Heim 2. tbl 2023 Að loknum leikum – Special Olympics 2023

Að loknum leikum – Special Olympics 2023

5 min read
Slökkt á athugasemdum við Að loknum leikum – Special Olympics 2023
0
552

Við fengum það frábæra tækifæri að fá að vera hluti af rannsóknarteymi Special Olympics í Berlín 2023.

Við erum hluti af alþjóðlegu samstarfsverkefni milli nokkurra háskóla og stofnanna í Evrópu. Verkefni er kallað IDEAL 2.0 og í grunninn snýst það um að styðja við þátttöku einstaklinga með þroskahömlun og/eða einhverfu í íþróttastarfi og almennt í hreyfingu. 

Okkur hluti í verkefninu er að hanna fræðsluefni fyrir þjálfara og kennara um hvað ber að hafa í huga varðandi þjálfun einstaklinga með þroskahömlun og/eða einhverfu. 

Undanfarna mánuði höfum við verið að taka viðtöl við íslenska þjálfara sem hafa reynslu af þjálfun einstaklinga með þroskahömlun og/eða einhverfu. Markmið ferðarinnar til Berlín var að ná viðtölin við erlenda þjálfara á Special Olympics til að fá innsýn inní þeirra þjálfunaraðferðir og þannig fá víðari mynd af því hvernig þjálfarar nálgast þjálfun einstaklinga með þroskahömlun og/eða einhverfu. Okkur tókst að taka viðtöl við tíu erlenda þjálfara af níu mismunandi þjóðernum, meðal annars frá Indlandi, Suður-Kóreu, Kanada, Pakístan, Ítalíu og Sameinuðu-arabísku-furstadæmunum. Þjálfararnir á leikunum voru mjög hjálpsamir þrátt fyrir að vera uppteknir. Næsta árið munum við útbúa fræðsluefni út frá þessum viðtölum fyrir þjálfara, bæði fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. 

Það var gaman að heyra frá mismunandi nálgunum þjálfara og fengum við mikið af upplýsingum sem geta nýst í fræðsluefnið. Heilt yfir var ákveðið þema sem við heyrðum marga þjálfara minnast á í viðtöluntum bæði heima á Íslandi og í Berlín. Margir þjálfarar töluðu um að mikilvægt sé að einblína ekki á veikleika einstaklingsins, heldur að mæta hverjum og einum þar sem hann er og vinna þannig útfrá styrkleikum hvers og eins. 

Special Olympics er risastór viðburður og var magnað að upplifa stemninguna og gleðina sem ríkti á leikunum. Mjög vel var staðið að öllu sem við kom leikunum, til dæmis var keppnisaðstaðan til fyrirmyndar og opnunarhátíðin í heimsklassa. Það er augljóst að markmiðið er að efla þátttakendur bæði andlega og líkamlega með því að sameina einstaklinga frá öllum heimshornum í gegnum íþróttir. 

Við viljum þakka fyrir þetta einstaka tækifæri og munum við gera okkar besta í að miðla þessum upplýsingum áfram. 

 

Bestu kveðjur, 

Gunnar Ingi Garðarsson
og Snorri Örn Birgisson,
Meistaranemar í heilsuþjálfun-
og kennslu við Íþróttafræðisvið
Háskólans í Reykjavík.

Sækja skyldar greinar
Load More By Anna Karólína Vilhjálmsdóttir
Load More In 2. tbl 2023
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Lífleg helgi á Akureyri

Það var líf og fjör á Akureyri um miðjan mars þegar Special Olympics körfuboltahópur Hauka…