
Heimsleikum Special Olympics á Ítaliu lauk 15. mars með glæsilegum lokahátíðum í Torino og skíðasvæðinu Sestriere. Ísland hefur átt keppendur í listhlaupi á skautum á heimsleikum Special Olympics frá árinu 2005 og tveir keppendur tóku þátt nú, þau Bjarki Rúnar Steinarsson og Védís Harðardóttir, bæði frá skautadeild Aspar. Ísland sendi í fyrsta skipti keppanda í alpagreinum, Victoríu Ósk Guðmundsdóttur. Dans er ný keppnisgrein á leikunum og Íslandi sendi ,,unified” lið, þau Ingólf Bjart Magnússon, sem jafnframt er danskennari og Þórdísi Erlingsdóttur. Þau koma frá Dansfélaginu Hvönn.
Special Olympics á Íslandi fékk leyfi til að bjóða Grænlandi að nýta kvóta Íslands á gönguskíðum og það voru þau Jorna Marie Larsen og Nuka Martin Lynge sem hófu vegferð Grænlands á heimsleikum Special Olympics en þau fóru með danska hópnum á leikana.
1.500 keppendur frá 100 þjóðum létu ljós sitt skína í 8 íþróttagreinum sem fóru fram í Torino, Sestreiere, Bardonnneche og Pragalato.
Alþjóðlegt lið lögreglumanna hljóp kyndilhlaup með ,,loga vonarinnar” um bæi á Ítalíu og endaði á opnunarhátíðinni þar sem eldur leikanna var tendraður. Fulltrúi Íslands í hópnum var Rut Sigurðardóttir, rannsóknarlögreglumaður. Samstarf Special Olympics á Íslandi við íslensku lögregluna hófst árið 2013 þegar LETR Iceland. ( Law Enforcement Torch Run)
Einkenni leika Special Olympics er að keppendur fara gegnum sérstakar undanrásir þar sem valið er í styrkleikaflokka. Í úrslitum er keppt við jafningja, verðlaunapeningar eru fyrir fyrstu þrjú sætin og verðlaunaborðar fyrir fjórða til áttunda sæti. Mikil samkennd og vinátta ríkir á leikunum og margir sjálfboðaliðar koma langt að. Í tengslum við leikana var haldin ungmennaráðstefna byggð á samstarfi fatlaðra og ófatlaðra. Inngilding var meginþema og ungt fólk víða að úr heiminum var með mjög áhugaverð innlegg.
Special Olympics samtökin hafa skorað á þjóðir til alþjóðasamstarfs um inngildingu og Ísland er eitt af þeim löndum sem staðfest hefur viljayfirlýsingu um samstarf. Árið 2024 hófst innleiðing ,,unified schools” á Íslandi, sem er eitt af verkefnum þessa samstarfs.
Í tengslum við leikana var leiðtogafundur þar sem leiðtogar Special Olympics samtakanna í 100 löndum komu saman og ræddu markmið og helstu áskoranir í starfinu.
.
Á lokahátíðinni í Torino var Magnús Orri Arnarsson kallaður upp á svið þar sem hann tók á móti viðurkenningu sem íþróttamaður sem hefur stigið upp og látið drauma sína rætast. Magnús var ljósmyndari á ráðstefnu Evrópuleiðtoga Special Olympics haustið 2024 og á ungmennaráðstefnunni, Youth Summitt í Torino. Magnús Orri og Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarfulltrúi UMFÍ og ritstjóri Skinfaxa skipuðu fjölmiðlateymi Special Olympics á Íslandi á leikunum, undir heitinu ,,Unified Media Team” Þeir tóku myndir, unnu fréttir og tóku viðtöl m.a. magnað viðtal við Timothy Kennedy Shriver, forsvarsmann SOI.
Viktoría Ósk Guðmundsdóttir. Alpagreinar
Victoria Ósk Guðmundsdóttir skíðakona keppti í risastórsvigi í gær og hefur nú lokið keppni á heimsleikum Special Olympics. Hún keppti í tveimur greinum en hún keppti líka í stórsvigi fyrr í vikunni. Raðað er í styrkleikaflokki eftir að allir hafa farið gegnum ákveðna undankeppni og Viktoría keppti í styrkleikaflokki 2 en raðað var í þrjá styrkleikaflokka i hennar grein.
Saga Viktoríu í skíðaiþróttum er ekki löng en áhugaverð.
Hún mætti á skíðanámskeið hjá ÍF fyrir rúmu ári og i kjölfarið var ákveðið að hún yrði valin til keppni i byrjendaflokki á heimsleikum Special Olympics 2025. Það hefur verið aðferð sem hefur reynst vel til að kynna nýjar greinar, að sækja um kvóta í nýrri grein og leita að kandídat til að ryðja brautina.
Áhaldafimleikar, nútímafimleikar, listhlaup á skautum og golf eru dæmi um greinar sem innleiddar voru á þennan hátt.
Victoria hefur sannarlega staðið sig vel og árs undirbúningur skilaði henni upp úr byrjendaflokki í styrkleikaflokk 2 þar sem hún skilaði sínu glæsilega og var í öðru sæti í báðum keppnisgreinum.
Hún hefur þurft að stíga margvísleg ný skref í gegnum þetta verkefni, fara í viðtöl og myndatökur og stíga út fyrir þægindarammann á mörgum sviðum.
