Heim 1. tbl 2023 Ármann Íslandsmeistari: Ingeborg með risa bætingu

Ármann Íslandsmeistari: Ingeborg með risa bætingu

4 min read
Slökkt á athugasemdum við Ármann Íslandsmeistari: Ingeborg með risa bætingu
0
545

Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í frjálsum innanhúss fór fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal í dag. Lið Ármanns varð stigahæsta lið mótsins og þar af leiðandi Íslandsmeistari, fjöldamargar persónulegar bætingar féllu í dag þar sem Ingeborg Eide Garðarsdóttir stórbætti sinn besta árangur í kúluvarpi.

Mótið gekk vel fyrir sig í styrkri stjórn frjálsíþróttanefndar ÍF. Við viljum einnig koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem störfuðu við mótið, án ykkar sjálfboðaliðanna er ekkert mót.

Stefanía Daney Guðmundsdóttir frá Eik á Akureyri er í fantaformi um þessar mundir en hún náði í dag einni af sinni sterkustu stökkseríum á ferlinum þegar hún keppti í langstökki T20 (þroskahamlaðir). Stökkserían hjá Stefaníu var 5,04 – 5,02 – 5,01 – X – 4,98 – 5,04.

Ingeborg Eide Garðarsdóttir hjó svo nærri Íslandsmestinu í kúluvarpi T37 (hreyfihamlaðir) þegar hún varpaði kúlunni 9,40m en nýverið setti hún persónulegt met á heimsmótaröð IPC í Dubai þegar hún varpaði kúlunni 9,01m sem var þá einnig persónulegt met. Frábær árangur hjá Ingeborgu sem verður á faraldsfæti næstu misser í undirbúningi og aðdraganda heimsmeistaramótsins í frjálsum sem fram fer í París í sumar.

Aníta Ósk Hrafnsdóttir frá Firði setti svo nýtt Íslandsmet í 1500m hlaupi T20 kvenna þegar hún kom í mark á tímanum 6:43,03 mín. Aníta var ekki ein um að setja met í dag því það gerði Kristófer Fannar Sigmarsson einnig í kúluvarpi F20 (þroskahamlaðir) þegar hann varpaði kúlunni 9,03 metra.

Það var góður andi við mótið og ljóst að frjálsíþróttafólk úr röðum fatlaðra er óðar að komast á skrið á nýjan leik og eldri og reyndari keppendur að láta sjá sig aftur á tartaninu. Þá má einnig geta þess að Blikinn Alexander Már Bjarnþórsson fór mikinn í hlaupagreinum dagsins og verður fróðlegt að fylgjast með þessum unga Blika á næstunni.

Úrslit mótsins má sjá hér

Myndir/ JB: Ingeborg Eide í kúluvarpi á efri myndinni en á þeirri neðri eru liðsmenn Ármanns að fagna titlinum.

Sækja skyldar greinar
Load More By Jón Björn Ólafsson
Load More In 1. tbl 2023
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Hákon reynslunni ríkari eftir EM í borðtennis

Borðtennismaðurinn Hákon Atli Bjarkason hefur lokið keppni á Evrópumeistaramótinu í borðte…