Heim 2. tbl 2020 Læknar samfélagsins – Hvataverðlaunin

Læknar samfélagsins – Hvataverðlaunin

46 min read
Slökkt á athugasemdum við Læknar samfélagsins – Hvataverðlaunin
0
1,616

Hvataverðlaun ÍF verða afhent í áttunda sinn þann 15. desember 2020. Að þessu sinni hlýtur Ludvig Árni Guðmundsson viðurkenninguna ásamt dóttur sinni Guðbjörgu, en hún féll frá þann 7. ágúst á þessu ári og mun fjölskylda hennar veita verðlaununum móttöku. Það er ekki ofsögum sagt að þau feðginin eru ágætlega að viðurkenningunni komin enda hafa þau unnið frábært starf í þágu ÍF árum saman endurgjaldslaust. Af þessu tilefni heimsótti Hvati Ludvig á heimili hans í Kópavoginum og ræddi við hann um heima og geima, störf hans og Guðbjargar fyrir ÍF, dótturmissinn, áhugamálin og hamingjuna. 

Ludvig/Lúðvík (Árni) Guðmundsson

Hvata lék forvitni á að vita af hverju Ludvig héti ekki bara Lúðvík og spurði hvort hann vildi láta kalla sig Ludvig eða Lúðvík. 

Ég segi nú Lúðvík en skrifa Ludvig. Það eru venjulega fjórar ritvillur í nafninu mínu! Ég er vanur því og tek það nú ekkert mjög nærri mér. Ástæðan er einfaldlega sú að forfaðir minn langt aftur í aldir var danskur.

Ludvig er Guðmundsson og ber millinafnið Árni en notar það lítið sem ekkert. Hann fæddist 4. október árið 1947 á Ísafirði. Þar sleit hann barnsskónum, bjó þar í nákvæmlega 12 ár en fjölskyldan flutti á 12 ára afmælisdegi hans til Reykjavíkur. Lítur Ludvig á sig sem Ísfirðing?

Já, foreldrar mínir eru þaðan, mamma reyndar úr Djúpinu. Ég hef miklar taugar til Ísafjarðar en reyndar rofnuðu öll ættartengsl við bæinn eftir að við fluttum þaðan, ég á engin skyldmenni þar svo sambandið hefur kannski verið minna en ella.

Ludvig kunni strax vel við sig í höfuðborginni og segist hafa lent í góðum félagsskap. Fyrsta veturinn var Ludvig í Melaskóla en lauk gagnfræðaprófi úr Hagaskóla. Menntaskólinn í Reykjavík tók svo við árið 1963 og lauk Ludvig þar stúdentsprófi 1967. Leiðin lá svo beint í læknisfræði við HÍ og lauk hann grunnnámi læknisfræðinnar árið 1974. Eftir kandídatsárið fór Ludvig til Eskilstuna í Svíþjóð og lauk sérnámi í heimilislækningum 1980. Þá var haldið heim á leið og Ludvig starfaði sem heilsugæslulæknir á Kirkjubæjarklaustri til ársins 1984.

Það var einmenningshérað á Kirkjubæjarklaustri, frekar lítið hérað, ekki nema um 700 íbúar sem þykir ekki mikið fyrir einn lækni. En á móti kom að það var mikill ferðamannastraumur þarna í gegn og maður var einn þannig að ég var á krónískri vakt í 4 ár má segja! Það var einn læknir í Vík í Mýrdal og við gátum aðeins skipst á og leyst hvor annan af ef maður þurfti að bregða sér af bæ en annars var maður alveg ótrúlega bundinn. 

Það voru auðvitað ekki komnir farsímar þarna og sveitasíminn var lagður niður 1981 og þá var ekki lengur símstöð sem hringdi á sveitalínur. Á símstöðinni var alltaf vakt og ég gat látið starfsfólk þar vita af mér sem gat svo látið fólk vita hvar væri hægt að ná í mig ef ég þurfti að fara eitthvert. En eftir 1981 var það sem sagt ekki lengur hægt og þá þurfti konan mín að sitja við símann heima til að geta leiðbeint fólki um hvar væri hægt að ná í mig. Hún var því bundinn á vakt alveg eins og ég! Þetta var svakalega bindandi.

