Íþróttafélagið Akur var stofnað 7. desember 1974 og hét þá Íþróttafélag fatlaðra á Akureyri. Félagið varð því 45 ára í desember síðastliðnum og var haldið upp á tímamótin bæði með íþróttaviðburðum og kynningu á starfi félagsins. Akur starfar á Akureyri en það er Jón Heiðar Jónsson formaður félagsins sem fer hér fyrir kynningu á félaginu en Jón Heiðar er fyrrum stjórnarmaður ÍF og keppandi fyrir Íslands hönd á Paralympics.
Í mars 1979 stóð ÍFA fyrir fyrsta Íslandsmótinu í boccia og borðtennis fyrir fatlaða iðkendur á Íslandi og hefur Akur átt keppendur á öllum Íslandsmótunum síðan og Íslandsmeistara á hverju ári.
Fyrsta þátttaka Akurs á stórmótum erlendis var 1980. Þá átti félagið tvo keppendur á vetrarólympíuleikum í Geilo í Noregi og þrjá keppendur á sumarleikunum í Arnheim í Hollandi. Margir félagar okkar hafa síðan tekið þátt í stórmótum í flestum heimsálfum, oft með góðum árangri og komist á verðlaunapall.
Nú er félagið opið öllum sem vilja stunda þær greinar sem félagið býður upp á.
Stjórn Akurs skipa nú: Jón Heiðar Jónsson formaður, Sigríður Þórunn Jósepsdóttir varaformaður, Jón Heiðar Daðason gjaldkeri, Guðmundur Guðmundsson ritari og Ingi Bjarnar Guðmundsson meðstjórnandi.
Íþróttafélagið Akur stundar nú eftirtaldar íþróttagreinar: boccia, bogfimi og borðtennis og eigum við afreksmenn í öllum þessum greinum.
Undanfarnir mánuðir hafa verið með nokkuð breyttu sniði vegna heimsfaraldursins sem við búum nú öll við og höfum þurft að aðlaga okkur að. Gildandi sóttvarnarreglur hafa sett starfinu töluverðar skorður allt frá því í mars síðastliðnum. Á tímabilum hafa allar æfingar og starfið þurft að leggjast í dvala vegna þess. Eins hafa flest mót og verkefni sem fyrirhuguð voru bæði innanlands og erlendis fallið niður eða verið frestað til næsta árs.
Þrátt fyrir þetta höfum við náð að halda starfinu gangandi en þó með breyttu sniði og gengu æfingar utanhúss í bogfimi til dæmis vel í sumar. Einnig stóðum við fyrir sumarnámskeiðum í borðtennis meðan faraldurinn var í lágmarki og mæltist það afar vel fyrir og hefur fjöldi iðkenda í borðtennis aukist verulega frá síðasta vetri. Einnig héldum við æfingahelgi með unglingalandsliði BTÍ hér fyrir norðan. Stjórn og iðkendur líta björtum augum fram á veginn og láta tilhlökkun um betri tíð er varðar íþróttastarf ráða för.
Iðkendur Akurs hafa tekið þátt í flestum þeim mótum sem haldin hafa verið innanlands þrátt fyrir faraldurinn. Einnig höfum við haldið viðburði innan félagins með okkar iðkendum eftir því sem sóttvarnarreglur hafa heimilað.
Mikill uppgangur hefur verið í bogfimideildinni á undanförnum árum og hefur verið áframhald á öflugu starfi hjá deildinni. Hafa iðkendur og þjálfarar sótt fjölda móta og viðburða.
Aðstöðumál Bogfimideildarinnar eru nokkuð áhyggjuefni um þessar mundir en deildin hefur misst aðstöðuna sem við höfum haft til umráða í Austursíðu vegna sölu á húsnæðinu. Stjórn og þjálfarar hafa lagt mikla vinnu í að reyna að finna húsnæði sem hentar starfseminni en ljóst er að greinin á erfitt uppdráttar í hefðbundnum íþróttasal. Ekki er alveg séð fyrir endann á þessari vinnu en til stendur að gera tilraunir í vetur með að stunda æfingar í Reiðhöllinni í samstarfi við hestamannafélagið Létti.
Þjálfarar félagsins eru Elvar Thorarensen sem þjálfar bæði borðtennis og boccia. Sigríður Jósepsdóttir sem þjálfar boccia, Markus Meckl sem þjálfar borðtennis. Rúnar Þór Björnsson, Alfreð Birgisson, Izaar Þorsteinsson og Ásgeir Unnsteinsson sem þjálfa bogfimi. Einnig hefur Kelea Quinn komið að þjálfun afrekshóps í bogfimi og hefur hún reynst okkur mikill liðsstyrkur. Þakkar félagið þeim óeigingjant starf í gegnum árin.
Upplýsingar um starfið má finna á facebook síðum félagsins eða hjá formanni í s: 895-8684 eða í gegnum tölvupóst á: jonhjon@simnet.is
Aðalsíða félagsins: https://www.facebook.com/IFAAkur
Bogfimideildin: https://www.facebook.com/groups/298582753488389
Borðtennisdeildin: https://www.facebook.com/groups/517296438325960