Fjórir íslenskir afreksmenn kepptu nýverið á World Para Athletics Grand Prix mótaröðinni sem fram fór í Jesolo á Ítalíu. Nú þegar hafa tveir keppendur tryggt sér lágmörk á heimsmeistaramótið í París í sumar en það eru þær Ingeborg Eide Garðarsdóttir og Stefanía Daney Guðmundsdóttir. Með þeim ytra voru einnig spretthlauparinn Patrekur Andrés Axelsson og kúluvarparinn Hulda Sigurjónsdóttir.
Patrekur hljóp 100 metrana á 12.72 sek og 400 metrana á 1:00.11 mín. Þá var lengsta kast Huldu í kúlunni 9,63 metrar. Þau eiga enn möguleika á því að ná lágmörkum fyrir HM þegar Íslandsmót ÍF í frjálsum utanhúss fer fram á Kaplakrikavelli um helgina.
Ingeborg Eide Garðarsdóttir hafnaði í 3. sæti í flokki F37 í kúluvarpi með kasti upp á 8,41 meter og svo í 5. sæti í kringlu þegar hún kastaði kringlunni 18,25 metra. Stefanía Daney keppti í bæði 400m hlaupi og langstökki en í 400m hlaupi kom hún í mark á tímanum 1:07.16 mín. og í langstökkinu var hennar lengsta stökk 4,85 metrar.