Ekki amalegt fyrir Ríkið að hafa þarna ókeypis aðstoðarmann! En hvað tók við eftir Kirkjubæjarklaustur?

Þá var ég heilsugæslulæknir á Seltjarnarnesi og var þar í 9 ár, til 1993. Það var talsvert öðruvísi og manneskjulegra. Svo lá leiðin á Reykjalund, var þar að vísu bara í námsleyfi fyrst en í framhaldi af því var ég ráðinn í eins árs stöðu sem endurhæfingarlæknir og eftir það ár ákvað ég að skipta alveg yfir og fékk sérfræðileyfi sem endurhæfingarlæknir 1996. Ég var á Reykjalundi í 20 ár eða til 2013. Ég hætti að vinna við hæfingu árið 2003 og vann eingöngu við offitumeðferðina þar síðustu 10 árin á Reykjalundi. Svo það má segja að ég hafi verið offitulæknir Íslands þarna í 10 ár!

Ég fór svo eftir það á Grensás. Ég hafði reyndar hugsað mér að enda ferilinn á því að fara í hérað aftur (þ.e. vinna sem heilsugæslulæknir úti á landi), fara á milli og kynnast landinu í leiðinni, en það var ekki eins aðgengilegt og ég hafði ímyndað mér. Alls staðar vantaði lækna en hvergi var laust! Búið var að ráðstafa öllum héröðum með íhlaupalæknum. Það er víst þannig enn í dag víða. En dóttir mín Guðbjörg var endurhæfingarlæknir á Grensás og plataði mig í að koma bara þangað og ég var þar síðustu árin. Ég hætti svo nú um síðustu áramót en hafði verið í hlutastarfi síðustu þrjú árin.

Fjölskyldan

Eiginkona Ludvigs heitir Jóna Borg Jónsdóttir og eignuðust þau fjögur börn, tvo stráka og tvær stelpur. Hvenær kynntist þú Jónu?

Það var árið 1968, þegar ég var 21 árs. Við giftum okkur 1969.

Það var ekkert verið að tvínóna við þetta!? 

Neinei, við höfum verið gift í bráðum 52 ár, áttum gullbrúðkaup fyrir skemmstu.

Já! Þetta var svona á þessum tíma, fólk var ekkert að tvínóna við þetta neitt…?

Þetta var allt öðruvísi, hún varð fljótt ófrísk, við eignuðumst fyrsta barnið í desember 1968 og þá gifti maður sig! Það kallaðist að eiga lausaleikskróga ef maður eignaðist barn og var ekki giftur, það var ekki gott…

Það þótti slæmt ennþá þarna 1968…!?

Jájá! En svo giftu börnin okkar sig ekki fyrr en þau höfðu eignast þrjú börn eða jafnvel fjögur! 

Barnabörnin eru orðin 14 talsins, 8 strákar og 6 stelpur. Eitt langafabarn er komið í heiminn sem er stelpa svo það jafnar kynjahlutföllin!

Starfið fyrir ÍF

Upphafið að áratugalöngu starfi Ludvigs fyrir ÍF tengist starfi hans á Reykjalundi. 

Fljótlega eftir að ég kom á Reykjalund var mér úthlutað því verkefni að sjá um svokallaða hæfingu. Það er í raun endurhæfing þeirra sem aldrei hafa náð fullri líkamlegri getu, hafa semsagt verið fatlaðir frá fæðingu eða ungum aldri. Það er kölluð hæfing því það er augljóslega ekki um endurhæfingu að ræða. 

