Flokka- og bikarmót Íþróttasambands fatlaðra í sundi fór fram í Laugardalslaug dagana 20.-21. maí síðastliðinn. Íþróttafélagið Fjörður frá Hafnarfirði varð þá bikarmeistari í sundi fjórtánda árið í röð og Sonja Sigurðardóttir frá ÍFR setti tvö ný Íslandsmet.
Lokastaða bikarkeppninnar:
Íþróttafélagið Fjörður – 666
ÍFR – 254
Ösp – 132
Ármann – 50
Fjörður hefur haft töglin og hagldirnar í bikarkeppninni síðustu ár og verður fróðlegt að sjá hvaða félag nær að stöðva þessa löngu og myndarlegu sigurgöngu Fjarðar í sundinu. En Fjarðarliðar áttu ekki sviðið einir því Sonja Sigurðardóttir sem nýverið var endurflokkuð í sundflokk S3 slær nú hvert Íslandsmetið á fætur öðru og setti tvö ný met við mótið. Þá setti Hjörtur Már Ingvarsson frá Firði einnig nýtt met við mótið.
Íslandsmet á Flokka- og bikarmóti ÍF 2023
Sonja Sigurðardóttir – ÍFR – 200m skriðsund S3 – 5:13,54 mín
Sonja Sigurðardóttir – ÍFR – 100m skriðsund S3 – 2:31,28 mín
Hjörtur Már Ingvarsson – Fjörður – 400m skriðsund S5 – 7:51,79 mín
Mynd/ JBÓ: Liðsmenn Fjarðar fögnuðu vel og innilega í mótslok.