Heim 1. tbl 2023 Edda Bergmann – Minning

Edda Bergmann – Minning

7 min read
Slökkt á athugasemdum við Edda Bergmann – Minning
0
1,404

Edda Bergmann
f. 13. janúar 1936 – d. 14. mars 2023
 

 Íþróttafólk í röðum Íþróttasambands fatlaðra hefur í gegnum árin sýnt og sannað að þar er ekki aðeins um að ræða frábært afreksfólk á sviði íþrótta. Sögur af afrekum í daglegu lífi eru margar og það hefur verið lærdómsríkt að kynnast þeim sögum. 

Edda Bergmann var ein af fyrstu afreksíþróttakonum ÍF.  Hún vann til gullverðlauna árið 1984 á ólympíuleikunum í Stoke Mandeville í Bretlandi þar sem hún keppti í flokki mænuskaðaðra. Saga Eddu er óvenjuleg en hún var komin langt á fertugsaldur þegar leið hennar lá á sundæfingu hjá ÍFR 1976 en þar var sundþjálfari, Erlingur Jóhannsson.  Hann tók Eddu undir sinn verndarvæng og sá fljótlega þá hæfileika sem hún bjó yfir.  Saman byggðu þau upp sterkan grunn og mjög fljótt kom í ljós að Edda var íþróttakona með mikinn metnað. Á ótrúlega stuttum tíma náði hún árangri sem opnaði leið á alþjóðamót. 

Edda fékk lömunarveikina sjö ára gömul og þurfti snemma að sýna útsjónarsemi og þrautseigju og að  berjast fyrir því  sem hugur stefndi til.  Þetta skilaði sér í þeim árangri sem hún náði en hún var kjörin íþróttamaður ársins hjá ÍF 1979 og varð þrisvar íþróttamaður ársins hjá ÍFR.

Edda talaði oft um það hve þessi markvissa sundþjálfun hefði verið mikilvægur þáttur í endurhæfingu en ekki síður væru íþróttir leið til að hjálpa fólki út úr oft erfiðri líðan. Lykill að árangri í lífinu væri að trúa því að hún gæti allt sem hún vildi og að hún þyrfti að gera hlutina sjálf. Þetta sagði hún að hefðu verið skilaboð frá móður sinni sem hefðu haft mikil áhrif og fyrir það væri hún þakklát.

Edda varð formaður ÍFR og þjálfaði þar sund, var ein af stofnendum Sjálfsbjargar og tók virkan þátt í kórastarfi auk sundæfinga en hún lét það ekki nægja því 6. september 1987 stofnaði hún,  Trimmklúbbinn Eddu.

Það hafði lengi verið henni mikið hugsjónamál að virkja fleiri til íþróttastarfs. Markhópur var hópur hreyfihamlaðra, blindra og sjónskertra og starf klúbbsins byggði í upphafi á tilboðum um útiveru og jóga og síðar sundleikfimi.  Edda upplifði stofnun Trimmklúbbsins Eddu sem sitt mesta afrek. Starfið hjá klúbbnum gaf henni mikið, eljan var óþrjótandi að byggja upp starfið. Hún fékk hugsjónafólk til liðs við starfið og saga Trimmklúbbsins Eddu  er merkileg saga brautryðjendastarfs hugsjónafólks. „ Á þennan hátt náum við fólki út úr skel sinni“ sagð Edda á 10 ára afmælishófi klúbbsins.

Það var kraftur í Eddu hvar sem hún fór, hún lét að sér kveða og lét ekkert stoppa sig. Þegar bakverkir urðu miklir var hennar aðferð að fara á fjóra fætur og skúra gólfið. „ það virkar betur en að leggjast í rúmið“ sagði þessi ótrúlega kona.  Hún var alltaf að, saumavélin var hennar verkfæri og vandaður fatnaður og fallegt handverk fór á færibandi úr saumaherberginu.  Þar átti hún athvarf og þar var gott að koma. Heimili Eddu og Kristjáns manns hennar  var einstaklega hlýlegt. Þar mátti sjá  listrænt handverk Eddu og í garðinum blómstraði allt í höndum Kristjáns.  Minning þeirra hjóna mun lifa.

Saga Eddu er stórmerkileg. Hún var einstakur gleðigjafi og það var heiður að fá að að kynnast henni..  

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar

f.h. Íþróttasambands fatlaðra

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir

Sækja skyldar greinar
Load More By Anna Karólína Vilhjálmsdóttir
Load More In 1. tbl 2023
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Ólafur Ólafsson — Kveðja

Jarðarför Ólafs Ólafssonar, formanns íþróttafélagsins Aspar fór fram í kyrrþey föstudaginn…