Óskað var eftir samantekt í Hvata, um þátttöku Íslands í Special Olympics Festival í Danmörku en þangað fóru keppendur frá aðildarfélögum ÍF í Reykjavík, Hafnarfirði, Akureyri, Ísafirði og Vestmannaeyjum. Special Olympics nefnd Íþróttasambanda fatlaðra á Norðurlöndum hefur verið að leita leiða til að auka norrænt samstarf þjálfara og íþróttafélaga. Ísland fékk boð á þetta mót í kjölfar þessa verkefnis og stefnt er að fleiri samstarfsverkefnum á grundvelli félagastarfs.
Hér er samantekt sem Sverrir Gíslason, Helga Hákonardóttir og Guðlaug Sigmundsdóttir frá íþróttafélaginu Ösp tóku saman um þátttöku Asparfélaga.
Um miðjan maí lögðu tæplega 100 Íslendingar land undir fót og skelltu sér til Kolding í Danaveldi.
Í hópnum voru meðal annarra 73 keppendur, þjálfarar, foreldrar og fylgdarmenn frá Íþróttafélaginu Ösp sem fóru á Special Olympics Idrætsfestival. Mót þetta átti upphaflega að vera haldið í Frederikshavn 2020 en vegna heimsfaraldursins var því frestað í til 2021 og loks til 2022 en þá var skipt um borg þar sem Frederikshavn gat ekki séð sér fært að halda mótið þetta árið.
Danmörk tók á móti okkur með glampandi sól og blíðu og lék veðrið við okkur að mestu þó aðeins hafi blásið og rignt á frjálsíþróttahópinn.
Þátttakendurnir sem voru um 1200 talsins, ásamt aðstoðarmönnum komu frá öllum norðurlöndunum og skemmtu sér allir vel. Þó skiptust auðvitað á skin og skúrir og ekki allir alveg sáttir með eigin frammistöðu en það gefur manni bara góða ástæðu til að æfa betur og gera betur næst. Okkar keppendur komu vel flestir heim með glæsileg verðlaun í farteskinu og allir með bros í hjörtum og frábærar minningar sem ylja lengi. Keppnisstaðirnir voru dreifðir um Kolding og nágrenni svo erfitt var að fylgjast með öllu og höfðu því miður eingöngu þeir keppendur sem voru staðsettir í Sydbank Arena aðgang að heilsudagskrá sem í boði var þar.
Íslensku keppendurnir tóku þátt í frjálsum íþróttum, sundi, boccia, keilu, nútímafimleikum og golfi og stóðu sig öll með stakri prýði.
Hópurinn sýndi að þau eiga fullt erindi á þetta mót sem næst verður haldið í Frederikshavn í maí 2024 og vonum við bara innilega að við fáum boð þangað, strax farin að láta okkur hlakka til.