Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fékk nýveri ðafnot hluta af gömlu slökkvistöðinni í Reykjanesbæ og hafa því skapast ný sóknarfæri í borðtennis á Suðurnesjum. Þaðan hefur einmitt einn fremsti borðtennismaður þjóðarinnar úr röðum fatlaðra komið en það er Jóhann Rúnar Kristjánsson sem m.a. hefur verið fulltrúi Íslands á Paralympics í borðtennis.
Á dögunum þegar aðstaðan var formlega opnuð var borðtennismaðurinn Hákon Atli Bjarkason á meðal gesta við opnunina. Hákon er afreksmaður í borðtennis og keppir þar í sitjandi flokki. Hákon er einnig fyrrverandi meðlimur í stjórn Borðtennissambands Íslands. Hvatisport.is tók hús á Hákoni sem sagði að þarna væri um að ræða eina af betri aðstöðum á landinu fyrir borðtennis.
„Þetta er aðstaða með fimm uppistandandi borðum sem eru sérútbúin fyrir borðtennisiðkun og góðu aðgengi. Þarna er í raun allt til alls fyrir borðtennisiðkun og ég vona svo sannarlega að þessi aðstaða verði til þess að iðkendum í borðtennis fjölgi á Suðurnesjum. Jafnt fötluðum sem ófötluðum. Borðtennisfélag Reykjanesbæjar er þarna komið með eina af betri æfingaaðstöðum á landinu og ég get ekki annað en óskað borðtennisfélaginu og Reykjanesbæ til hamingju með þetta,” sagði Hákon við Hvatisport.is
Hér má sjá nánar um nýja aðstöðu Borðtennisfélags Reykjanesbæjar.