Heim 2. tbl 2020 Bergrún og Hilmar íþróttafólk ársins 2020 – Guðbjörg og Ludvig hlutu Hvataverðlaunin

Bergrún og Hilmar íþróttafólk ársins 2020 – Guðbjörg og Ludvig hlutu Hvataverðlaunin

13 min read
Slökkt á athugasemdum við Bergrún og Hilmar íþróttafólk ársins 2020 – Guðbjörg og Ludvig hlutu Hvataverðlaunin
2
1,406

Frjálsíþróttakonan Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir frá FH og Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson frá Víkingi eru íþróttafólk ÍF árið 2020. Þetta er þriðja árið í röð sem Bergrún er útnefnd íþróttakona ársins en í fyrsta sinn sem Hilmar Snær verður fyrir valinu og jafnframt í fyrsta sinn sem skíðamaður hreppir hnossið.





Íþróttakona ársins 2020:
Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, frjálsar – FH
Frjálsíþróttakonan Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir er íþróttakona ársins 2020. Þetta er þriðja árið í röð sem Bergrún er kjörin íþróttakona ársins hjá ÍF. Þrátt fyrir miklar æfinga- og keppnistakmarkanir á árinu setti Bergrún nýtt Íslandsmet í langstökki í sumar þegar hún stökk 4.30 metra og bætti þar með Íslandsmet Matthildar Ylfu Þorsteinsdóttur í flokknum T37. Tekið skal fram að árangri ársins 2020 náði Bergrún sem félagsmaður hjá ÍR en nýverið skipti hún yfir til FH og munu þau félagsskipti taka fullt gildi um áramót.

Nafn: Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir
Aldur: 20 ára
Félag: FH
Keppnisflokkur: T/F 37 (flokkur hreyfihamlaðra)
Þjálfari: Hermann Þór Haraldsson

Bergrún komst ekki til keppni erlendis á árinu 2020 þar sem öllum stórmótum á vegum Alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC) var aflýst. Hún tók m.a. þátt í sameiginlegu Íslandsmóti ÍF og FRÍ en Íslandsmetið í langstökki setti hún á Origo móti FH í Kaplakrika.  

Íþróttamaður ársins 2020:
Hilmar Snær Örvarsson, skíði - Víkingur
Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson er íþróttamaður ársins 2020. Þetta er í fyrsta sinn sem Hilmar Snær er útnefndur íþróttamaður ársins og í fyrsta sinn sem íþróttamaður í vetraríþróttum er útnefndur Íþróttamaður ársins hjá ÍF. Fyrr hafði Erna Friðriksdóttir skíðakona verið útnefnd íþróttakona ársins árið 2010. Hilmar varð fyrstur Íslendinga til að sigra Evrópumótaröð IPC í alpagreinum en það gerði hann á lokamótinu í Króatíu í febrúar á þessu ári.

Nafn: Hilmar Snær Örvarsson
Aldur: 20 ára
Félag: Víkingur (skíðadeild)
Keppnisflokkur: LW2 (hreyfihamlaðir, standandi flokkur)
Þjálfari: Þórður Georg Hjörleifsson.

Hilmar hóf keppnisárið í Hollandi 2019 með silfri og bronsverðlaunum á móti innan Evrópumótaraðarinnar. Á heimsbikarmótaröðinni landaði hann silfri á Ítalíu í svigi og þrenn gullverðlaun litu svo dagsins ljós í Slóvakíu á móti innan Evrópumótaraðarinnar. Frá Slóvakíu lá leiðin til Króatíu þar sem Hilmar tryggði sér endanlega sigur á Evrópumótaröðinni með þrenn gullverðlaun og eitt í svigi.

Við hófið hlaut Már Gunnarsson sundmaður frá ÍRB einnig eignarbikar fyrir útnefningu sína sem íþróttamaður ársins 2019 sem og Bergrún Ósk. Þá var Andri Stefánsson sviðsstjóri afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ viðstaddur athöfnina þar sem hann afhenti Hilmari og Bergrúnu eignarbikara frá ÍSÍ en það er hefð að ÍSÍ afhenti íþróttafólki hvers sérsambands eignarbikara ár hvert. Sú viðhöfn hefur jafnan farið fram á hófi íþróttafólks ársins í samstarfi ÍSÍ og samtaka íþróttafréttamanna en ekki verður af því hófi þetta árið sökum sóttvarna. 
Einstakt samstarf
Hvataverðlaun ÍF 2020 hljóta Guðbjörg Kristín Ludvigsdóttir og Ludvig Guðmundsson
Innan Íþróttasambands fatlaðra hefur í gegnun árin skapast sérstakt samfélag þar sem sterk tengsl myndast milli fólks og í raun má líta á þetta samfélag sem eina stóra fjölskyldu. Eitt það dýrmætasta við starfið er að hafa fengið að kynnast einstökum persónuleikum og góðum liðsmönnum. Fólk sem gefur af sér og veitir sérþekkingu í farveg í þágu íþróttafólksins og fólk sem sem nýtur ómældrar virðingar hvar sem komið er. 

