Heim 1. tbl 2023 „Það skiptir mestu máli að þjálfarinn sé áhugasamur“

„Það skiptir mestu máli að þjálfarinn sé áhugasamur“

19 min read
Slökkt á athugasemdum við „Það skiptir mestu máli að þjálfarinn sé áhugasamur“
0
702

Dalrós Líf Ólafsdóttir, Eyrún Birta Þrastardóttir og Magnfríður Jóna Kristjánsdóttir, nemendur við Háskóla Íslands.

Við erum þrjár ungar konur í námi við Háskóla Íslands og fengum það verkefni að skoða hugmyndir íþróttafólks um kyn þjálfara. Við höfum fylgst með íþróttum í sjónvarpi og leiknum sjálfum og fannst eins og það væru miklu fleiri karlar að þjálfa heldur en konur. Við vildum líka fræðast um konur í leiðtogahlutverkum innan íþróttahreyfingarinnar. Í þessari grein ætlum við að segja frá niðurstöðum verkefnisins en við töluðum við íþróttafólk, þjálfara og stjórnanda hjá íþróttahreyfingunni. Íþróttafólkið var í ýmsum íþróttagreinum, við tókum viðtöl við bæði karla og konur. Hlutföll kynjanna sem tóku þátt voru 15 konur og 8 karlar eða samtals 23 einstaklingar. Íþróttafólkið er allt ungt fólk og var ýmist í skóla eða vinnu ásamt því að stunda íþrótt sína. Íþróttagreinarnar voru innan ýmissa sérsambanda Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Til dæmis Knattspyrnusambandið, Handknattleikssambandið, Frjálsíþróttasambandið og Íþróttasamband fatlaðra. Einn viðmælandi stundaði íþrótt utan ÍSÍ. Við tókum viðtöl við tvo þjálfara og einn stjórnanda sem allar voru konur og höfðu mikla reynslu af íþróttahreyfingunni, fyrst sem iðkendur og síðar sem þjálfarar og stjórnandi. Það er áhugavert að heyra hvort kyn þjálfara skiptir íþróttafólkið sjálft einhverju máli en við fengum líka spennandi upplýsingar um leiðtoga og kynjaskiptingu í sjálfboðastarfi.

Val á íþrótt
Við byrjuðum á því að spyrja íþróttafólkið hvað hefði haft áhrif á val þeirra á íþróttagrein. Íþróttafólkið hafði allt stundað sína íþrótt lengi og náð góðum árangri. Þegar það var spurt af hverju það hafði valið þessa íþrótt sögðu langflestir að þeir hefðu gert það af áhuga og af því að íþróttin væri skemmtileg. Knattspyrnumaður sagði frá því að hann valdi fótboltann vegna þess að hans mati væri þetta skemmtilegasta íþrótt í heimi.

Svo virðist sem vinir, eldri systkini og foreldrar hafi talsverð áhrif á val á íþróttum. Nokkrir höfðu byrjað að æfa íþróttina af því að vinir og bekkjarfélagar stunduðu hana, eða af því að fjölskyldumeðlimir æfðu eða þjálfuðu íþróttina. Handboltamaður sagði frá því að mamma hans hafi þvingað hann til að æfa handbolta en bestu vinir hans voru líka að æfa. Hún hafi síðan hvatt hann til að halda áfram í handbolta eftir að vinir hans hafi hætt.

Nokkrir sögðust hafa fengið áhuga á íþróttinni af því að hún hentaði þeim, til dæmis af því að um væri að ræða einstaklingsíþrótt eða hentaði þeirra líkamsgerð og hæfileikum. Knattspyrnukona sagðist hafa fundið strax að hún væri góð í fótbolta og fannst mjög gaman á meðan frjálsíþróttamaður vildi nota hraðann sem hann hefði og vinna gull. 

Það var eingöngu einn viðmælandi sem hafði séð íþrótt sína í sjónvarpinu eða á netinu og þannig fengið áhuga og byrjað að æfa. Um var að ræða frjálsíþróttakonu sem sagðist ekki vilja æfa neina aðra íþrótt. Svipaða sögu sagði Crossfitkona sem var að leita að einhverju nýju að gera eftir að hafa orðið leið í boltaíþróttunum. Hún var vön að æfa í hóp þannig að henni fannst ekki nóg að fara ein í ræktina og var Crossfit því góð lausn auk þess sem henni langaði að vera sterk.

Skiptir kyn þjálfara máli?
Íþróttafólkið var spurt hvort það hefði haft bæði kven- og karlþjálfara. Það kemur kannski ekki óvart en sumt þeirra hafði aldrei haft kvenþjálfara. Það sem kom einnig á óvart var að það tengdist ekki kyni íþróttamanneskjunnar. Sumir karlarnir höfðu haft bæði kven- og karlþjálfara á meðan margar af konunum höfðu alltaf haft karlþjálfara. 

Það voru skiptar skoðanir meðal íþróttafólksins hvort kyn þjálfarana skipti máli. Sum sögðu það ekki skipta neinu máli á meðan önnur vildu frekar hafa annað hvort kynið og enn önnur höfðu aldrei pælt í kyni þjálfara. Skíðakona sagði frá því að hún hefði aldrei haft kvenþjálfara en liðið hennar væri að stefna að því að ráða konu. Hún sagðist vera spennt fyrir því af því að hún væri kona sjálf og hafði aldrei prófað að vera með konu sem þjálfara. Handboltamaður sem hafði haft reynslu af kven- og karlþjálfurum sagði að kvenþjálfarar væru skilningsríkari á meðan karlþjálfarar fái meira út úr „geðveiki“ og ýta meira undir álag. Kvenþjálfarar væru hins vegar með meiri gæði í leiknum. 

