Nú þegar Vetrarólympíuleikum er að ljúka er afreksíþróttafólk úr röðum fatlaðra að gera sig klárt fyrir brottför til Kína þar sem Vetrar Paralympics fara fram dagana 4.-13. mars næstkomandi.
Fulltrúi Íslands á leikunum er skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson frá Víkingi en þetta verða hans aðrir leikar. Frumraunina þreytti Hilmar í Suður-Kóreu árið 2018.
Hilmar mun keppa í tveimur greinum sem eru stórsvig og svig en nýverið hafnaði Hilmar í 5. sæti á heimsmeistaramótinu í svigi en það mót fór fram við magnaðar aðstæður í Lillehammer í Noregi.
Íslenski hópurinn heldur út til Kína þann 1. mars en keppni í stórsvigi fer fram 10. mars og keppni í svigi 12. mars. Íslenski hópurinn er svo væntanlegur aftur heim til Íslands þann 15. mars. Leikarnir verða í beinni útsendingu hjá RÚV og er Peking 9 klukkustundum á undan Íslandi.
Þórður Georg Hjörleifsson og Einar Bjarnason verða í þjálfarateymi Hilmars í ferðinni og fararstjóri er Jón Björn Ólafsson íþrótta- og miðlastjóri Íþróttasambands fatlaðra. Að þessu sinni eru hæg heimatökin þegar kemur að því að skipa liðslækni hópsins en það er Jón Örvar Kristinsson og vill einmitt svo vel til að hann er líka faðir Hilmars.
Búist er við tæplega 700 keppendum við leikana frá 49 þjóðlöndum en Ísrael, Azerbaijan og Púertó Ríkó munu öll taka þátt í sínum fyrstu vetrarleikum í sögunni. Peking eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum verður þannig fyrsta borg heimsins til þess að halda bæði sumar- og vetrarleika en sumarleikarnir fóru þar fram síðast árið 2008.
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Jón Björn Ólafsson íþrótta- og miðlastjóri Íþróttasambands fatlaðra á if@ifsport.is eða í síma 8681061.