Heim 1. tbl 2022 ,Íþróttir sem verkfæri til meiri lífsgæða” Spennandi samstarfsverkefni Íslands og Rúmeníu

,Íþróttir sem verkfæri til meiri lífsgæða” Spennandi samstarfsverkefni Íslands og Rúmeníu

17 min read
Slökkt á athugasemdum við ,Íþróttir sem verkfæri til meiri lífsgæða” Spennandi samstarfsverkefni Íslands og Rúmeníu
0
555

Samstarf Íslands og Rúmeníu er gagnvirkt samstarf þar sem báðir aðilar læra hvor af öðrum. Aðstæður eru ólíkar en það sem er sameiginlegt er hinn mikli  mannauður sem kemur að starfinu í báðum löndunum. Þegar horft er á stöðuna í þessum löndum út frá umgjörð, aðstæðum og tækifærum, þá höfum við á Íslandi enga ástæðu til að bíða lengur með að laga það sem þarf hjá okkur. Börn og ungmenni, hvar á landi sem þau búa og hvernig sem þau eru, – eiga að fá að prófa sig áfram í íþrottastarfi og upplifa jákvæðni og gleði innan hvaða íþróttafélags sem er. Svo einfalt er það!

Samstarf Special Olympics á Íslandi og í Rúmeníu  hófst árið 2015 gegnum YAP verkefnið sem byggir á hreyfiþjálfun barna.  2021 hófst annað samstarfsverkefni um íþróttaþátttöku barna á aldrinum 6 til 12 ára en þar taka þátt 4 lönd frá Austur Evrópu auk Íslands og Rúmeníu. Því verkefni lýkur 2023.

Þriðja verkefnið hófst í júní 2022 þegar níu fulltrúar frá Rúmeníu heimsóttu Ísland og kynntu sér skipulag íþróttamála hér á landi. Þar voru sex formenn nýstofnaðra íþróttafélaga Special Olympics og fulltrúar Special Olympics í Rúmeníu. Dagana 19. til 23. september sl. fóru sex fulltrúar frá ÍF og Special Olympics á Íslandi til Rúmeníu en markmið var að veita aðstoð og ráðgjöf í tengslum við markmið um stofnun íþróttaklúbba og samtaka um starfsemi Special Olympics í Rúmeníu.

Yfirheiti samstarfsverkefnisins sem styrkt er af EEA Norway Grant er ,,Leaders through sport”

Horft er á gildi þess að auka tækifæri til íþróttaþátttöku og að gegnum íþróttastarf öðlist iðkendur aukið  sjálfstraust og kjark til að láta rödd sína heyrast. Talið er að með stofnun iþróttaklúbba og samtaka kringum þá  verði hægt að ná til fleiri iðkenda og gera starfið markvissara auk þess sem formleg samtök fái meiri stuðning.

Fulltrúar Íslands voru Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi, Ingi Þór Einarsson, prófessor við HR og fyrrverandi yfirmaður landsliðsmála ÍF, Jóhann Arnarson, íþróttakennari hjá starfsbraut FB og stjórnarmaður ÍF og Special Olympics á Íslandi, Helga Olsen, kennari , skautaþjálfari  og íþróttagreinastjóri,  Karen Ásta Friðjónsdóttir, í stjórn Special Olympics á Íslandi og Hámundur Helgason, íþróttastjóri hjá ungmennafélagi Keflavíkur.

Fyrsta verkefni íslenska hópsins var þátttaka ráðstefnu sem fór fram í húsi ólympíuhreyfingarinnar í Rúmeníu. Þar fluttu erindi fulltrúar frá Special Olympics í Rúmeníu, Special Olympics í Evrópu, ólympíusambandi Rúmeníu, sveitarfélögum, ráðuneytum, háskólum, FIBA Europe,  sendiráði Bandaríkjanna og Sameinuðu Arabísku furstadæmana auk íþróttafólks og aðstandenda.

Fulltrúar Íslands voru með tvö erindi á ráðstefnunni. Anna Karólína Vilhjálmsdóttir  kynnti skipulag íþróttastarfs fatlaðra á Íslandi og mikilvægi samstarfs og Ingi Þór Einarsson kynnti niðurstöður rannsókna á virkni fatlaðra og ófatlaðra ungmenna í íþróttastarfi, á og utan skólatíma. Niðurstöður sýndu mun meiri virkni ófatlaðra nemenda í íþróttastarfi utan skólatíma. Aðstæður í Rúmeníu eru ólíkar því sem er á Íslandi en  rannsóknin gaf góða innsýn í það krefjandi starf sem framundan er.

Í tengslum við ráðstefnuna var haldið námskeið fyrir íþróttafólk sem tekur þátt í verkefninu “Leaders through sport” en þar læra þau m.a. að koma fram og tjá sig. Þau mættu svo á ráðstefnuna og sýndu að þau höfðu mikið fram að færa og að raddir íþróttafólksins þurfa að heyrast.

Eftir að íslenski hópurinn hafði tekið þátt í ráðstefnunni í Búkarest tók við ferðalag til þriggja borga.

Í Sibiu var haldinn fundur með borgarstjórn, forsvarsfólki íþróttamála og þjálfurum en þar var m.a. á fundinum þjálfari sem er að reyna að byggja upp hjólastólakörfubolta. Aðstæður til þess eru erfiðar en gífurleg seigla er hjá því fólki sem vinnur grasrótarstarfið. Þjálfarar á fundinum voru flestir að þjálfa iðkendur með þroskahömlun en það var jákvætt að sjá að hreyfihamlaðir voru líka tengdir þessu verkefni. Fulltrúar Íslands voru með skýr skilaboð um mikilvægi þess að tilboð séu miðuð við áhugahvöt iðkenda í stað þess að stýra iðkendum í eina grein.

