Heim 2. tbl 2019 Snemmtæk íhlutun er forvarnarverkefni sem styrkir börn til framtíðar

Snemmtæk íhlutun er forvarnarverkefni sem styrkir börn til framtíðar

9 min read
Slökkt á athugasemdum við Snemmtæk íhlutun er forvarnarverkefni sem styrkir börn til framtíðar
0
869

Kynningardagur YAP (Young Athlete Project) var á Vestfjörðum 19. nóvember 2019. YAP-verkefnið er alþjóðlegt verkefni á vegum Special Olympics-samtakanna. Markmið er að stuðla að markvissri hreyfiþjálfun barna þar sem markhópur er börn með sérþarfir eða einhvers konar frávik. Innleiðing YAP á Íslandi hófst 2015 og heilsuleikskólinn Skógarás, Ásbrú hefur verið helsti samstarfsaðili ÍF og gert rannsóknir á áhrifum innleiðingar YAP í leikskólastarfið. Verkefnið byggir á æfingaáætlun og árangursmælikvarða sem unninn var í samstarfi við sérfræðinga við háskólann í Boston. Ókeypis aðgengi er að öllu fræðsluefni. Æfingar taka fyrir ákveðna þætti sem fylgt er eftir og markviss nálgun nær fram markverðum árangri.

Kynningin fór fram í leikskólanum Glaðheimum, Bolungarvík þar sem fulltrúar leikskóla á svæðinu fylgdust með æfingum barna úr leikskólanum og síðan tók við kynning og umræður.

Umsjón með kynningu höfðu Ásta Katrín Helgadóttir, íþróttakennari á heilsuleikskólanum Skógarási, Ásbrú, og Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi. Sett var upp þrautabraut og börnin tóku virkan þátt í öllum æfingum sem hver og ein miðar að því að þjálfa ákveðna þætti. Í kjölfar verklegra æfinga tóku við kynning og umræður um innleiðingu YAP á Íslandi. Mikilvægt er að sjá tækifærin sem liggja í innleiðingu YAP. Auk þess að horfa á gildi þess að börn sem þess þurfa, fái aukatíma í hreyfiþjálfun getur YAP nýst sem verkfæri sem tengir saman hreyfiþjálfun og t.d. stærðfræði og lestur. Á Skógarási er YAP-verkefnið nýtt fyrir alla nemendur en sérstakur markhópur eru nemendur með slaka hreyfifærni, hegðunarvandkvæði, vanvirkni eða óöryggi og tvítyngdir nemendur. Niðurstaða rannsókna sýna miklar framfarir nemenda á sviði hreyfifærni og félagslegra samskipta. Einnig hafa niðurstöður sýnt aukna vellíðan, sjálfsöryggi, gleði, sjálfsstjórn og tjáningu.

Rætt var um stöðu mála á hverjum stað og möguleika á samstarfi milli bæjarfélaga. Áhuga skorti ekki hjá starfsfólki en ljóst að þörf er á stuðningi við þá aðila sem eru að reyna að efla starfið sem snýr að markvissri hreyfiþjálfun. Þótt YAP-verkefnið nýtist öllum börnum hefur það mest áhrif til framtíðar fyrir börn með sérþarfir og frávik. Áhugasamir leikskólastjórar og sérkennslustjórar þurfa að fá þann stuðning sem þarf til að hreyfiþjálfun verði nýtt sem markvisst og árangursdrifið verkfæri á fyrstu árum barnsins, ekki síst þar sem frávik á hreyfiþroska eru greinileg. Rannsóknir á sviði hreyfiþroska sýna að snemmtæk íhlutun á því sviði er mikilvæg og rannsóknir í heilsuleikskólanum Skógarási, Ásbrú hafa sýnt jákvæð áhrif samþættingar á sviði hreyfiþroska, málþroska og félagsfærni. Allt vinnur þetta saman og er jafnmikilvægt. Forsenda árangurs er að litið sé á hreyfiþjálfun út frá faglegri nálgun og að gerður sé greinarmunur á frjálsum leik eða almennri hreyfingu og markvissri hreyfiþjálfun með mælanlegum árangri og markmiðssetningu, ekki síst ef skertur hreyfiþroski er til staðar.

Góðar forsendur eru til staðar að skapa markvissa umgjörð um hreyfiþjálfun barna í leikskólum á Vestfjörðum. YAP-verkefnið getur verið aðlagað að því starfi sem fyrir er og nýtt á margvíslegan og ólíkan hátt, allt eftir því hvað hentar á hverjum stað. Í Bolungarvík leitar leikskólastjórinn leiða til að hægt sé að nýta betur sérþekkingu á sviði hreyfiþjálfunar. Þar starfar áhugasamur íþróttafræðingur sem hefur allar forsendur til að vinna markvisst að innleiðingu YAP séu forsendur skapaðar til þess. Á Ísafirði er starfsmaður með sérþekkingu á sviði útivistar þar sem fimm ára börn hafa m.a. fengið tækifæri til að læra á gönguskíði. Vonandi skapast tækifæri til að koma á fót samstarfi milli leikskóla þar sem sérfræðiþekking á sviði hreyfiþjálfunar og útiæfinga nýtist sem flestum börnum á svæðinu. Forsendur til framfara eru þó alltaf háðar þeim stuðningi sem sveitarfélög leggja til og vonandi eru allir sammála um að hér er um að ræða verkefni sem getur reynst mikilvæg forvörn og styrkt börn til framtíðar.

Ekki síður getur þetta verkefni styrkt börn til að takast á við það umhverfi sem skapast þegar komið er úr leikskóla í grunnskóla og fyrstu skref oft stigin inn á vettvang íþróttanna.

Sækja skyldar greinar
  • Evrópumót Virtus

    Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…
  • Evrópuleikar ungmenna

    Evrópuleikar ungmenna – European Para Youth Games (EPYG) hafa verið haldnir frá árin…
  • Ein af betri æfingaaðstöðum á landinu

    Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fékk nýveri ðafnot hluta af gömlu slökkvistöðinni í Reykjan…
Load More By merla
Load More In 2. tbl 2019
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Evrópumót Virtus

Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…