Þannig manneskja er Ludvig Guðmundsson, endurhæfingarlæknir sem hefur starfað í læknaráði ÍF frá árinu 1994. Hann fylgdi keppnisliði ÍF á öll stórmót allt til ársins 2008 þegar hann var liðslæknir Íslands á Ólympíumóti fatlaðra í Peking. Hann sótti alþjóðlega fundi og ráðstefnur um flokkunarmál og hefur verið einn helsti ráðgjafi ÍF á því sviði. Það var mikil gæfa fyrir ÍF að fá hann til liðs við starfið á sínum tíma og starf hans verður aldrei fullþakkað. Það var því mikið fagnaðarefni þegar Ludvig kynnti árið 2010  nýjan liðsmann í læknaráð ÍF, dóttur sína Guðbjörgu Kristínu sem fetað hafði í fótspor hans sem endurhæfingarlæknir og vildi leggja sitt lóð á vogarskálarnir í starfi fyrir fatlað íþróttafólk. Guðbjörg var liðslæknir Íslands á Ólympíumóti fatlaðra í London 2012.

Feðginin Ludvig Guðmundsson og Guðbjörg Kristín Ludvigsdóttir voru elskuð af öllum innan hreyfingarinnar sem þekkt teymi í læknaráði ÍF sem vann markvisst að því að þróa og bæta það sem sneri að læknisfræðilegum flokkunarmálum og öðru því sem tengdist faglegu starfi þeirra. Það sem einkenndi samvinnu þeirra var þó ekki aðeins faglegt og metnaðarfullt samstarf heldur einstök hlýja sem þeim báðum var gefið að veita út í umhverfi sitt. Þessi einstaka og góða nærvera hafði áhrif á alla í kring og það var sannarlega áhrifaríkt að hafa slíkt fólk til staðar, hvort sem var við einföld eða flókin verkefni innanlands eða erlendis.

Það er í raun erfitt að lýsa með orðum mikilvægi þess að eiga slíkt fólk að og þeim tilfinningum sem skapast og væntumþykju gagnvart þeim feðginum við störf hjá ÍF. Fyrstu árin unnu þau verkefnin hlið við hlið en á síðustu árum hafði Guðbjörg tekið við keflinu að leiða starf læknaráðs ÍF þar sem krafist er mikillar sérþekkingar á flokkunarmálum íþróttafólks. Hún var helsti sérfræðingur á því sviði og sótti ráðstefnur og fundi erlendis þar sem hún lagði sitt að mörkum á alþjóðavísu.

Í starfi sínu sem endurhæfingarlæknir á Grensás var Guðbjörg Kristín óþreytandi við að virkja fólk til áframhaldandi endurhæfingar gegnum hreyfingu og íþróttastarf og hélt reglulega kynningar þar sem fatlað íþróttafólk sagði frá sinni upplifun og gildi íþrótta. Hún barðist fyrir því að tekið yrði alvarlega á höfuðhöggum í íþróttum og hafði mikil áhrif á þá umræðu. 

Framlag þeirra feðgina til starfs ÍF er ómetanlegt og verður aldrei fullþakkað.

Það var gífurlegt áfall fyrir alla hreyfinguna þegar  Guðbjörg Kristín lést í sumar eftir veikindabaráttu, þar sem sama æðruleysi ríkti og í lífinu sjálfu. 

Íþróttasamband fatlaðra vill heiðra minningu Guðbjargar Kristínar um leið og starf hennar og föður hennar Ludvigs, ekki síst einstakt samstarf þeirra feðgina er þakkað af heilum hug.

Sækja skyldar greinar
  • Evrópumót Virtus

    Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…
  • Evrópuleikar ungmenna

    Evrópuleikar ungmenna – European Para Youth Games (EPYG) hafa verið haldnir frá árin…
  • Ein af betri æfingaaðstöðum á landinu

    Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fékk nýveri ðafnot hluta af gömlu slökkvistöðinni í Reykjan…
Load More By merla
Load More In 2. tbl 2020
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Evrópumót Virtus

Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…