Heim 1. tbl 2023 Global Games 2023: Frábær árangur Íslendinga í Vichy

Global Games 2023: Frábær árangur Íslendinga í Vichy

5 min read
Slökkt á athugasemdum við Global Games 2023: Frábær árangur Íslendinga í Vichy
0
1,370

Global games fóru fram í Vichy í Frakklandi dagana 4.-10.júní. Ísland átti sjö keppendur á mótinu, fimm sem kepptu í sundi og tvo sem kepptu í frjálsum. Global Games eru heimsleikar VIRTUS sem eru samtök íþróttafólks með þroskahamlanir. 

Keppendur í frjálsum voru þær Stefanía Daney Guðmundsdóttir og Hulda Sigurjónsdóttir. Frjálsarnar fóru rólega af stað á mótinu en keppni hjá þeim hófst ekki fyrr en á þriðjudag. Stefanía og Hulda höfðu þar með tvo daga til að taka því rólega, skoða keppnisaðstæður og ná inn æfingu. Stelpunum gekk vel á mótinu, komust í úrslit í öllum sínum greinum og voru nokkur SB, PB og Íslandsmet sett. 

Stefanía keppti í bæði 200 m og 400 m hlaupi sem og langstökki. Hún gerði sér lítið fyrir og sló Íslandsmet í öllum sínum greinum. Stefanía hljóp 400m á tímanum 64,50 sek. og endaði í 8.sæti. Hún var í 7.sæti í 200m á tímanum 27,84 sek. og var einnig í 7.sæti í langstökki en þar stökk hún lengst 5,18m sem er 8 cm bæting og nýtt Íslandsmet!

Hulda keppti í flest öllum kastgreinum mótsins, þ.e. kúluvarpi, kringlukasti og sleggjukasti. Hulda stóð sig með prýði og átti gott mót. Hún var í 11.sæti í kúluvarpi þar sem hún kastaði lengst 9,44m. Í kringlunni varð hún í 8.sæti með kast upp á 28,70m og í sleggjunni kastaði hún lengst 30,57m og endaði í 6.sæti.

Keppendur í sundi voru þau Anna Rósa Þrastardóttir, Emelía Ýr Gunnarsdóttir, Róbert Ísak Jónsson, Snævar Örn Kristmannsson og Þórey Ísafold Magnúsdóttir Proppé.

Anna Rósa keppti í flokki II1 og keppti í 50, 100, 200, 400 og 1500 metra skriðsundi. Hennar besta sund var 1500 metra skriðsund þar sem hún bætti sig um tæpar tvær mínútur og endaði í 7. sæti á tímanum 22:31,55 mín.
Emelía keppti í flokki II1 og keppti í 50, 100 og 200 metra flugsundi auk 100 metra baksunds og 200 metra fjórsunds. Emelía komst í úrslit í 200 metra flugsundi og synti þar á tímanum 3:58,04 sem var þó ekki bæting á hennar besta tíma. 

Róbert keppti í flokki II1 og keppti í 50 og 100 metra flugsundi, 50 metra baksundi auk 200 metra fjórsundi. Róbert komst inn í úrslit í 50 og 100 metra flugsundi auk 200 metra fjórsundi, en þar nældi hann sér í brons á tímanum 2:19,65.

Snævar keppti í flokki II3 og stóð sig með stakri prýði. Hann keppti í 50, 100 og 200 metra flugsundi, 50, 100, 200 og 400 metra skriðsundi auk 200 metra fjórsundi. Snævar var allt í öllu á Global Games og komst inn í úrslit í öllum sínum sundum nema 50 metra skrið og 200 metra fjór. Hann nældi sér í gull í 200m flug á tímanum 2:22,11, silfur í 100m flug á tímanum 1:03,30 og brons í 50m flug á tímanum 28,80.  

Þórey keppti í flokki II3 og keppti í 50 og 100 metra bringusundi auk 50 og 100 metra flugsundi. Þórey komst inn í úrslit í 50 metra bringusundi og synti þar á tímanum 41,33.

Mynd/ Snævar Örn Kristmannsson sundmaður frá ÍFR náði glæsilegum árangri í flokki I3.

Sækja skyldar greinar
Load More By Jón Björn Ólafsson
Load More In 1. tbl 2023
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Glæsilegt ÍM25 að baki í Ásvallalaug: Snævar með fyrstu metin í S15

Íslands- og unglingarmeistaramótið í 25m laug fór fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði um síða…