Global Games fóru fram í Ástralíu í októbermánuði en mótið er haldið á fjögurra ára fresti af INAS sem eru heimssamtök þroskahamlaðra íþróttamanna. Að þessu sinni sendi Ísland fjóra keppendur til leiks en það voru sundmennirnir Róbert Ísak Jónsson og Þórey Ísafold Magnúsdóttir, Jón Margeir Sverrisson í hjólreiðum og Hulda Sigurjónsdóttir í frjálsum íþróttum.
Þjálfarar og fararstjórar í ferðinni voru þau Berglind Bárðardóttir, Hafdís Sigurðardóttir og Melkorka Rán Hafliðadóttir. Þórður Árni Hjaltested, formaður ÍF, var gestur við mótið en sat einnig aðalfund INAS sem fram fór samhliða leikunum.
Að þessu sinni unnu íslensku keppendurnir ekki til verðlauna en þetta var þó í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í hjólreiðakeppni leikanna.
„Aðstaðan í Ástralíu var til fyrirmyndar og fann hópurinn bæði sundlaug og líkamsræktarsal nálægt hótelinu þar sem undirbúningurinn fór fram hjá Huldu og sundfólkinu. Jón Margeir og Hafdís þeyttust um götur borgarinn á hjólunum í sumarblíðu til að undirbúa sig fyrir götuhjólakeppnina. Mótið sjálft var allt hið glæsilegasta og íslensku keppendurnir stóðu sig með prýði,“ segir Berglind Bárðardóttir, sundþjálfari og aðalfararstjóri í ferðinni.
Við aðalfundinn sem Þórður Árni sat bar það einna helst til tíðinda að INAS ákvað þar að breyta nafni samtakanna úr INAS í VIRTUS en það útleggst sem „World Intellectual Impairment Sport.“ Að öðru leyti var um að ræða hefðbundin aðalfundarstörf.