Bogfimimaðurinn Þorsteinn Halldórsson frá Akri á Akureyri hefur lokið keppni á heimsmeistaramótinu í bogfimi. Um var að ræða svakalega útsláttarviðureign í 32 manna úrslitum þar sem 5 millimetra munur á úrslitaörvum skar úr um niðurstöðuna. Þungt að kyngja fyrir Þorstein sem hefur verið á miklu skriði undanfarið.
Heimsmeistaramótið sem nú stendur yfir í Dubai er stærsta verkefni ársins í bogfimi fatlaðra. Í gær komst Þorsteinn áfram í undankeppninni og hafði betur gegn keppanda frá Rúmeníu 139-134 í fyrstu umferð útsláttarins.
Í dag keppti Þorsteinn við Galé Montorio frá Spáni. Þorsteinn leiddi 29-27 eftir fyrstu umferð og 56-57 eftir aðra umferð. Í þriðju umferðinni komst Montorio 85-84 yfir og staðan síðan jöfn 112-112 eftir fjórar umferðir. Í fimmtu umferðinni fóru þeir Þorsteinn og Montorio báðir á kostum með 10 fyrir allar örvar og staðan 142-142 og því brugðið á það ráð að skjóta úrslitaör.
Í bráðabana er ein ör og vinnur sá sem er næst miðju. Báðir skutu þeir í 9 þannig að dómari tók upp rennimál og mældi og reyndist munurinn 5 mm Fernando Montorio í vil. Fyrir vikið er Þorsteinn úr leik og er væntanlegur heim til Íslands laust fyrir mánaðarmót.