Heimsleikar Special Olympics í Berlín 2023
7.000 keppendur, 29 íþróttagreinar, 190 þátttökulönd, 20.000 sjálfboðaliðar
Special Olympics samtökin voru stofnuð árið 1968 af Kennedy fjölskyldunni. Markmið var að gefa fólki með þroskahömlun tækifæri til æfinga og keppni í íþróttum. Árið 2023 eru skráðir iðkendur um 5 milljónir og viðmið byggir í dag á hvort einstaklingur þurfi aðstoð við nám eða í daglegu lífi. Tækifæri hafa því opnast fyrir mun fleiri iðkendur en áður. Sérstök áhersla er núna á „unified“ keppni þar sem fatlaðir og ófatlaðir keppa saman.
30 íslenskir keppendur taka þátt í heimsleikum Special Olympics í Berlín 2023. Þau keppa í 10 íþróttagreinum, áhaldafimleikum, badminton, boccia, borðtennis, frjálsum íþróttum, golfi og golfi unified, keilu, lyftingum, nútímafimleikum, og sundi.
Keppendur koma víða að af landinu og eru fulltrúar aðildarfélaga ÍF, almennra íþróttafélaga og golfklúbba. Keppendur þurfa að vera 16 ára eða eldri og valið byggir á tilnefningum þar sem miðað er við annað en besta árangur. Lagt er mat á framfarir, frammistöðu, mætingu og félagslega hegðun og því eiga allir kost á að vera valdir sem leggja sig fram á æfingum.
Íslenski hópurinn mun búa í vinabænum Kempten frá 12. – 15. júní. Leikarnir fóru í fyrsta skipti fram utan USA árið 2003 og þá í Dublin Írlandi. Vinabæjarprógramm hófst 1995, sló í gegn og hefur verið fastur liður á heimsleikum Special Olympics. Markmið er að mynda tengsl við heimafólk og kynnast menningu þeirra landa sem halda leikanna. Undirbúningsnefnd í Kempten hefur lagt mikinn metnað í verkefnið og það verður vel tekið á móti íslenska hópnum. Frá Kempten verður haldið til Berlínar 15. júní en þá hefst undirbúningur fyrir keppnisdagana. Hópurinn gistir á hóteli við Potzdamer Platz þaðan sem haldið verður á mismunandi keppnistaði dag hvern.
Opnunarhátíð leikanna verður á þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní og lokahátíð er 25. júní.
Læknir íslenska hópsins verður Kristín Pálsdóttir en hlutverk læknis er að hafa yfirumsjón með læknaskýrslum og koma að því sem til fellur hvað varðar læknisfræðilega nálgun. Einnig að kynna sér Healthy athlete prógrammið sem stýrt er af læknum víða að úr heiminum.
Keppendur og þjálfarar
Miklir reynsluboltar eru í hópi þjálfara en einnig nýir liðsmenn. Þjálfarar taka við umsjón keppenda við brottför frá ÍSÍ 12. júní og bera ábyrgð á sínum hópi allt þar til komið er til landsins 26. júní. Keppendur eru með ýmsar greiningar og sérþarfir og sumir hafa aldrei farið að heiman. Um leið og fólk kynnist er það nafnið sem skiptir máli, manneskjan sjálf og ekkert annað. Sagan hefur sýnt að íslenskir keppendur sem farið hafa á heimsleika Special Olympics hafa sýnt mikla ábyrgð, tekið virkan þátt, fylgt reglum og verið til mikillar fyrirmyndar. Markmið er að allir blómstri í ferðinni og njóti sín á eigin verðleikum. Hlutverk þjálfara og fararstjóra er að sjá til þess að þetta markmið náist.
Allir keppendur skrifuðu í október 2022 undir samning við Special Olympics á Íslandi þar sem tekin er ábyrgð á markvissum undirbúningi hvað varðar þjálfun, hollt mataræði, hvíld og félagslega hegðun.
Fyrstu dagana fer í flestum greinum fram undankeppni þar sem styrkleikar eru metnir og í framhaldi þess er raðað í úrslitariðla. Í fyrsta skipti þarf að forskrá tíma í frjálsum íþróttum og sundi og mjög strangar reglur gilda um viðmið frá skráðum tíma. Það sem er lykilatriði á þessum leikum er að jafningjar takist á og að allir eigi sömu möguleika á að vinna til verðlauna. Fréttir frá leikunum byggja því ekki á árangri eða úrslitum heldur er reynt að vekja athygli á öðru sem ætti ekki síður að þykja fréttnæmt. Einstaklingar fá tækifæri til að sýna styrkleika, njóta sín á eigin verðleikum og sumir standa á verðlaunapalli í fyrsta skipti. Ástæða er til að vekja meiri athygli á sýn og gildi Special Olympics þar sem horft er á áhrif íþróttastarfs í þeim tilgangi að byggja upp sterka og sjálfstæða einstaklinga á vettvangi þar sem allir fá sömu tækifæri til að láta ljós sitt skína. Þarna er gefin ný sýn á íþróttastarf en flestir þekkja aðeins hið hefðbundna keppnisumhverfi þar sem aðeins þeir bestu fá verðlaun.
Magnús Orri Arnarson hefur unnið fyrir Special Olympics á Íslandi og ÍF, myndband um hverja grein sem birt hefur verið jafnóðum í vetur. Kynningarmyndband um íslenska hópinn er birt hér fyrir neðan.
Fulltrúar hópsins „ Með okkar augum“ munu mæta til Berlínar og fylgja keppendum eftir.
Daði Þorkelsson, rannsóknarlögreglumaður verður fulltrúi LETR Island í alþjóðlegum hópi lögreglumanna sem hleypur kyndilhlaup fyrir leikana.
Heimasíða leikanna https://www.berlin2023.org/
Yfirlit yfir keppnisstaði; https://www.berlin2023.org/en/sports/venues
Messe; Boccia, Badminton, Borðtennis, Lyftingar, Júdó, Áhalda og Nútímafimleikar,
Olympiapark; Frjálsar íþróttir. – Bowling World; Keila. – SSE; Sund Bad Saarow; Golf.
Yfir 120 manna hópur aðstandenda fer til Berlínar til að fylgjast með sínu fólki. Umsjón með undirbúningi hefur Karen Ástu Friðjónsdóttur, sem er í hlutverki Family Coordinator.
Fulltrúar stjórnvalda, samstarfsaðila ÍF og íþróttahreyfingarinnar hafa staðfest áhuga á að vera viðstaddir nokkra daga leikanna en það verður kynnt nánar síðar