Í Deva var farið í ráðhúsið þar sem fulltrúi lionshreyfingarinnar í Rúmeníu  sem er skólastjóri  tók á móti hópnum. Hann kom til Íslands í júní og hefur sýnt mikinn áhuga á að efla íþróttastarfið sem hann hefur tengt skólastarfinu. Forsvarsmenn borgarinnar og íþróttafulltrúi kynntu ýmis verkefni sem tengdust íþróttastarfinu og hugmyndir um næstu skref. Mikil gerjun er enn í gangi varðandi hvaða form á að vera á íþróttatilboðum en fulltrúar Íslands lögðu áherslu á að fá fram raddir iðkenda og aðstandenda til að tilboðin verði virkjuð sem best.  

Í Cluj var skoðaður glæsilegur íþróttaháskóli og rætt við kennara. Í Cluj er einnig að finna fimleikasal sem enn er í notkun en þar æfði hin heimsfræga fimleikakona Nadia Comenche.

Hópurinn heimsótti skrifstofu Motivation Foundation í Cluj en samtökin voru stofnuð af Christian Ispas árið 1995 í þeim tilgangi að útvega hjólastóla og þjónusta fólk sem þurfti á hjólastól að halda.  

Árið 2002 hóf Motivation Romania Foundation að vinna að verkefni sem fólst í því að ná til barna á munaðarleysingjahælum og gefa þeim kost á að nýta tilboð og ýmis úrræði sveitarfélaga. Christian var meðvitaður um hve mikilvægt væri að þau gætu tekið þátt í íþróttastarfi sem veitti ánægju og gleði og skapaði tilbreytingu. Á sama tíma var SOI að leita eftir aðila til að leiða starf Special Olympics í Rúmeníu og hann ákvað að gefa kost á sér í það verkefni þar sem hann sá þar tækifæri til að efla sitt starf en ekki síður tækifæri fyrir börnin að fá fjölbreyttari tilboð. Það má því segja að starf Motivation Romania Foundation og Special Olympics í Rúmeníu hafi verið samtvinnað frá árinu 2003.

Um 134.000 íbúa Rúmeníu eru með þroskahömlun og skelfileg fortíðarsaga hefur áhrif á hvernig mál hafa þróast. Allt til ársins 1989 var fólk með fötlun falið fyrir samfélaginu og einangrað félagslega, á stofnunum eða heimilum. Þegar byltingin hófst tók það langan tíma að stíga skref til framfara, ástandið var flókið og það hefur tekið tugi ára að opna dyrnar og vinna gegn  fordómum sem ríktu.

Foreldrar eru margir haldnir sterkri verndartilfinningu og halda aftur af börnum sínum því þau eru hrædd við að þau mæti áreiti og slæmu viðhorfi. Það er því krefjandi verkefni að ná til þessa hóps og þar hefur Special Olympics í Rúmeníu verk að vinna. Það sem gefur von er að börn og ungmenni sem hafa tekið þátt í starfi Special Olympics og aðstandendur þeirra eru farin að segja sögur af jákvæðri upplifun af þátttöku í íþróttastarfinu. Slík nálgun getur haft jákvæð áhrif á aðra aðstandendur. Iþróttastarf Special Olympics í Rúmeníu hefur að mestu tengst starfi sérskóla og sérskólar hafa verið ráðandi.  Nú er verið að undirbúa breytingu þar sem stíga á út úr þessu skipulagi og opna skólana fyrir öllum nemendum. Sérdeildir hafa verið í nokkrum skólum og sumir skólar hafa verið með fatlaðr nemendur í almennum skólum en hér er mjög stórt og krefjandi skref stigið ef af verður.

Í kjölfar heimsleika Special Olympics í Abu Dhabi 2019 hlaut Rúmenía ásamt nokkrum öðrum löndum,styrk frá Sameinuðu Arabísku furstadæmunum. Styrkurinn var veittur löndum sem tóku að sér að fylgja eftir skólaverkefni Special Olympics International, þar sem unnið er að sameiginlegum verkefnum fatlaðra og ófatlaðra nemenda. Verkefnið ber heitið ,,Unified Champion school” Sérstök miðstöð var sett á fót hjá SOI ,, The global Center for Inclusion in Education” til að fylgja eftir verkefninu ,,Unified Champion School” en einnig tveimur öðrum verkefnum ,,Inclusive Youth Leadership” og “Whole School Engagement”. Þessi verkefni hafa verið innleidd hjá Special Olympics í Rúmeníu í samstarfi við skóla en vonast er til þess að þau geti leitt  til jákvæðrar vitundarvakningar, ekki síst unga fólksins.  

Á myndunum er íslenski hópurinn með fulltrúum Special Olympics í Rúmeníu og Motivation Foundation Romania, með fulltrúum Ibisi og Deva og íþróttafólki sem tók í  ,,Leaders Through Sport“ 

Sækja skyldar greinar
Load More By Anna Karólína Vilhjálmsdóttir
Load More In 1. tbl 2022
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Ólafur Ólafsson — Kveðja

Jarðarför Ólafs Ólafssonar, formanns íþróttafélagsins Aspar fór fram í kyrrþey föstudaginn…