Þegar íþróttafólkið tók afstöðu til kyns þjálfarans þá virðist kyn þeirra sjálfra ekki hafa áhrif þar á. Til dæmis sagðist frjálsíþróttamaður frekar vilja kvenþjálfara á meðan frjálsíþróttakona vildi frekar karlþjálfara. Einn fótboltamaðurinn sagðist að hann mundi ekki mótmæla því að fá kvenþjálfara á meðan blakkona vildi frekar karlþjálfara. Annar fótboltamaður sagðist á hinn bóginn frekar vilja karlþjálfara af því að hann hefði alltaf haft karlþjálfara.

Nokkrir viðmælendur bentu síðan á að reynsla og hæfileikar þjálfarans skipti meira máli heldur en kynið. Crossfitkonan sagði líka að áhugi þjálfarans vera mikilvægur, hvort hann hefði áhuga á að þjálfa eða væri bara að gera þetta af því að þetta væri vinnan hans. 

 Hvar eru konur í leiðtogahlutverkum?
Við tókum viðtöl við þrjár konur sem voru í leiðtogahlutverkum innan íþróttahreyfingarinnar. Þær voru allar sammála um að það væri mikilvægt að konur væru leiðandi í hreyfingunni. Lykilstjórnandi hjá stóru sérsambandi sagði að henni fyndist að fleiri konur ættu að vera þjálfarar eða í yfirstjórn og að það væri mikilvægt að raddir kvenna heyrðust innan íþróttahreyfingarinnar.

Kvenþjálfararnir sögðust ekki vita nákvæmlega hvert kynjahlutfallið væri en þær væru meðvitaðar um að vera í minnihluta. Þær áttu það sameiginlegt að hugsa ekki eingöngu um það að íþróttafólkið mundi ná árangri í íþróttinni heldur vildu þær einnig hafa áhrif á líðan þeirra. Annar þjálfarinn sagðist vilja að íþróttafólkinu liði vel í líkömum sínum og hugsaði um heilsuna. Hinn þjálfarinn sagðist vilja leiðbeina á góðan og jákvæðan hátt þannig að manneskjan geri æfinguna rétt. Henni fannst mikilvægt að hrósa og með jákvæðninni byggja upp sjálfstraust hjá iðkandanum. 

Við fundum engar opinberar tölulegar upplýsingar um kynjahlutföll þjálfara en miða við reynslu þjálfarana og íþróttafólksins sem við töluðum við þá virðast vera færri konur við þjálfun heldur en karlar. Það er fleira fólk heldur en bara þjálfarar sem koma að íþróttahreyfingunni. Við völdum að skoða allar leikskýrslur úr Bestu deildinni fyrir sumarið 2022. Við völdum fótbolta þar sem það er ein af fjölmennustu íþróttagreinunum. Á leikskýrslunum er annað starfsfólk við leiki skráð eins og til dæmis liðstjórar og sjúkraþjálfarar. Við skoðuðum bæði meistaraflokk karla og kvenna. Niðurstöðurnar eru að í langflestum tilfellum eru það karlar sem voru skráðir á leikskýrslunar, bæði í meistaraflokki karla og kvenna. Til dæmis voru 13 lið í Bestu deild karla sumarið 2022 og eingöngu fjögur sem höfðu konu í hópnum en þær voru samtals fimm á móti 146 körlum. 

Svipaða sögu má sjá á leikskýrslum í Bestu deild kvenna en tíu lið spiluðu sumarið 2022 og voru 10 karlar skráðir sem aðalþjálfarar og engin kona. Þó svo konur hafi verið í meirihluta starfsmanna á leikskýrslu þá voru karlarnir samt 58 (37%) en hluti af konunum sem voru starfsmenn voru meiddir leikmenn sem sátu á bekknum tímabundið. 

Sjálfboðaliða- og foreldrastarf er mikið innan íþróttahreyfingarinnar. Mikið af því starfi er unnið af konum. Skíðakona lýsti því hvernig mömmurnar væru í foreldrafélaginu að selja kökur og skipuleggja ferðir á meðan karlarnir væru að skipuleggja mótin. Fimleikakonurnar sögðu að það væri ekki mikið um foreldrastarf hjá þeim.

Fótboltakona sagði frá því að í kringum liðið hennar störfuðu bæði karlar og konur. Karlarnir væru oft í öryggisgæslu og sæju um sjúkrabörurnar á meðan konurnar væru oftar í kaffisölunni. Einnig sagði hún að stundum hefðu erlendir leikmenn í liðinu hennar tekið að sér að þvo búningana en í gegnum tíðina hefðu það oft verið mæður leikmanna. Frjálsíþróttamaður sagði að á mótum væru það bæði karlar og konur sem væru að skipuleggja mótin og dæma.

Lokaorð
Það sem okkur fannst áhugaverðast var að íþróttafólkinu fannst kyn þjálfara ekki skipta öllu máli. Við erum sammála leiðtogunum að það væri gaman að sjá fleiri konur í leiðtogahlutverkum innan íþróttahreyfingarinnar. Okkur fannst líka skrítið hvað það eru fáar konur sem starfa með meistaraflokkum karla í fótbolta. Við veltum fyrir okkur hvort það sé einnig þannig í öðrum íþróttagreinum. Það sem við viljum að fólk læri af þessu er að karlar og konur eru ekki með sömu skoðanir og völd tengt íþróttum. Við höfum náð miklum árangri hvað varðar kynjajafnrétti en við getum gert betur!

Sækja skyldar greinar
Load More By Anna Karólína Vilhjálmsdóttir
Load More In 1. tbl 2023
Comments are closed.

Skoðaðu einnig

Woody Harrelson á Special Olympics!

Special Olympics á Íslandi hefur unnið að því í marga mánuði að fá kvikmyndina CHAMPIONS  …