Sveinn Már Gunnarsson, læknirinn sem hafði sinnt þessu veiktist, fékk krabbamein og gat ekki starfað lengur. Ég var ekki undir það búinn og þurfti að læra það hjá sjálfum mér frá grunni. Það var bara að setjast niður og lesa og lesa! Það var enginn sem gat komið mér af stað, Sveinn var sá eini sem hafði menntað sig í þessum málum hér á landi. Þetta var mikil áskorun.

Ég tók svo líka við verkefnum sem Sveinn hafði haft út í bæ, hann var ráðgefandi á Greiningarstöðinni. Þangað fór ég nokkrum sinnum á ári í svokallaðar móttökur en þar  skoðar þverfaglegt teymi mál þeirra sem eru með hinar og þessar hreyfifatlanir og reynir að leggja línurnar hvernig eigi að vinna með hvern einstakling í framhaldinu. Einnig fór ég að vinna hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra og var með móttöku þar einu sinni í viku eða svo fram til ársins 2002 eða 2003.  

Þarna er augljós tenging við fatlaða einstaklinga en hvernig hófst samband þitt við ÍF nánar tiltekið?

Tveir læknar á Reykjalundi, Magnús Einarsson og Gísli Einarsson, höfðu verið að vinna fyrir ÍF og fengu mig til að koma með árið 1994 og smám saman fjarlægðust þeir en ég sat eftir!

Jájá! En í hverju fólst þessi vinna?

Það var í tengslum við svokallað Læknaráð íþróttasambands fatlaðra. Þar var verið að ræða og sinna ýmsum þörfum íþróttafólksins, það komu kannski upp einhverjar vangaveltur í kringum fatlanirnar og þá kom maður e.t.v. með einhverjar ráðleggingar. Svo hvað varðar flokkanir, þ.e. í hvaða fötlunarflokki hver íþróttamaður ætti að keppa – eftir þeirri flokkun var farið hér á landi en svo voru alþjóðlegir matsmenn fyrir keppnir erlendis þó okkar flokkanir hafi yfirleitt staðist. Annað mál er hins vegar með mat á þroskaskerðingu. Það er gert með sálfræðiprófum í hverju landi fyrir sig og er háð tungumáli. Fyrst núna er verið að vinna í alþjóðlegu flokkunarkerfi fyrir þroskahamlaða sem er óháð tungumáli. 

Athyglisvert, starf þitt fyrir ÍF hefur svo undið upp á sig eða hvað?

Já, svo vatt þetta upp á sig. Það var eitt að sjá um þessar flokkanir en annað að sinna ýmsum erindum en svo var það að fara með á mót. Fyrsta mótið sem ég fór á var á Möltu 1995 sem var Evrópumeistaramót í sundi. Svo var það heimsmeistaramótið í sundi á Nýja-Sjálandi 1998. Það var kannski sú ferð sem mér fannst mesta upplifunin í á margan hátt. Í fyrsta lagi fórum við í einni strikklotu til Nýja-Sjálands! Við flugum í gegnum London, Singapore og svo til Nýja-Sjálands án þess að komast í rúm. Ferðalagið tók rúma 50 tíma allt í allt, bara flugið um 28 klukkustundir! Við komum um hádegi á fimmtudegi en engum var hleypt í rúm fyrr en um 7 um kvöldið til að aðlagast tímamismuninum. Keppnin hófst svo á mánudegi. Á föstudeginum og laugardeginum var maður bara allur dofinn! Við héldum hins vegar mjög stífu skipulagi svo þetta gekk svona nokkurn veginn upp og á mánudeginum voru menn orðnir sjálfum sér líkari. 

En þetta var svakalega flott mót, það fór fram í Christchurch en þar voru svo miklir jarðskjálftar 2011.

Það er ekki furða að þessi ferð þyki eftirminnileg! En menn hafa komist sæmilega heilir frá þessu að lokum…gekk vel á mótinu?

Jájá og það gekk mjög vel! Keppendur röðuðu inn verðlaunapeningum.

