
Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson hefur lokið sínu fyrsta alþjóðlega móti á tímabilinu en þar keppti hann í svigi og stórsvigi í St. Moritz í Sviss. Keppnin var liður í heimsmótaröð IPC.
Hilmar hafnaði í 10. sæti í svigi fyrri keppnisdaginn en seinni daginn náði hann ekki að ljúka keppni. Í stórsvigi hafnaði hann svo í 10. og 12. sæti í tveimur ferðum.
Þórður Georg Hjörleifsson landsliðsþjálfari kvaðst sáttur eftir fyrsta mót. „Það hefur fjölgað mikið í flokki Hilmars og samkeppnin er að eflast til muna sem er mikið fagnaðarefni. Við erum nokkuð ánægðir með þetta fyrsta mót og vitum hvað þarf að skoða betur fyrir heimsmeistaramótið í Noregi í janúar,” sagði Þórður.
Hilmar verður á meðal keppenda á HM í Lillehammer en mótið stendur 8.-23. janúar en keppnisdagara Hilmars eru 19. og 21. janúar þar sem hann mun keppa í svigi og stórsvigi.