Heim 1. tbl 2023 Sveinn sótti WPA ITO réttindi í Chile

Sveinn sótti WPA ITO réttindi í Chile

4 min read
Slökkt á athugasemdum við Sveinn sótti WPA ITO réttindi í Chile
0
1,096

Dagana 6.-12. desember var haldið WPA ITO námskeið í Santiago, Chile. Reynsluboltarnir Jon Mason, Ruth Liong og David Jesset voru kennarar námskeiðsins sem samanstóð af fyrirlestrum, prófum og verklegri þjálfun. 25 þátttakendur frá mismunandi löndum tóku þátt í námskeiðinu. WPA ITO stendur fyrir World Para Athletics Technical Official Pathway. Námið er dómaraþjálfun sem veitir einstaklingum réttindi til alþjóðlegra dómarastarfa.

Námskeiðið sjálft gerði miklar kröfur af þátttakendum, sem þurftu að vera undirbúnir undir allar þær aðstæður sem geta komið upp í starfi ITO. Dæmi um þetta gat verið uppsetning kaststóla, árekstrar í hjólastólakappakstri eða þegar gervilimur losnar af í hástökki. Á hverju kvöldi þá sat hópurinn saman og ræddi um þær aðstæður sem geta komið upp og fór í spurningaleiki. Sumir í hópnum eru með margra áratuga reynslu og það var frábært að geta lært af þeirra reynslu og heyra sögur af þeirra ferli. Fulltrúinn frá Ástralíu gekk með Kathy Freeman inn á völlinn þegar hún varð Ólympíumeistari í 400m og Suður Afríski fulltrúinn er að vinna með Caster Semenyu og Wayde Van Niekerk sem voru miklar fyrirmyndir þegar ég var sjálfur iðkandi.

Í verklegu þjálfuninni þá tókum við þátt Síleska landsmótinu í frjálsum fatlaðra. Mitt hlutverk var að vera ITO í 1500m hjá T36-37 og T54, langstökki hjá T46 og spjótkasti hjá F36-37 og F11. Mótið sjálft gekk vel og í spjótkastinu þá var sett Síleskt landsmet í T37 flokknum sem reyndist vera rúsínan í pylsuendanum. Aðstæður voru vissulega skrautlegar þar sem að hiti fór alveg upp í 42 gráður og við þurftum oft að tala á spænsku eða nota túlka til að eiga samskipti við NTO sem við vorum að vinna með.

Aðalmarkmiðinu, sem var að fá WPA ITO réttindi, var náð og á sama tíma þá myndaðist mjög sterkt tengslanet við fulltrúa sem ég mun örugglega rekast oft á mótum næstu árin. Ég mun vonandi rekast á Jon Mason og Dave Jesset sem verða að vinna í Dubai og Nottwil á næsta ári og hina á mótum hér og þar í heiminum. En heilt yfir var þetta alveg frábær ferð þar sem ég lærði heilan helling sem ég get tekið til baka til Íslands.

Sveinn Sampsted,
Frjálsíþróttanefnd ÍF

Sækja skyldar greinar
Load More By Jón Björn Ólafsson
Load More In 1. tbl 2023
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Sigurjón vann annað árið í röð: Ingi Björn og Ásvtaldur meistarar í rennu- og BC 1-4

Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í einliðaleik í boccia lauk seinnipartinn á sunnudag …