Heim 1. tbl 2023 Ármann Íslandsmeistari: Ingeborg með risa bætingu

Ármann Íslandsmeistari: Ingeborg með risa bætingu

4 min read
Slökkt á athugasemdum við Ármann Íslandsmeistari: Ingeborg með risa bætingu
0
893

Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í frjálsum innanhúss fór fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal í dag. Lið Ármanns varð stigahæsta lið mótsins og þar af leiðandi Íslandsmeistari, fjöldamargar persónulegar bætingar féllu í dag þar sem Ingeborg Eide Garðarsdóttir stórbætti sinn besta árangur í kúluvarpi.

Mótið gekk vel fyrir sig í styrkri stjórn frjálsíþróttanefndar ÍF. Við viljum einnig koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem störfuðu við mótið, án ykkar sjálfboðaliðanna er ekkert mót.

Stefanía Daney Guðmundsdóttir frá Eik á Akureyri er í fantaformi um þessar mundir en hún náði í dag einni af sinni sterkustu stökkseríum á ferlinum þegar hún keppti í langstökki T20 (þroskahamlaðir). Stökkserían hjá Stefaníu var 5,04 – 5,02 – 5,01 – X – 4,98 – 5,04.

Ingeborg Eide Garðarsdóttir hjó svo nærri Íslandsmestinu í kúluvarpi T37 (hreyfihamlaðir) þegar hún varpaði kúlunni 9,40m en nýverið setti hún persónulegt met á heimsmótaröð IPC í Dubai þegar hún varpaði kúlunni 9,01m sem var þá einnig persónulegt met. Frábær árangur hjá Ingeborgu sem verður á faraldsfæti næstu misser í undirbúningi og aðdraganda heimsmeistaramótsins í frjálsum sem fram fer í París í sumar.

Aníta Ósk Hrafnsdóttir frá Firði setti svo nýtt Íslandsmet í 1500m hlaupi T20 kvenna þegar hún kom í mark á tímanum 6:43,03 mín. Aníta var ekki ein um að setja met í dag því það gerði Kristófer Fannar Sigmarsson einnig í kúluvarpi F20 (þroskahamlaðir) þegar hann varpaði kúlunni 9,03 metra.

Það var góður andi við mótið og ljóst að frjálsíþróttafólk úr röðum fatlaðra er óðar að komast á skrið á nýjan leik og eldri og reyndari keppendur að láta sjá sig aftur á tartaninu. Þá má einnig geta þess að Blikinn Alexander Már Bjarnþórsson fór mikinn í hlaupagreinum dagsins og verður fróðlegt að fylgjast með þessum unga Blika á næstunni.

Úrslit mótsins má sjá hér

Myndir/ JB: Ingeborg Eide í kúluvarpi á efri myndinni en á þeirri neðri eru liðsmenn Ármanns að fagna titlinum.

Sækja skyldar greinar
Load More By Jón Björn Ólafsson
Load More In 1. tbl 2023
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Bocciaveisla á Akureyri

Nýverið fóru Íslandsmót og Hængsmót í boccia fram saman á Akureyri en tilefni fyrir þessu …