Það hefur verið stórkostlegt að fylgjast með henni og sjá hana eflast og blómstra hér á Ítalíu og þar eiga stóran þátt liðsmenn okkar í þjálfarateyminu, Lilja Sólrún og Elsa Björk. Þær eru fulltrúar í vetraríþróttanefnd ÍF og þeirra verkefni auk þjálfarahlutverks er að kynna sér þau tækifæri sem bjóðast a sviði vetraríþrótta. Ekki síður að skapa tengsl sem geta opnað á ný tækifæri
Bjarki Rúnar Steinarsson og Védís Harðardóttir. Listhlaup á skautum
Special Olympics á Íslandi hóf innleiðingu á listhlaupi á skautum árið 2005 en þá fóru fyrstu íslensku keppendurnir á heimsleika Special Olympics. I upphafi var samstarf við Skautafélagið Björninn og Skautafélag Reykjavíkur en síðan tók íþróttafélagið Ösp við keflinu og stofnuð var skautadeild Aspar þar sem þróun hefur orðið hröð og sífellt fleiri iðkendur koma í hópinn. Deildin hefur lagt metnað í gæði þjálfara og gríðarlega vel er staðið að umsjón starfsins sem leitt var frá upphafi af Helgu Olsen. Fjölmargir þjálfarar hafa komið til liðs við deildina og mikið og gott samstarf hefur verið við skautasamband Íslands og önnur skautafélög. Þjálfarar keppenda á Ítalíu eru Andri Magnússon og Hanna Rún Ragnarsdóttir sem búa yfir miklum eldmóði og áhuga og það er mjög góð stemming í hópnum.
Tveir keppendur taka þátt á leikunum, þau Védís Harðardóttir sem keppir í styrkleikaflokki 2 og Bjarki Rúnar Steinarsson sem keppir í styrkleikaflokki 1.
Þau stóðu sig bæði mjög vel, Védís var í þriðja sæti og Bjarki í öðru sæti og það er auðvitað alltaf meira spennandi að fá verðlaunapening en verðlaunaborða sem veittur er fyrir fjórða til áttunda sæti.
Bjarki hefur áður tekið þátt í heimsleikum Special Olympics en það var í LA árið 2015 þar sem hann keppti í frjálsum íþróttum. Védís er að taka þátt í sínum fyrstu heimsleikum. Foreldrar Bjarka og systir komu til Ítalíu að fylgjast með sínum manni og móðir Védísar, Kristín Pálsdóttir er læknir íslenska hópsins. Hægt er að fylgjast með stemmningunni hjá íslenska hópnum á miðlum skautadeildar Aspar og fólk er hvatt til að kynna sér það starf sem þar er unnið. Vel er tekið á móti ńýjum iðkendum og allir eru velkomnir að prófa skautaíþróttina í öruggu umhverfi þar sem reynslumiklir og jákvæðir þjálfarar sjá um að öllum líði vel.
Þórdís Erlingsdóttir og Ingólfur Bjartur Magnússoon. Dans ,,unified”
Dans er í fyrsta skipti keppnisgrein á heimsleikum Special Olympics. Áður hefur dans verið sýningargrein en gríðarlegur áhugi hefur verið að að fá dans inn sem keppnisgrein. Special Olympics á Íslandi leitaði samstarfs við dansfélagið Hvönn til að velja fyrstu íslensku keppendurna á heimsleika Special Olympics. Dansfélagið Hvönn hefur sýnt mikinn áhuga á að opna dyrnar fyrir alla þegar dans er annars vegar og þar hefur verið vel tekið á móti öllum og reynt að aðlaga kennslu að hverjum og einum. Í samstarfi við Danssamband Islands og Special Olympics á Íslandi tók keppandi frá danśfélaginu Hvönn þátt í sérstökum stjörnuflokki hjá DSÍ en það var Agatha Erna Jack, sem síðan var valin til þátttöku í danskeppni Special Olympics í Austurríki 2021 þar sem hún vakti mikla athygli í keppni í samkvæmisdönsum og varð brautryðjandi fyrir aðra íslenska keppendur.
Þjálfarar með íslenska hópnum á Ítalíu eru Tinna Karen Guðbjartsdóttir og Hjördís Hjörleifsdóttir danskennarar hjá Hvönn. Keppendur eru þau Ingólfur Bjartur Magnússson, sem jafnframt er danskennari hjá Hvönn og Þórdís Erlingsdóttir. Þau keppa i ,,unified” dansi. ,,Unified” hugmyndafræðin byggir á samstarfi fatlaðra og ófatlaðra og hugtakið tengist jafnt keppni sem öðrum þáttum. ,,Unified” sport tengist æfingum og keppni eins og þarna á við en einnig er mjög öflugt verkefni í gangi innan Special olympics samtakanna sem tengist inngildingu í menntun og ber heitið ,,unified “ schools.
Þórdís hefur tekið áður þátt á heimsleikum Special Olympics en þá keppti hún í listhlaupi á skautum. Ingólfur Bjartur er að kynnast Special Olympics hugmyndafræðinni í fyrsta sinn gegnum þátttöku í þessum leikum. Það hefur ekki verið hægt að sjá annað en hann hafi skemmt sér mjög vel í þessu nýja verkefni. Það var glæsilegt danspar sem mætti á sviðið þegar keppnin hófst en þeirra dans var í flokki þjóðdansa og þau áttu sviðið þegar þau dönsuðu gömlu dansana í íslenskum þjóðbúningum.
Dansfélagið Hvönn býður alla velkomna að prófa dansíþróttina og þar er alltaf gaman að mæta, vel tekið á móti nýjum iðkendum og séð til þess að allir læri dansporin eftir aðstæðum hvers og eins.
Fréttir um leikana og íslenska hópinn;
Aðgengi að myndböndum tengt Íslandi