
Heimildarmyndin Rising Phoenix er komin í sýningar á Netflix en eins og áður hefur komið fram gerir myndin skil á sögu Paralympics sem er stærsta afreksmót fatlaðra íþróttamanna. Leikstjórar myndarinnar eru Ian Bonhote og Peter Ettedgui en í myndinni einblína þeir á hvað gerir íþróttafólk sérstakt, vinnusiðferði þeirra og ákveðni. Á meðal viðmælenda í myndinni er maður sem jafnan vekur athygli hvar sem hann fer í íþróttaheiminum en sá heitir Matt Stutzman sem er margfaldur bogfimimeistari sem fæddist án handa og skýtur af sínum boga með fótunum. Fleiri nafntogaðir íþróttamenn úr röðum fatlaðra koma við sögu í myndinni en leikstjórarnir báðir segja að myndin sé um færni og hvernig manneskjan er sífellt að ögra sjálfri sér og öðrum.