Íþróttasamband fatlaðra hefur átt í farsælu samstarfi við Össur í meira en þrjá áratugi. Össur er einn helsti samstarfs- og styrktaraðili sambandsins og hefur m.a. verið með íslenskt afreksfólk úr röðum fatlaðra í Team Össur sem skipað er fremsta íþróttafólki heims sem keppir á og notast daglega við vörur frá Össuri.
Nýverið fóru Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF og Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF í heimsókn til Össurar og var tilefnið nýafstaðin þátttaka Íslands í Vetrar Paralympics í Kína.
Með í heimsókninni var skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson sem er meðlimur í Team Össur en hann var jafnframt eini keppandi Íslands á Vetrar Paralympics í Kína. Þess má einnig geta að Hilmar er sumarstarfsmaður hjá Össuri.
Við heimsóknina afhenti Þórður Árni Paralympic-kyndilinn sem Ísland fékk fyrir þátttöku sína í Kína. Sveinn Sölvason forstjóri Össurar tók við kyndlinum til varðveislu sem minningu um samstarf ÍF og Össurar og þátttöku Íslands í leikunum.
Á myndinni frá vinstri eru Sveinn Sölvason forstjóri, Hilmar Snær Örvarsson íþróttamaður og starfsmaður Össurar, Ólafur Magnússon, Þórður Árni Hjaltested og Edda Heiðrún Geirsdóttir forstöðumaður samskiptasviðs.
Hluti úr Paralympic-eldinum frá því London 2012 er varðveittur í Bláa Lóninu en hverri þátttökuþjóð í leikunum 2012 var gefinn hluti af Paralympic-eldinum. Þá er kyndill frá Paralympics í Tokyo í Japan frá 2020 varðveittur hjá Toyota á Íslandi en öll þessi fyrirtæki eru á meðal fremstu samstarfs- og styrktaraðila Íþróttasambands fatlaðra.
Hér má sjá myndband sem gert var um Paralympic-kyndilinn fyrir Vetrar Paralympics 2022 í Beijing, Kína.