Hilmar Snær Örvarsson hafnaði í dag í 3. sæti í svigi á Evrópumótaröð IPC en þetta var lokadagur mótaraðarinnar þetta tímabilið. Hilmar var annar eftir fyrri ferðina en smávægileg mistök í upphafi annarar ferðar reyndust dýr og lauk Hilmar keppni í 3. sæti.
Aðstæður í dag voru fremur erfiðar, gott veður en mikið af nýjum og blautum snjó. Sem fyrr var það Frakkinn Arthur Bauchet sem hafði sigur í dag en hann sigraði allar fjórar keppninar í standandi flokki á mótinu hér í Malbun.
Hilmar Snær sem keppir fyrir skíðadeild Víkings hefur því lokið Evrópumótaröðinni þetta árið með silfur og brons í svigi en líklegast má telja að þetta hafi verið síðasta verkefnið þetta tímabilið.
Mynd/ JBÓ – Hilmar Snær í svigkeppninni í dag.