Íslandsmót ÍF í lyftingum fór fram þann 14. maí síðastliðnn en mótið var í styrkri stjórn Krafts og fór fram í Crossfit-stöðinni á Selfossi. Helstu tíðindi mótsins voru þau að Hulda Sigurjónsdóttir setti tvö ný Íslandsmet í flokki þroskahamlaðra kvenna og þá varð Thelma Björg Björnsdóttir fyrst hreyfihamlaðra kvenna til þess að keppa á Íslandsmótinu.
Hulda Sigurjónsdóttir setti nýtt Íslandsmet í hnébeygju þegar hún lyfti 120,5 kg. og svo í bekkpressu þegar hún fyrst þroskahamlaðra kvenna lyfti 70 kg. Í réttstöðulyftunni var hún ekki langt frá ríkjandi meti þegar hún náði upp 130 kg en metið er 132 kg og líklegt að það falli bráðlega miðað við formið á Huldu þessi dægrin. Þess má geta Hulda er nýkomin heim frá Ítalíu þar sem hún landaði gullverðlaunum í kúluvarpi á Grand Prix mótaröð Alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC).
Thelma Björg Björnsdóttir frá ÍFR varð fyrst hreyfihamlaðra kvenna til þess að keppa á Íslandsmóti ÍF í lyftingum. Thelma lyfti best 30kg í bekkpressu sem er þá fyrsta Íslandsmetið í greininni. Margir kannast eflaust við Thelmu af öðrum vettvangi en hún hefur verið á meðal fremstu afrekssundkvenna Íslands úr röðum fatlaðra síðustu ár.
Á Selofssi skrifuðu Kraftur og ÍF undir nýjan samstarfssamning þar sem miklar vonir eru bundnar við sókn í lyftingum fatlaðra með almennum æfingum, mótahaldi og möguleikum á því að búa keppendur undir þátttöku í verkefnum á stærri mótum erlendis.
Heildarúrslit mótsins má nálgast hér
Hér er hægt að horfa á mótið í heild sinni
Ljósmyndir: Jón Björn