Heim 2. tbl 2020 Hreyfing og draumar rauði þráðurinn


Hreyfing og draumar rauði þráðurinn


9 min read
Slökkt á athugasemdum við Hreyfing og draumar rauði þráðurinn

0
1,389

Ólympíukvöld fatlaðra leiddu einstakar sögur í ljós
Nýverið lauk sýningum á Ólympíukvöldum fatlaðra hjá RÚV. Um var að ræða fimm þætti sem fóru í máli og myndum yfir þátttöku Íslands á Paralympics allt frá árinu 1980 til ársins 2016. Fjöldi viðmælenda og magnað myndefni gerðu þáttaseríuna einstaka. Hvatisport.is tók hús á Hilmari Björnssyni sem er yfirmaður íþróttadeildar RÚV en hann kvaðst afar ánægður með þær móttökur sem þáttaröðin hefur fengið hjá almenningi.

Eftir farsælar sýningar á Ólympíukvöldum síðasta sumar tók RÚV ákvörðun um að gera Ólympíukvöld fatlaðra. Hvernig gekk að sanka að sér öllu efninu yfir þessa fjóra áratugi?
Því miður er frekar lítið til af efni frá eldri mótum, sérstaklega af afrekum okkar Íslendinga. Sem betur fer sendi RÚV íþróttafréttamann á leikana 1992 í Barcelona. Þá hjálpaði einnig að  ÍF og íþróttafólkið sjálft lagði til persónulegt efni við þáttagerðina. Það kom í ljós að alþjóðlega hefur fremur lítið af efni verið tekið upp eða varðveitt. Við leituðum til annarra ríkissjónvarpsstöðva á Norðurlöndum og fengum t.d. efni frá Finnum en hjá Norðmönnum, Dönum og Svíum var lítið til frá þessum eldri verkefnum. Árið 1992 gerir RÚV út Loga Bergmann og þá varð mikið og flott efni til enda fer þar þungavigtamaður í bransanum.

Við undirbúning þáttanna var eitthvað sem kom sérstaklega á óvart eða var erfitt í vinnslunni?
Við höfðum ágætis reynslu af þáttagerð sem þessari frá Ólympíukvöldunum sem sýnd voru síðasta sumar og því fórum við með verkefnið inn í sama ramma. Það var helst krefjandi að finna myndefni frá eldri leikum og mesta vinnan fór í að nálgast það efni. Okkur á íþróttadeildinni fannst þetta bæði krefjandi og gríðarlega skemmtilegt að segja sögur okkar fólks og greina frá afrekum þeirra.

Hvernig fannst ykkur á íþróttadeild RÚV verkefnið takast til?
Við erum mjög ánægð! Vissulega fellur þetta vel að verkefnum RÚV og hlutverkum okkar en þau viðbrögð sem við höfum fengið eru góð og vonandi kveikja þættirnir í fleirum til þess að hreyfa sig og byggja sig upp til framtíðar. Ég held að það sé rauði þráðurinn í þáttunum, að fólk hreyfi sig og láti sig dreyma og byggi sig upp til framtíðar. Þónokkrar slíkar sögur í þáttunum hreyfðu vel við manni.

Var eitthvað í efninu eða hjá viðmælendum sem var sérlega athyglisvert?
Við þekkjum að íþróttir snúast ekki bara um úrslit heldur oftar en ekki um sögur af íþróttafólki sem hreyfir við almenningi. Í þessu verkefni voru sögurnar fjölmargar og að fá að segja sögur okkar fólks í gegnum þættina var sterk upplifun. Gleðin, stóru mótin, áskoranirnar sem hefðu getað brotið marga en gerðu ekki. Fólk sem lét sig dreyma og var síðan skyndilega statt á Paralympics sem sýnir enn eina ferðina hvað íþróttir skipta miklum sköpum fyrir einstaklinginn og heilbrigði hans.

Hvernig mótttökur hafa þættirnir verið að fá?
Við erum afar ánægð með mótttökurnar og viðbrögðin, við erum sannfærð um að það hafi verið hárrétt ákvörðun að fara ítarlega yfir þessa sögu okkar og varðveita hana vel. Við gerðum þátt um 40 ára afmæli Íþróttasambands fatlaðra á síðasta ári sem kom virkilega skemmtilega út. Þetta er eitt af hlutverkunum okkar, að varðveita söguna.

Hilmar Björnsson

Nú er búið að dekka alla leika frá 1980 og framundan 2021 eru leikarnir í Tokyo. Mun RÚV sækja leikana eða hvernig verður umfjöllun um 2021 leikana háttað?
RÚV fer til Tokyo og mun greina frá Paralympics, það er bara klárt! Sem fyrr verður umfjöllunin um þátttöku Íslands í leikunum og við munum fylgja okkar íþróttafólki vel eftir. Við munum fjöga beinum útsendingum og vera með samantektarþætti með því helsta eftir flesta keppnisdagana. Stefnan er að sinna verkefninu enn betur en áður hefur verið gert. Ég efast ekki um að leikarnir muni fara fram en það er bara spurning hvort það verði með eða án áhorfenda. Mikið ferli hefur verið í gangi til þess að einfalda leikana svo þeir geti farið fram og Alþjóða Ólympíuhreyfingin (IOC) hefur gefið það út berum orðum að af leikunum verði og ég hef trú á því að það gangi eftir.



Sækja skyldar greinar
  • Evrópumót Virtus

    Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…
  • Evrópuleikar ungmenna

    Evrópuleikar ungmenna – European Para Youth Games (EPYG) hafa verið haldnir frá árin…
  • Ein af betri æfingaaðstöðum á landinu

    Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fékk nýveri ðafnot hluta af gömlu slökkvistöðinni í Reykjan…
Load More By merla
Load More In 2. tbl 2020
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Evrópumót Virtus

Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…