Ekki að spyrja að árangri íslenskra fatlaðra íþróttamanna, sem hefur til þessa fengið fáránlega litla athygli, í það minnsta hér á landi. En mótin urðu allnokkuð fleiri sem Ludvig fór á.

Ég fór svo á mína fyrstu Paralympics í Sydney árið 2000. Það er smá spölur þangað líka en maður var aðeins búinn að læra! Það var sama leið farin, London-Singapore-Sydney, en við vorum mikið fyrr á ferðinni, fórum viku áður, svo er ekki alveg eins langt þó ekki muni miklu. Ég hef semsagt fjórum sinnum lent í Singapore en ekki séð nokkurn skapaðan hlut af þeirri borg! En það var mjög vel staðið að mótinu í Sydney. 

Árið 2001 fór ég svo til Braunsweich í Þýskalandi á Evrópumeistaramót í sundi. Þá fór ég ekki sem liðslæknir heldur sem flokkunarlæknir og var að þjálfa mig betur í sundflokkuninni. Þar fór ég á flokkunarnámskeið. Svo var það Paralympics í Aþenu 2004 sem var flott mót en kannski ekki alveg jafn glæsilegt og í Sydney. Ég fór einnig á heimsmeistaramótið í sundi í Durban í Suður-Afríku sem var mjög fróðlegt. Síðasta Paralympics-mótið sem ég fór svo á var í Peking árið 2008.

Akkúrat, þetta eru umtalsverð ferðalög, mest allt lengst í burtu!

Jájá það má segja það. En við héldum Evrópumeistaramót í sundi haustið 2009 hér á Íslandi. Það var mikil vinna í kringum það. Við fengum mjög marga lækna með okkur til að vera til taks, það var heilmikil skipulagning í kringum þetta og allt kapp lagt á að öll heilbrigðisþjónusta á mótinu væri í lagi. 

Ludvig er enn viðloðinn ÍF en hefur nú dregið sig nokkuð til hlés. Guðbjörg dóttir hans tók má segja við forystunni af Ludvig er hún kom heim árið 2008 eftir sérnám í endurhæfingarlækningum í San Antonio í Texas og dvöl í London þar sem eiginmaður hennar, Stefán Þ. Sigurðsson prófessor var við rannsóknir í sameindalíffræði. Hún byrjaði strax það ár að vinna í þágu ÍF og unnu þau feðginin saman að allri vinnu við Evrópusundmótið hér heima 2009.

Guðbjörg fór í margar ferðir með ÍF, hún fór t.d. til London á Paralympics 2012 sem liðslæknir. Hún komst hins vegar ekki á Special Olympics árið 2015 né Rio 2016 eins og stóð til vegna veikindanna. Guðbjörg tók þátt í norrænu samstarfi í flokkunarmálum en aðallega vann hún við flokkun hér heima og var einnig í samstarfi við skrifstofu ÍF. Hún var mjög virk í starfi sínu alveg fram á það síðasta eða fram til vors á þessu ári en hún féll frá 7. ágúst síðastliðinn. Eftir að heilsu Guðbjargar hrakaði hef ég aukið aðkomu mína að starfinu aftur.

Ekki bara læknir

Mig langar til að spyrja þig aðeins nánar út í það hvert þitt hlutverk var í keppnisferðunum sem þú fórst í með ÍF?

Það var náttúrulega að sinna þeim læknisfræðilegu málum sem komu upp, svo sem eins og meiðslum og öðru slíku. Það þurfti líka oft að vinna með fatlanirnar, teygja á stirðum vöðvum og eitthvað í þeim dúr. En svo var ég bara einn hluti af teyminu þarna, ég starfaði bara við það sem allir hinir gerðu líka.

Já, þú hefur þá verið eins konar fararstjóri líka…?

Já, ég var oft á herbergi með einstaklingum sem voru svo fatlaðir að þeir gátu ekki verið einir og sér.

