Ösp hlaut hvatningarverðlaun ÖBÍ
Öryrkjabandalag Íslands veitti Hvatningarverðlaun ÖBÍ í fjórtánda sinn þetta árið. Verðlaunin voru afhent á alþjóðadegi fatlaðs fólks þann 3. desember. Verndari verðlaunanna hr. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands var viðstaddur afhendinguna.
Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands eru veitt þeim sem hafa með verkum sínum stuðlað að einu samfélagi fyrir alla og endurspegla nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks.
Leitað var tilnefninga meðal almennings og í ár voru 25 aðilar tilnefndir.
Í flokki fyrirtækja/stofnana varð Íþróttafélagið Ösp fyrir valinu að þessu sinni, fyrir að standa að íþróttaæfingum og mótum fyrir börn með fötlun síðan 1980.
Í umsögn ÖBÍ kom m.a. fram:
Markmið Aspar er að standa fyrir íþróttaæfingum fyrir einstaklinga með fötlun þeim til heilsubótar og ánægju og býður upp á æfingar í átta íþróttagreinum, þannig að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Fréttina í heild sinni má skoða hér á heimasíðu ÖBÍ
Helga Hákonardóttir formaður Asparinnar var að vonum ánægð með hvatningarverðlaunin þegar hvatisport.is náði tali af henni: „Þessi Hvatningarverðlaun ÖBÍ eru af stórum hluta þjálfurum okkar í gegnum tíðina okkar að þakka. Það má heldur ekki gleyma því að Ösp er barnið hans Olla sem hélt félaginu gangandi öll þessi ár en hann lagði líf og sál í þetta í 38 ár og er enn okkur til stuðnings þegar svo ber undir,“ sagði Helga stolt með hvatningarverðlaunin.
Ólafur Ólafsson eða Olli eins og hann er jafnan kallaður er einn af stofnendum Aspar og enn liðtækur í félaginu. Helga segir að ómetanlegt framlag Olla, öflugir þjálfarar, sterkt bakland í foreldrum og fjölbreyttur og jákvæður iðkendahópur sé það sem skapi kjarnann í starfinu hjá Ösp.
„Verðlauning okkar eru hvatning til áframhaldandi góðra verka og sýnir að við erum að gera allskonar hluti rétt. Að vera hluti af þessu félagi er nánast eins og að vera hluti af fjölskyldu. Mér finnst þetta svo skemmtilegt og gefandi og iðkendurnir gera þetta bæði stórt og ánægjulegt. Manni líður vel í félagi þar sem allir eru velkomnir, allir eru jafnir og gleðin er við völd.“