Youth Summitt er samstarfsvettvangur innan Special Olympics þar sem ungt fólk kemur saman og ræðir hagsmunamál og íþróttastarf. Ísland fékk boð frá Special Olympics í Evrópu um að taka þátt í Youth Summitt 2020 sem fram fer í Svíþjóð og það verða þeir Guðmundur Kristinn Jónasson og Ómar Karvel Guðmundsson frá Bolungarvík sem verða fullrúar Íslands á ráðstefnunni. Þeir kepptu í badminton „unified“ á alþjóðaleikum Special Olympics í Los Angeles 2015. Aðstoðarmaður þeirra verður Jónas Sigursteinsson
Jenni Hakkinend sem sér um unified-verkefni Special Olympics í Evrópu kom til Íslands nú í nóvember til að hitta þá félaga og halda kynningarfund um unified sport, unified school og Youth summitt. Ekki hefur verið fundið íslenskt orð yfir „unified“ sem byggir á t.d. liðakeppni fatlaðra og ófatlaðra í íþróttum.
Kynningarfundurinn var haldinn í ÍSÍ mánudaginn 25. nóvember. Á fundinum voru auk fulltrúa ÍF og Special Olympics á Íslandi, iðkendur, þjálfarar og sérgreinastjórar Special Olympics á Íslandi. Fulltrúar LETR á Íslandi stóðu með kyndil Special Olympics við útidyr ÍSÍ og tóku á móti fundargestum. Jenni var mjög ánægð með fundinn og þær umræður sem fóru þar fram og hrósaði liðsmönnum Special Olympics á Íslandi en þar standa margir vaktina og aðstoða skrifstofu ÍF við að fylgja verkefnum eftir. Það hefur vakið athygli hve margir þjálfarar innan ÍF og Special Olympics á Íslandi eru menntaðir íþróttafræðingar eða með mikla reynslu og fagkunnáttu á sviði þjálfunar en sú staða er alls ekki algeng hvað varðar iðkendur Special Olympics á heimsvísu. Þessi þáttur er gífurlega mikilvægur en það er einnig mikilvægt að fá liðsmenn til aðstoðar sem hafa sjálfir verið keppendur og á fundinum voru iðkendur sem jafnframt aðstoða við þjálfun hjá sínu félagi.
Fulltrúi SOE heimsótti einnig HSK-mót í boccia sem haldið var á Selfossi. Það var íþróttanefnd fatlaðra hjá HSK sem skipulagði mótið þar sem fulltrúar Suðra og Gnýs kepptu í blönduðum liðum og mikil stemming ríkti á staðnum.