Það má segja að þú hafir verið liðveisluaðili líka? Þetta hafa verið býsna fjölbreytt verkefni, ekki bara læknir og punktur?

Já, neinei, mikið rétt. Svo var ég líka oft að aðstoða hinar Norðurlandaþjóðirnar því það hefur í gegnum tíðina gengið illa hjá þeim að fá lækna til liðs við sig. Við Færeyingar vorum mikið saman en reyndar komu þeir stundum með sjúkraþjálfara sem við höfðum ekki! Það var mjög góð samvinna þarna á milli.

Margfalt gildi íþrótta fyrir fatlaða

Það sem maður sá í tengslum við íþróttir fatlaðra var hversu svakalegum árangri fólk náði, ekki bara í íþróttum, heldur líka í sínu lífi. Íþróttir hafa mikið víðtækara gildi fyrir fatlaða en ófatlaða. Sjálfsbjargargetan margfaldast og sjálfstæðið á allan hátt. Svona stíf þjálfun fyrir marga er nauðsynleg bara til að geta klárað sig af í daglegu lífi en væru annars hjálpar þurfi og upp á aðra komnir. 

Einmitt, og þar af leiðandi hefur þetta væntanlega gríðarlega mikil og jákvæð áhrif á andlega heilsu?

Jájá allt saman, sjálfstæðið eins og ég segi og félagslífið líka. Ég gleymi ekki að á þessum keppnismótum var oft borðað á hótelum þar sem voru hlaðborð og þeir handalausu björguðu sér algerlega sjálfir. Bitu bara í diskinn og sóttu sér allt sjálfir. Svo man ég eftir einum handalausum sem keppti í sundi sem setti á sig sundhettuna og -gleraugun sjálfur. Maður er bara í vandræðum sjálfur að gera þetta! Fleira mætti nefna í þessum dúr.

Þetta er ótrúlegt alveg… 

Já, íþróttirnar gera rosalega mikið og fólk nær oft lengra en með hefðbundinni sjúkra- og iðjuþjálfun, íþróttirnar eru viðbót.

Það að vera farinn að keppa sem fatlaður íþróttamaður er ekkert lítið afrek útaf fyrir sig, það er ekkert smáræði sem er þá búið að yfirstíga. Ef við tökum sundið sem dæmi þá hefur þú kannski verið í sundlaug í 2-3 ár áður en þú getur fleytt þér! Þú ert þá bara að keppast við það.

Þú meinar að bara það að æfa sig í að halda sér á floti geti tekið 2-3 ár? Áður en þú ferð svo að æfa þig og keppa í sundi? T.d. þeir sem eru handalausir?

Jájá, eða jafnvel útlimalausir, synda bara með bolhreyfingum. Það er alveg ótrúlegt. Ég synti nú talsvert á sínum tíma en ég átti engan séns fyrr en í fjórða mest fatlaða flokknum af tíu! 

Það er svo annað sem íþróttamennirnir þurfa að yfirstíga og það er að fara í keppni og standa á startpalli í sviðsljósinu með sína fötlun fyrir framan alla.

Já einmitt, það er eitthvað sem maður hugsar jafnvel ekki einu sinni út í. En ég hef velt fyrir mér hvort samfélagið ætti ekki að standa betur við bakið á íþróttastarfi fatlaðra þar sem starfið leiðir til betri líðan fatlaðra fyrir það fyrsta og sparar hreinlega fjármuni í leiðinni. 

Jájá, það er ekkert smáræði. 

Í tengslum við þetta velti ég því líka fyrir mér hvort ekki sé of mikil áhersla á afreksíþróttirnar? Almennt séð en kannski enn frekar meðal fatlaðra?

