Bogfimimaðurinn Þorsteinn Halldórsson hefur lokið keppni á Evrópumótaröð Alþjóða Bogfimisambandsins en nýverið fór mótið fram í Nove Mesto í Tékklandi. Þorsteinn komst þá í 16 manna úrslit en féll þar úr leik.
Þorsteinn lenti í erfiðri uppákomu við mótið þar sem skel sem hann notar utan um búk sinn í keppninni var fórnarlamb regluverksins og minnka varð skelina skv. reglubreytingu frá World Archery í marsmánuði. Við þeim breytingum var orðið á staðnum sem var vísast ekki gott veganesti inn í keppnina.
Þorsteinn hafði betur í 24 manna úrslitum í opnum flokki með sveigboga gegn Fong Ka Keung Tommy frá Hong Kong 137-131. Í 16 manna úrslitum mætti hann Ítalanum Bonacina Matteo þar sem sá ítalski hafði betur í spennandi keppni 146-144.
Næst á dagskrá hjá Þorsteini er heimsmeistaramótið í Pilsen í Tékklandi en mótið fer fram dagana 17.-23. júlí þar sem efstu keppendur munu vinna sér inn sæti á Paralympics í París 2024.