Heim Áfram veginn Fátt ef nokkuð annað verkefni eins gefandi í starfi
 — Hans Steinar Bjarnason skrifar um vinnu sína við Paralympics 2016

Fátt ef nokkuð annað verkefni eins gefandi í starfi
 — Hans Steinar Bjarnason skrifar um vinnu sína við Paralympics 2016

8 min read
Slökkt á athugasemdum við Fátt ef nokkuð annað verkefni eins gefandi í starfi
 — Hans Steinar Bjarnason skrifar um vinnu sína við Paralympics 2016
0
1,444

Paralympics 2016 fóru fram í Rio de Janeiro í Brasilíu. RÚV fjallaði ítarlega um mótið þar sem íþróttafréttamaðurinn Hans Steinar Bjarnason og upptökumaðurinn Óskar Nikulásson lögðu land undir fót til þess að fylgja íslenska hópnum eftir.

Hún var fögur sjónin að að koma inn til lendingar í Ríó, höfuðborg Brasilíu, við sólarupprás að morgni 5. september 2016 eftir rúmlega 10 klukkustunda flug frá New York. Ég og Óskar Nikulásson, kvikmyndatökumaður og pródúsent, vorum að hefja 12 daga ævintýri og framleiða umfjöllun fyrir RÚV um fimm íþróttahetjur og þátttöku þeirra fyrir Íslands hönd á Ólympíumóti fatlaðra. Guðni Th. Jóhannesson kom rétt á eftir okkur til að styðja við íslensku keppendurna í sinni fyrstu opinberu embættisferð sem nýkjörinn forseti Íslands.

Vonir voru um að Íslendingar kæmu heim með alla vega tvenn verðlaun frá mótinu. Jón Margeir Sverrisson átti Ólympíutitil að verja í 200 metra skriðsundi í flokki þroskahamlaðra og spjótkastarinn Helgi Sveinsson var ríkjandi Evrópumeistari og heimsmethafi í spjótkasti í flokki aflimaðra. Það voru því mikil vonbrigði að hvorugur þeirra skyldi ná á verðlaunapall í Ríó. Helgi reið á vaðið fyrstu Íslendinganna og mér fannst virkilega ósanngjarnt að nýlega hafði fötlunarflokkur Helga verið sameinaður öðrum flokkum fyrir íþróttamenn með minni fötlun. En Helgi var nokkuð frá sínu besta og hafnaði í 5. sæti og hann sagði í viðtali við mig að spennustigið hafi líklega orðið honum að falli. Þáverandi heimsmet hans hefði dugað til gullverðlauna þetta kvöld og svo bætti hann heimsmetið aftur vorið 2017. Svona geta íþróttir verið vægðarlausar.

Jón Margeir rétt missti einnig af verðlaunum í sinni sterkustu grein, 200 metra skriðsundi. Hann var samt nálægt sínu besta en galt einfaldlega fyrir frábæra frammistöðu helstu keppinauta sinna. Viðtalið við Jón Margeir eftir sundið er eitt það allra eftirminnilegasta sem ég hef tekið. Hann gaf tilfinningunum lausan tauminn og lýsti því tárvotur hvað hann væri sorgmæddur yfir því að hafa ekki unnið til verðlauna fyrir ástina sína, Stefaníu.

Það ríkti hins vegar mikil gleði þegar Sonja Sigurðardóttir komst í úrslit í 50 metra baksundi  í flokki hreyfihamlaðra. Sonja sló Íslandsmet í úrslitunum og varð í 8. sæti en það þakkaði hún nýjum sundbol sem notaði í fyrsta sinn í úrslitasundinu. Thelma Björg Björnsdóttir fór á Ólympíumótið aðeins tvítug en hafði slegið Íslandsmet í sundi 237 sinnum í flokki hreyfihamlaðra. Hún komst ekki í úrslit í sínum greinum en fékk dýrmæta reynslu. Það var líka mikið álag á Sonju sem keppti fjóra daga í röð. Ég mun heldur aldrei gleyma þeim stórmerkilega karakter sem bogfimimaðurinn Þorsteinn Halldórsson er. Hann varð fyrstur Íslendinga til að keppa í bogfimi á Ólympíumóti og keppti í fötlunarflokki þeirra sem eru með skerta hreyfigetu en hann axlarbrotnaði í fæðingu. Hann lenti í hverju óhappinu á fætur öðru í aðdraganda mótsins, varð fyrir bíl og datt svo af hjóli þar sem hann braut hnéskel en náði engu að síður naumlega lágmarki fyrir Paralympics þar sem hann hafnaði svo í neðsta sæti. Þorsteinn er einhver heiðarlegasti og opinskáasti íþróttamaður sem ég hef tekið viðtöl við. 

Ríó er ógnarstór og fjölmenn borg í fallegu landslagi. Á sjöundu milljón manna býr í borginni og fjarlægðir eru á allt öðru stigi en við þekkjum á litla Íslandi. Keppnissvæðið fyrir bogfimi var á gömlum leikvangi inni í miðju fátækrahverfi þar sem glæpatíðni er há og okkur Óskars var gætt af vopnuðum hermönnum meðan við biðum eftir fari heim á hótel.

Á mínum 13 ára ferli sem íþróttafréttamaður í sjónvarpi er fátt, ef nokkuð annað verkefni, sem var mér eins gefandi í starfi og hafði áhrif á lífsviðhorf mitt. Þarna vorum við innan um heimsins besta íþróttafólk úr röðum fatlaðra sem hefur ekki aðeins lagt allt undir í undirbúningi sínum fyrir stærstu íþróttakeppni heims heldur einnig glímt við áskoranir sem fylgja fötlun af öllu mögulegu tagi. Ég hafði ekki í mér að kveinka mér yfir því að enda á slysavarðstofunni eftir að hafa brennt mig á heitu Brasilíukaffi, fengið eitrun eftir skordýrabit og matareitrun og 39 stiga hita. Ég var í þeirri forréttindastöðu að fá að deila ógleymanlegri upplifun með íþróttahetjum.

Hans Steinar Bjarnason

Sækja skyldar greinar
  • Evrópumót Virtus

    Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…
  • Evrópuleikar ungmenna

    Evrópuleikar ungmenna – European Para Youth Games (EPYG) hafa verið haldnir frá árin…
  • Ein af betri æfingaaðstöðum á landinu

    Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fékk nýveri ðafnot hluta af gömlu slökkvistöðinni í Reykjan…
Load More By merla
Load More In Áfram veginn
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Evrópumót Virtus

Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…