Jú sennilega er það svo. Réttlætingin á því er sú að afreksíþróttirnar hvetji aðra. Ekki afrekið endilega sem slíkt heldur til að fá fleiri til að taka þátt, aðrir sjá að þetta er hægt. Ég hef oft velt þessu fyrir mér. En svo er það annað sem þarf að passa upp á varðandi íþróttir fatlaðra en það er þegar afrekstímabilinu lýkur en þá kemur oft bakslag því þá missa þeir svo mikið, allt það jákvæða í kringum æfingarnar, ferðirnar og félagsskapinn því tengdu. Þeir sem eru fatlaðir eru oft í verri stöðu en aðrir, hafa t.d. kannski ekki eins góðan aðgang að vinnu eins og aðrir og lenda þá oft í djúpum dal. Það er eitthvað sem ÍF er vel meðvitað um og reynir að takast á við það eftir bestu getu.

Læknar samfélagsins

Störf ykkar feðginanna fyrir ÍF hafa alfarið verið sjálfboðavinna ekki satt?

Jújú, en við fengum ferðir og uppihald borgað. Við höfum aldrei tekið laun beint, en ég gat hins vegar stundum nýtt námsleyfisrétt lækna í þetta, og fékk leyfi til að nýta hann þannig. Þannig að ég þurfti ekki að taka orlof og missti þá ekki laun, þetta var engin fjárhagsleg fórn…

…sagði Ludvig eins og ekkert væri sjálfsagðara! Heimurinn væri betri ef allir sem hafa námsleyfisrétt myndu nýta hann í jafn gott málefni. Öllu heilbrigðu fólki hlýtur að þykja störf Ludvigs og Guðbjargar fyrir ÍF afar virðingarverð. En það eru kannski flestallir ansi eigingjarnir í raun…af hverju er misskipting auðsins í heiminum svona gríðarleg, ef við lítum á stóru myndina?

Jújú, ef maður fer að ræða svona mál þá getur maður haldið endalaust áfram en í raun er verið að hvetja til eigingirni í samfélaginu, það er talinn kostur því eigingirni sé einhver drifkraftur sem drífur fólk áfram…en ég tek ekki undir það…

Já, er þetta ekki hugmyndafræði kapítalismans?

Jújú það er bara þannig. Ég hef stundum sagt að þeir sem eru að fá meira en 2 milljónir eða svo í laun á mánuði eru að fá umfram þarfir. Allt annað er í raun bara vitleysa. Ég sem læknir hef kannski haft u.þ.b. tvöföld laun miðað við samstarfsfólk mitt, t.d. sjúkraliða, og stundum hef ég bara vonda samvisku af því.

Akkúrat. En það er nú kannski eðlilegt að læknar hafi eitthvað hærri laun en sumir vegna menntunar og fleira?

Jájá, vissulega og ábyrgðar, en stundum er nú talað um ábyrgð þeirra sem minnstu ábyrgð bera!

Mikið rétt, myndir þú segja að þú værir vinstrisinnaður maður?

Já, ég myndi nú halda það.

Enginn ætti að þurfa að fylgja barni sínu til grafar

Ludvig varð fyrir því hræðilega áfalli að missa dóttur sína nú í sumar.

Guðbjörg féll frá 7. ágúst á þessu ári eftir 9 ára stríð við krabbamein.

Það er helvítis krabbinn…þetta er agalega öfugsnúið, svona eiga hlutirnir ekki að snúa…

Neinei, það á ekki að snúa á þann veg, en það er ekki spurt að því.

Einmitt…hvers konar krabba átti hún í stríði við?

Það var brjóstakrabbi.

Já…þeir hafa náð betri og betri árangri með brjóstakrabbann eða hvað?

Jú, en það er aðallega það að greina hann snemma, það er í raun aðal árangurinn og það sem skiptir mestu máli en það hafðist ekki hjá Guðbjörgu…hún var komin með breytingar í eitla. Svo kom nú hlé… 

Það er hálf skepnulegt…krabbinn fer en tekur sig svo upp aftur…?

…jájá, bara eftir fjögur ár þá kemur þetta aftur.

Hvernig tekst maður á við svona áfall?

