Þáttaröðin Ólympíukvöld fatlaðra hefur göngu sína á RÚV í kvöld. Þættirnir eru sambærilegir við Ólympíukvöldin sem voru á dagskrá RÚV síðastliðið sumar. Þættirnir munu gera sögu Ólympíumóts fatlaðra (Paralympics) ítarleg skil sem og þátttöku Íslands í leikunum og stikla á stóru hvað varðar helstu afrek á þessu stærsta afreksíþróttamóti fatlaðra sem haldið er fjórða hvert ár.
Fjöldi afreksmanna, þjálfara, stjórnarmanna og íþróttafréttamanna mun taka þátt í Ólympíukvöldi fatlaðra og eru stjórn og starfsfólk ÍF þess fullviss að þáttaröðin muni varpa öflugu ljósi á það góða starf sem hefur verið unnið hérlendis með íþróttafólki úr röðum fatlaðra.
Sökum aðstæðna útaf COVID-19 er ljóst að ekki verður unnt að halda Paralympic-daginn í Laugardalshöll eins og til stóð þetta árið. Þess í stað mun Íþróttasamband fatlaðra gangsetja kynningarmánuð á www.hvatisport.is
Með kynningarmánuði ÍF á www.hvatisport.is vonumst við til þess að umfjöllunin um íþróttastarf fatlaðra á Íslandi vekji áhuga og tryggi að iðkendur skili sér fljótt og vel aftur inn í aðildarfélögin um leið og hægt verður að gangsetja íþróttastarfið í landinu á nýjan leik.
Starfsemi Íþróttasambands fatlaðra og aðildarfélaganna er afar fjölbreytt og því verður af nægu að taka næsta mánuðinn.
Með vinsemd og virðingu,
Þórður Árni Hjaltested
Formaður Íþróttasambands fatlaðra