Heim 2. tbl 2020 Ákvörðun sem skilaði úrslitasundi á EM


Ákvörðun sem skilaði úrslitasundi á EM


17 min read
Slökkt á athugasemdum við Ákvörðun sem skilaði úrslitasundi á EM

0
2,012

Guðfinnur Vilhelm Karlsson afrekssundmaður

„Ég er fæddur og uppalinn Hafnfirðingur og get því alveg hlegið af nokkrum Hafnarfjarðarbröndurum,“ sagði afrekssundmaðurinn Guðfinnur Vilhelm Karlsson þegar Hvatisport.is tók hús á honum á dögunum. Guðfinnur hefur farið fremur óvanalega leið á afreksferli sínum en hann hafði æft sund um árabil áður en hann tók ákvörðun sem átti eftir að opna fyrir honum alveg nýjan heim. Guðfinnur keppir í flokki blindra (S11) en þessi 32 ára gamli Hafnfirðingur fæddist án augasteina og sjóntauga og notast við gerviaugu í dag.

Guðfinnur er yngstur í systkinahópnum en hann á systurnar Ingibjörgu og Magneu og hálfbróðurinn Hafþór. Guðfinnur býr í foreldrahúsum hjá þeim Karli Jóhanni Valdimarssyni og Erlu Þóru Óskarsdóttur sem jafnan er vopnuð „prikinu“ þegar Guðfinnur keppir í sundi. Sundmenn í keppnisflokkum blindra notast við svokallaða „tappara“ sem bíða á bökkunum og pikka í keppendur með sérútbúnu priki til að láta þá vita hvenær sé komið að snúingi í lauginni.
Guðfinnur stundaði nám við blindradeildina í Álftamýrarskóla en bauðst þó að ljúka grunnskólaprófi í sínum heimabæ Hafnarfirði en afþakkaði það boð. „Ég vildi ljúka grunnskóla með mínum vinum í Álftamýrarskóla og svo lá leiðin í Flensborg þar sem ég útskrifaðist af náttúrufræðibraut árið 2007. Síðan þá hef ég reynt fyrir mér í sagnfræði við Háskóla Íslands og í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík en náði því miður ekki að halda sjálfsaga á þeim tíma og hef því ekki lokið þessu námi í dag. Nú er ég að einbeita mér að því að ljúka námi á píanó og fiðlu frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og á eitt próf eftir af hvoru hljóðfæri,“ sagði Guðfinnur en í myndbandinu hér að neðan má sjá Guðfinn handleika fiðluna af mikilli fimi.

Sex ára í sundlauginni
Guðfinnur hóf sundæfingar hjá Firði árið 1994 þá aðeins sex ára gamall. „Það var í Suðurbæjarlaug hjá honum Ólafi Þórarinssyni. Óli hefur kennt þeim mörgum og ofboðslega fínn kennari fyrir svona byrjendur enda voru þetta alltaf skemmtilegir sundtímar hjá honum. Í unglingadeildinni og elstu flokkum fóru að koma litlar bætingar hjá mér í sundinu en 2013 lendi ég í axlarmeiðslum. Eftir að ég náði mér góðum af þeim fór ég með Firði á opna þýska meistaramótið í Berlín árið 2015 og þar komu stóru bætingarnar mínar í lauginni, þá fór ég t.d. í fyrsta sinn undir 1.40.00 mín. í 100m bringusundi og var þá næstum því kominn undir B-lágmark. Þarna fór ég að trúa því að ég ætti möguleika á því að komast á stórmót erlendis fyrir Íslands hönd,“ sagði Guðfinnur sem þarna er orðinn 25 ára gamall.

Alger gírskipting og stórmót
Flest þekkjum við sögur af íþróttafólki sem byrjar snemma og er ungt að árum farið að skapa sér afreksferil og því er saga Guðfinns að vissu leyti frábrugðin mörgum öðrum hvað þetta varðar. Hálfþrítugur tekur hann ákvörðun sem átti eftir að færa hann á endanum upp á stóra sviðið. „Þetta ár 2015 verður bara mikil gírskipting hjá mér, ég tók mataræðið mitt í gegn, bætti við mig talsverðu magni af æfingum, reif mig upp á laugardagsmorgnum og reyndi að gera flest allt það sem þarf til að bæta sig. Á sínum tíma var ég þyngstur um 110kg eitt sumarið áður en ég skipti um gír en síðan þá hef ég komist vel undir 80kg og þar vil ég vera til þess að komast sem best áfram í vatninu,“ sagði Guðfinnur sem árið 2018 uppsker fyrir erfiði sitt þegar hann náði lágmörkum fyrir Evrópumeistaramót Alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC) í sundi.
„Þetta árið fór EM fram í Dublin á Írlandi og ég komast í úrslit í öllum mínum greinum. Það var svo 100m bringusund sem var mitt fyrsta úrslitasund á stórmóti og ég get sagt ykkur að þetta var upplifun!“ sagði Guðfinnur sællar minningar. „Ég æfði stíft með landsliðinu allt sumarið eftir að hefðbundnar æfingar hjá Firði fóru í sumarfrí og ég verð að viðurkenna að það var skrýtin upplifun að vera með öllu þessu öfluga landsliðsfólki í sundi,“ sagði Guðfinnur sem var kominn í hóp þeirra fremstu og síðan með þeim út fyrir landsteinana sem fulltrúi sinnar þjóðar, síns félags og bæjarfélags. „Ég komst í úrslit og ég bætti mig á mínu fyrsta stórmóti og ég satt best að segja held að það sé varla hægt að biðja um mikið meira í svona fyrstu atrennu. Mér er það eftirminnilegt að keppa í bringunni í Dublin því í þeirri grein þá kemur maður svo oft upp úr vatninu og heyrir vel í áhorfendum og það vantaði ekkert upp á stemmninguna hjá Írum,“ sagði Guðfinnur en enskumælandi lönd hafa gríðarlegan áhuga fyrir Paralympics og Para-íþróttum almennt og eru leiðandi þjóðir á þeim vettvangi. Þeir eiga sér einnig öfluga keppinauta í Úkraínumönnum, Kínverjum, Rússum og fleiri stórþjóðum en enskumælandi löndin hafa t.d. átt hvað stærstan þátt í útbreiðslu Paralympics og miðasalan á leikana 2012 í London náði sögulegu hámarki sem og sjónvarpsáhorfið þar í landi svo fyrsta stórmót Guðfinns var á vettvangi þar sem þétt var setið og mikil læti í lauginni.