Það var náttúrulega langur aðdragandi. Það var í raun búið að vera sorgarferli í nokkur ár. Við reynum að styðja hvert annað. Það er verst að það hefur verið svolítið erfitt að styðja fjölskylduna hennar, það hafa náttúrulega verið ákveðnar takmarkanir á umgengni vegna covid. Það er ákveðin fjarlægð sem skapast vegna þess. 

Jájá, það hefur gert allt þyngra í vöfum…

Jájá, það hefur verið erfiðara þess vegna. En við áttum erfiða tíma hérna. Þetta er í raun ekkert sem að batnar en maður lærir að lifa með því. 

Guðbjörg átti 4 börn, þau eru á aldrinum 13 til 19 ára í dag. Sú yngsta, Katla, var ekki nema 4 ára þegar Guðbjörg veiktist. 

Áhugamál

Hver eru áhugamál slíks eðalmennis sem Ludvigs?

Það er sitt lítið af hverju. Ég hef ekki verið mikið í beinum keppnisíþróttum en er mikið fyrir hreyfingu og útiveru. Ég æfði körfubolta í gamla daga eða fram til 18 eða 19 ára aldurs. Ég hef verið svolítið á skíðum, upphafið að því má tengja við Ísafjörð en var aldrei keppnismaður þar heldur, bara svona trimmari. 

Akkúrat, og þú hefur haldið því áfram eftir að þú fluttir frá Ísafirði?

Jájá, ég gerði það þónokkuð lengi, hefur þó ekki verið mikið síðustu árin og hef bara verið að fara á gönguskíði núna.

Ég hef einnig gaman af trjárækt og hef verið að gefa fólki plöntur hingað og þangað, koma ræktuninni af stað! Ég á sumarbústaðarland og ræktaði það upp. Það var alveg ógróið til að byrja með. 

Það má svo nefna að ég var heilmikið í félagsmálum fyrir heimilislækna á sínum tíma, var lengi í stjórn læknafélagsins og sat í samninganefndum. 

Ludvig var svo nærri búinn að gleyma að nefna kórstarfið en hann hefur verið í Selkór á Seltjarnarnesi í hartnær 30 ár eða síðan árið 1992. Er þetta góður kór?

Jah, ágætur! Hann er farinn að eldast svolítið – meðalaldurinn hækkar hér um bil um eitt ár á ári! Kórinn hefur verið mjög virkur, haldið tónleika 2-3 á ári en auðvitað er ekkert í gangi núna vegna covid-19. En það er mikið félagslíf í kringum þetta.

Lykillinn að hamingjunni

Þar sem þú ert orðinn lífsreyndur og sigldur maður langar mig að varpa einni laufléttri spurningu til þín svona í lokin; hver er lykillinn að hamingjunni?

Ef það er eitthvað svar þá er það að vera jákvæður og lausnamiðaður…það er líka rosalega mikilvægt að vera virkur, að vera huglægt virkur og líkamlega líka. Maður sér það t.d. stundum hjá ellilífeyrisþegum sem hætta að vinna, þá bara hrynur allt. 

Jájá, sitja bara í sófanum og verða að steini…?

Einmitt, margir eru jafnvel bara dánir mjög skömmu eftir starfslokin þó lítið virtist vera að þegar að þeim kom.

Já, sitja bara í aðgerðaleysi og bíða dauðans…?

Jájá, og þá kemur hann!

Sækja skyldar greinar
  • Evrópumót Virtus

    Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…
  • Evrópuleikar ungmenna

    Evrópuleikar ungmenna – European Para Youth Games (EPYG) hafa verið haldnir frá árin…
  • Ein af betri æfingaaðstöðum á landinu

    Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fékk nýveri ðafnot hluta af gömlu slökkvistöðinni í Reykjan…
Load More By merla
Load More In 2. tbl 2020
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Evrópumót Virtus

Evrópumót Virtus (Alþjóðasamtök þroskahamlaðra íþróttamanna) fór fram í Kraká í Póllandi 1…