eftir það. Árið 2012 kom ég inn í þetta í London og var gersamlega dolfallinn yfir því enda hafði maður horft á Ólympíuleika í sjónvarpi frá því ég var gutti. Þarna hef ég alltaf viljað vera og þetta var á vissan hátt svolítið yfirþyrmandi. Í íslenska hópnum talaði fólk um sem hafði farið á marga leika að Paralympics í London væru þeir flottustu hingað til. Ég kom inn í það umhverfi og sá það flottasta sem var svo ekki raunin í Brasilíu árið 2016. Þar var myndavélunum vísað í þá átt sem menn vildu en ekki sást það sem var bak við myndavélarnar. Var það alla vega mín upplifun enda töluvert skítugra umhverfi.

Hvað varðar keppnina sjálfa þá er Paralympics alveg ótrúlegt dæmi. Að sjá alla þessa einstaklinga sem hafa lagt mikið á sig til að komast á þennan stað. Þegar ég kom á mitt fyrsta stórmót þá fannst mér ekki vera mikið að mér. Mér fannst ég ekki vera að glíma við mikla fötlun miðað við hversu mikið fatlaðir einstaklingar eru að keppa á fullu. Ég mæli með því fyrir alla að upplifa Paralympics alla vega einu sinni. Maður fyllist aðdáun yfir því að sjá hvað fólk er í raun og veru öflugt. Það er með ólíkindum, segir Helgi Sveinsson.

Viðtal: Kristján Jónsson Myndir: Úr safni

Sækja skyldar greinar
  • Evrópumót Virtus

    Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…
  • Evrópuleikar ungmenna

    Evrópuleikar ungmenna – European Para Youth Games (EPYG) hafa verið haldnir frá árin…
  • Ein af betri æfingaaðstöðum á landinu

    Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fékk nýveri ðafnot hluta af gömlu slökkvistöðinni í Reykjan…
Load More By merla
Load More In 1. tbl 2021
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Evrópumót Virtus

Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…