Ákvörðunin kom seint
„Flestir sem voru að æfa með mér þegar ég var yngri og voru góðir sundmenn eru hættir í dag. Mér fannst skrýtið að upplifa svona kynslóðaskipti og verða á meðal elstu iðkenda sem og fyrstur í sprettunum á æfingum. Vissulega hefði það verið ákjósanlegra fyrir mig að taka ákvörðunina um að ætla mér landsliðsferil og þátttöku í stórmótum fyrr á ferlinum en fyrst bætingar eru enn að gera vart við sig þá er sundskýlan alls ekkert á leið upp á neina hillu,“ sagði Guðfinnur vígreifur en hann eins og annað afreksíþróttafólk hefur þurft að sýna mikið og gott langlundargerð í heimsfaraldri COVID-19.


Ekki öll nótt úti enn
Engum dylst að um þessar mundir kreppir skóinn verulega að íþróttafólki og þá einkum og sér í lagi að afreksíþróttafólki sem hefur sett stefnuna á stórmót á borð við Evrópumót, heimsmeistaramót eða Paralympics. Guðfinnur segir að heimsfaraldur COVID-19 hafi reynst þungur viðureignar. „Þetta var mjög erfiður tími í vor, öll óvissan og svo æfingabann. Að þurfa að stoppa æfingar gera það að verkum að ég sjálfur var fremur lengi að koma til baka. Þá var ég vanur að fara í nudd og hugsa vel um mig svo ég varð soldið stífari en ég vona að róðrarvélin og upphífingastöngin sem ég keypti mér til að hafa heima hjálpi nú eitthvað til að viðhalda forminu,“ sagði Guðfinnur og kvaðst líka spenntur fyrir því að geta farið á fullu í laugina á nýjan leik.

Þegar þetta er ritað er Guðfinnur ásamt sex öðrum sundmönnum í landsliðshópi ÍF með undanþágu fyrir æfingar vegna undirbúnings fyrir stórmót svo hann æfir undir stjórn Inga Þórs Einarssonar en ekki með félagi sínu því þar er enn æfingabann. „Það mun taka tíma að komast aftur á rétta braut, í lok janúar eða byrjun febrúar ef við fáum að æfa með landsliðinu áfram þá ætti maður að vera kominn aftur á góðan stað, kannski ekki að synda á bestu tímum þar sem sundið er jú tæknigrein sem stöðugt þarf að viðhalda.“

Aðspurður um framhaldið sagði Guðfinnur að markmiðið væri að komast á stórmót á nýjan leik sem fulltrúi sinnar þjóðar, síns félags og sveitarfélags. „Ég ætla mér aftur á EM og HM, það er kannski gróft fyrir 36 ára gamlan sundmann að ætla sér inn á Paralympics í París 2024 en margir íþróttamenn í Parasporti hafa farið með nokkuð háan aldur inn á leikana svo kannski er ekki öll nótt úti enn hvað það varðar,“ sagði Guðfinnur sem hefur allan sinn sundferil fengið öflugan stuðning að heiman.

„Ég væri örugglega hættur ef ég hefði ekki haft alla þessa aðstoð frá foreldrum mínum. Mamma hefur alla tíð aðstoðað mig í sundinu og verið manni allt, hún hefur verið tappari frá fyrsta degi síðan við byrjuðum að nota prikið í lauginni. Þennan stuðning get ég seint fullþakkað og þökk sé þessum stuðningi get ég sagt fullum fetum: Það er aldrei of seint að ná markmiðum sínum!“ 

Sækja skyldar greinar
  • Evrópumót Virtus

    Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…
  • Evrópuleikar ungmenna

    Evrópuleikar ungmenna – European Para Youth Games (EPYG) hafa verið haldnir frá árin…
  • Ein af betri æfingaaðstöðum á landinu

    Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fékk nýveri ðafnot hluta af gömlu slökkvistöðinni í Reykjan…
Load More By merla
Load More In 2. tbl 2020
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Evrópumót Virtus

Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…